Strákarnir okkar

Stemmningin í íslensku efnahagslífi er eins og á góðum rokktónleikum. Fasteignaverð hefur hækkað nær látlaust síðan 1997 og hlutabréfaverð hefur hækkað upp úr öllu valdi frá ársbyrjun 2003. Kjöraðstæður hafa verið fyrir hendi, mikið fjármagn í umferð, lágir vextir og stöðug króna.

Stemmningin í íslensku efnahagslífi er eins og á góðum rokktónleikum. Fasteignaverð hefur hækkað nær látlaust síðan 1997 og hlutabréfaverð hefur hækkað upp úr öllu valdi frá ársbyrjun 2003. Kjöraðstæður hafa verið fyrir hendi, mikið fjármagn í umferð, lágir vextir og stöðug króna.

Þegar litið er til hlutabréfamarkaðarins eru mjög skiptar skoðanir meðal sérfræðinga um þróun hlutabréfaverðs. Sérfræðingar hjá Íslandsbanka álíta að verð hlutabréfa muni hækka enn meira á næstunni en kollegar þeirra hjá Landsbankanum og KB banka eru hvorki bjartsýnir né svartsýnir á framhaldið. Stjórnendur stærstu og kröftugustu Kauphallarfélaganna eru a.m.k. á þeirri skoðun að áframhaldandi vöxtur geti aðeins orðið með útrás. KB banki seldi nýtt hlutafé á dögunum fyrir 50 milljarða kr. til viðbótar við 40 milljarða sem seldir voru í ágúst. Íslandsbanki, Bakkavör og Flugleiðir eru með útboð í undirbúningi og Burðarás og Straumur hafa nýverið gefið út nýtt hlutafé.

Það eru stórir hlutir í bígerð hjá stóru félögunum. Staðreyndin er sú að stærstu fyrirtækin hér á landi eru orðin svo stór að bandarísk risafyrirtæki koðna niður í samanburði við þau íslensku þegar hinir frægu höfðatöluútreikningar eru hafðir í huga. KB banki er t.d. metinn á 330 milljarða eftir síðasta útboð og þrjú önnur eru meira en 100 milljarða virði, Actavis, Íslandsbanki og Landsbankinn. Fátt bendir til annars en að þessi félög vaxi enn þá meira. Markaðsvirði KB banka í dag er tíu sinnum hærra en markaðsvirði Eimskipafélagsins sem var það verðmætasta á gamla Verðbréfaþinginu fyrir fimm árum! Pharmaco, sem var forveri Actavis Group, varð fyrsta félagið til að slá 100 milljarða markið í fyrra og er nú 150 milljarða virði. Sýnir þetta bersýnilega þann ótrúlega árangur sem stjórnendur KB banka og fleiri félaga hafa náð á skömmum tíma.

En þegar stærðir sem þessar eru skoðaðar frekar koma ótrúlegir hlutir í ljós. Segjum svo að Ísland væri jafnoki Bandaríkjanna hvað fólksfjölda varðar. Ef við gerum ráð fyrir að 1 Íslendingur sé fyrir hverja 1.000 Bandaríkjamenn og dollarinn standi í 70 krónum þá væri KB banki í raun 13 sinnum verðmætari en verðmætasta félag Bandaríkjanna, General Electric (GE). GE er rétt rúmlega 24.500 milljarða virði. KB banki væri þá 15 sinnum verðmætari en Microsoft, sköpunarverk Bill Gates og 36 sinnum meira virði en Intel. Íslandsbanki og Landsbankinn, sem eru mjög sambærilegir að verðmæti, myndu vera 5 sinnum verðmætari en GE.

Samanburðurinn er enn þá hagstæður þegar KB banki er borin saman við Nokia sem hefur borið ægishjálm yfir önnur finnsk félög. Markaðsvirði Nokia er tæpir 4.830 milljarðar króna sem þýðir að félagið er 15 sinnum verðmætara en KB banki en ef markaðsvirði íslenska bankans væri margfaldað með 17 (Finnar eru um 17 sinnum fleiri en Íslendingar) þá kæmi út 5.600 milljarðar kr.

Oft er sagt að mikilvægi Nokia fyrir finnskt samfélag sé meira en nokkurn geti órað fyrir. Félagið nái út fyrir gröf og dauða. Þessir samanburðarreikningar eru auðvitað varhugaverðir því ekkert tillit er tekið til rekstrartalna, s.s. hagnaðar, eigna eða skulda. En það þarf ekkert að fjölyrða að stærstu íslensku félögin eru að verða algjörar megasamsteypur og í raun allt of stór fyrir þetta blessaða land. En sannur Íslendingur sem undirritaður ætlar samt að styðja sína menn í útlöndum.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)