Einkarekstur heilsugæslunar

Í ljósi sívaxandi útgjalda vegna heilbrigðismála er nauðsynlegt að grípa til aðgerða svo að þeir fjármunir nýtast sem best. Rannsóknir hafa sýnt með ótvíræðum hætti að vænlegast sé að efla heilsugæslu sem fyrsta valkost í heilbrigðiskerfinu og víða hafa markaðslaunir verið innleiddar með framúrskarandi árangri.

Á síðastliðnum árum hefur í umræðunni um heilbrigðismál á vesturlöndum verið leidd rök að því að efling heilsugæslu sé lykilatriðið í því að stemma stigu við vexti heilbrigðisútgjalda og stuðli einnig að skynsamlegri nýtingu fjármuna. Ein helsta ástæða þess er sú yfirsýn yfir heilsu einstaklinga sem heilsugæsla hefur og það samræmingarhlutverk sem henni er ætlað að gegna. Rannsóknir á hagkvæmni mismunandi lausna í skipulagningu heilbrigðisþjónustu bendir til þess að með eflingu heilsugæslunnar megi draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins og um leið stuðla að bættu almennu heilbrigði um leið.

Einkarekstur heilsugæslustöðva ásamt öðrum þáttum heilbrigðiskerfisins er augljós kostur fyrir yfirvöld til þess að ná fram hagræðingu og betri nýtingu heilbrigisútgjalda. Einkarekstur þekkist í ýmisskonar mynd víðsvegar um heim og er slíkt fyrirkomulag notað töluvert við heilsugæslu í Bretlandi, Danmörku og Noregi með góðum árangri. Í öllum þessum löndum þykir heilsugæsla vera til fyrirmyndar í alþjóðlegum samanburði.

Mikilvægt er að aðskilja þátt kaupanda og seljenda heilbrigðisþjónustu og skapa þannig svigrúm fyrir aðkomu einkaaðila að rekstrarþættinum. Hið opinbera hefði engu að síður eftirlit með að þjónustan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru en ber ekki lengur ábyrgð á rekstrinum. Hið opinbera á að hafa eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta uppfylli ströngustu gæðakröfur en ekki endilega að veita slíka þjónustu. Frammistöðu rekstraraðila á að meta reglulega en slíkt veitir einkaaðilum aðhald.

Hvarvetna í Evrópu hafa útgjöld til heilbrigðismála verið mjög vaxandi á undanförnum árum. Við þessu þurfa stjórnvöld að bregðast við og hafa umræður um skipulag heilsugæslu verið mjög líflegar síðasta áratuginn. Eitt helsta meginstefið í umbótarviðleitni stjórnvalda í þróuðum ríkjum er innleiðing markaðslausna innan opinberrar heilbrigðisþjónustu. Með þeim hætti er ríkisreknum heilbrigðisstofnunum jafnvel gert að „keppa” við einkaaðila eða sjálfseignarstofnanir um að fá verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu.

Ef borin eru saman lönd OECD og skoðað hversu mikið af opinberu fé rennur til heilbrigðismála, kemur í ljós að Íslendingar verja næstmest allra á eftir Þjóðverjum. Ísland er hins vegar ein yngsta þjóð Evrópu og sé tekið tilliti til aldursdreifingar, þá ver Ísland mest allra OECD þjóða af opinberu fé til heilbrigðismála. Opinber heilbrigðisútgjöld á hvern einstakling hækkuðu að raungildi um 61% frá árinu 1980 til 1998.

Í ljósi þessara staðreynda er augljóst að vandi íslenska heilbrigðiskerfisins fellst ekki í því að fjárframlög séu of lág, heldur hvernig úr þeim er unnið. Samkvæmt spám um fólksfjölgun og aldursdreifingu mun meðal aldur Íslendinga hækka á næstu árum í takt við það sem þekkist á Vesturlöndum. Kostnaður við heilbrigðiskerfið mun því aðeins koma til með að vaxa enn meira en nú er og er ólíklegt að hægt sé að standa undir því til lengdar.

Ný hugsun og nýjar úrlausnir við rekstur kerfisins eru því mikilvægar til þess að komast hjá því öngstræti sem í stefnir. Einkarekstur heilsugæslustöðva er ein af þessu nýju úrlausnum sem yfirvöld verða að horfa til.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.