Fyrir ástina á leiknum

Ég er ein af þeim sem hef aldrei skilið öll lætin í kringum fótbolta og hef velt því fyrir mér hvort þessi ólæknandi baktería gæti hreinlega ekki verið heilsuspillandi. Ég hef bara aldrei skilið þetta. Því finnst mér það í líkingu við það að einhver af mínum listrænt steingeldu vinum segðist hafa fundið fegurðina í ballet, að segja frá því að ég hef séð ljósið í fótbolta.

Ég er ein af þeim sem hef aldrei skilið öll lætin í kringum fótbolta. Það hafa í gegnum tíðina þó aðallega verið karlmenn í kringum mig sem hafa þjáðst af þessari ólæknandi bakteríu. Margir hverjir af þannig ástríðu að manni hefur hreinlega ekki staðið á sama. Jafnvel spurt sig að því hvort þetta geti ekki bara beinlínis verið heilsuspillandi. Að leyfa leðurtuðru sem tilviljanakennt slysast í annað markið eða hitt, hafa slíkt tak á skapi sínu að leikar og úrslit hverju sinni virðast getað fengið ólíklegasta fólk gjörsamlega til að missa stjórn á sér.

Þá er sigurinn til þess líklegur að færa slíka himinsælu að hörðustu karlmenn fallist í faðma og vatni jafnvel músum. Tapið er hinsvegar líklegt til að valda þessum sama boltasinnaða skara þannig óþægindum og þrautum, að manni finnst nær ótrúlegt að þetta sé allt á sig leggjandi. Það lítur að minnsta kosti út fyrir að vera heilmikið álag að ,vera í boltanum’ af lífi og sál. Ég hef aldrei skilið þetta.

Nú þegar komið er á aldurskeiðið þar sem ekki er lengur rétt að merkja á eyðublöðum við litla boxið sem við stendur 16-25 ára, og þess í stað þörf fyrir að þvinga höndina til að krossa í þann sem við stendur 26-34 ára, er maður orðinn svona ágætlega meðvitaður um sjálfan sig. Getu sína og langanir, hvað manni finnst um menn og málefni, hverju maður stefnir að, í hverju maður gæti séð sig fyrir sér í framtíðinni o.s.frv. Vitanlega eru þó alltaf vafaatriði um það sem framtíðin ber í skauti sér.

En hvort það ætti eftir að eiga fyrir manni að liggja að detta í það að hafa einhvers konar ánægju af fótbolta er nokkuð sem hefur a.m.k. aldrei verið vafaatriði.

Því finnst mér það í líkingu við það að einhver af mínum listrænt steingeldu vinum segðist hafa fundið fegurðina í ballet, að segja frá því að ég hef séð ljósið í fótbolta. Glætu.

Ég hef að undanförnu, ákveðinna aðstæðna vegna, ítrekað lent í því að þurfa að vera opin fyrir því að spila þessa ágætu tegund bolta. Þetta hefur gengið svo langt að ég fann mig nýlega í því að fljúga þvert yfir hnöttinn með knöttinn til þess eins að leika með hann við erlenda starfsbræður mína!

Ég er fyrst til að játa að ég gæti hafa átt veigameiri þátt en aðrir liðsmenn í slöku gengi á erlendri grundu enda enn hæglega hægt að telja skiptin sem fætur mínir hafa snert fótbolta. En þar sem ég stóð í markinu og vissi ekki á nokkrum tímapunkti hvort um horn eða innkast væri að ræða en samt að missa mig af æsingi, sá ég ljósið. Liðsheildina, stemmninguna, kappið, hasarinn….og upplifði nákvæmlega það sem hafði verið mér fjærst-að gjörsamlega tapa mér í leiknum. Hvað er í gangi?!

Ég gæti ekki útskýrt rangstöðu þótt líf mitt lægi við, og þó svo mér leiðist að viðurkenna það, enda yfirlýst and-fótboltasinnuð, þá lítur út fyrir að boltinn sé bara að verða eitthvað annað og meira en treyjuskiptin í lokin.

Í þessari litlu reynslusögu í vikulok felast auðvitað fjölmörg skilaboð, en kannski þau helst að veröldin er alltaf ný. Það liggur því fyrir, eins og dæmið sannar, að hægt er að sjá ljós í því allra fjarstæðukenndasta sé því bara gefið tóm og tækifæri. Sem hlýtur að teljast ágætis veganesti út í helgina.

Góða helgi.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.