Mikilvægi málsins

Öll vitum við hversu tungumálið er mikilvægt til að skiptast á skoðunum. Ýmsar rannsóknir benda til þess að tungumál sé ekki bara forsenda þess að geta tjáð skoðanir sínar, heldur sé það í vissum tilfellum forsenda þess að hafa þær yfir höfuð.

Yfirstjórnin í bók George Orwell, 1984, var á þeirri skoðun að ekki væri hægt að aðhyllast frelsi, jafnrétti eða bræðralag nema hægt væri að tjá þessi hugtök í orðum. Þeir unnu því hörðum höndum að því að koma í veg fyrir það. Þeir gerðu það ekki með því að banna orðin, heldur með því að breyta merkingu þeirra, einfalda tungumálið og staðla það, svo ekki væri hægt að nota orðið frjáls nema um óbeislaða hunda. Höfundar Star Trek tóku svipaðan pól í hæðina þegar þeir ákváðu að orðið „please“ væri ekki til í Klingonsku (það er reyndar ekki til í íslensku heldur, en samt erum við minna í því að drepa náungann en bandaríkjamenn).

Tengsl máls og minninga hafa verið rannsökuð nokkuð í gegnum tíðina. Slíkar rannsóknir hafa gefið vísbendingar um að tengsl séu milli máls og minninga. Virst hefur sem málnotkun sé á einhvern hátt tengd því að geta munað eftir einstökum liðnum atburðum. Með öðrum orðum virðist málið vera að ef einhver borðar vont epli þá man hann eftir því að epli eru vond, hvort sem hann kann að tala eða ekki. En ef hann kann að tala getur hann líka munað eftir atburðinum þegar hann borðaði eplið, hvað hann var að gera þegar hann fékk sér bita og svo framvegis.

Slíkar rannsóknir eru að sjálfsögðu vandkvæðum bundnar því að þær byggjast í flestum tilfellum á að skoða kornabörn, „úlfabörn“ – börn sem hafa týnst í skógi á unga aldri en komist af á einhvern hátt, eða dýr. Það þarf ekki að taka fram að enginn þessara hópa er sérstaklega heppilegur viðmiðunarhópur í samanburðarrannsókn.

Þess vegna hafa verið gerðar tilraunir til að einangra ákveðna þætti málsins og kanna hvaða áhrif þeir hafa á hugsun fólks. Til dæmis hafa einstaklingar frá ýmsum löndum verið beðnir að flokka litaspjöld í ákveðið marga flokka. Slík rannsókn leiðir í ljós að skilningur fólks á því hvað er sami liturinn stendur í beinu samhengi við hvað litirnir heita í þeim tungumálum. Ef tungumál viðkomandi gerir ekki upp á milli lillablás og fjólublás, þá gerir hann það ekki heldur.

Eins hafa málvísindamenn reynt að nýta sér það að sumir frumstæðir þjóðflokkar búa í sumum tilfellum ekki yfir máltækni til að tjá ákveðna hluti. Sem dæmi má nefna að tiltekinn þjóðflokkur á í máli sínu ekki til nein töluorð önnur en einn, tveir og margir. Meðlimir þessa þjóðflokks komast ágætlega af í sínu umhverfi án þessara orða. En ef þeim voru sýndar tvær myndir, ein af sjö göfflum og önnur af níu hnífum, og þeir beðnir að segja til um á hvorri myndinni væru fleiri hlutir, áttu þeir í stökustu vandræðum með það. Af þessu var dregin sú ályktun að þeir sem ekki gætu tjáð tölur í orðum gætu ekki heldur notað þær í sínu daglega lífi.

Svona rannsóknir er auðvitað hægt að gagnrýna á ýmsan hátt. Hægt er að segja að litaflokkararnir hafi skilið leiðbeiningarnar sem svo að þeir ættu að flokka litina eftir því hvað þeir hétu, frekar en eftir einhverri „raunverulegri“ flokkun. Eins er hægt að segja að frumbyggjarnir hafi ekki getað leyst þrautina því þeir kunnu ekki að telja, ekki vegna þess að orðin vantaði í málið. En hvernig er hægt að læra að telja án þess að geta talað um tölurnar, og af hverju misskilja allir litaflokkararnir leiðbeiningarnar?

Hvað sem mönnum finnst um svona rannsóknir, er í það minnsta hægt að stytta sér stundir við að lesa um þær, eða jafnvel spjalla um þær yfir föstudagskaffinu.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)