Hin ráðandi hugmyndafræði

Ekki láta nafnið fæla ykkur frá. Bókin The Right Nation: Conservative Power in America á fátt sameiginlegt með geðsjúklingum á borð við Ann Coulter, Rush Limbaugh og Bill O´Reilly. Höfundarnir eru tveir breskir blaðamenn, John Micklethwait og Adrian Wooldridge hjá The Economist, sem hafa starfað sem fréttaritarar í Bandaríkjunum undanfarin ár.

Árið 1831 kom franski snillingurinn Tocqueville til Bandaríkjanna. Í níu mánuði ferðaðist hann vítt og breitt um landið, rannsakaði hvaða hlutverki lýðræði gegndi og þau áhrif sem stjórnmál höfðu á félagslega, efnahagslega- og pólitíska þætti bandarísks samfélags. Niðurstöður þessara rannsókna sinna, birti hann svo í hinu klassíska riti sínu Democracy in America. Og að sumu leyti er svipað farið með Bretana Micklethwait og Wooldridge rúmlega 170 árum seinna. Þeir fara um gjörvöll Bandaríkin til að leita svara við því, af hverju Bandaríkin eru svona öðruvísi en önnur ríki á vesturlöndum. Það er ekki víst að öllum líki niðurstöður þeirra.

Líkt og heiti bókarinnar ber með sér, þá er umfjöllunarefni hennar íhaldshreyfingin í Bandaríkjunum; tilurð og uppgangur hennar. Að mati Micklethwait og Wooldridge, hafa Bandaríkin ávallt verið íhaldssöm þjóð; en á undanförnum 50 árum hefur smátt og smátt myndast öflug íhaldssöm hreyfing sem hefur náð að endurskapa hið pólitíska landslag í Bandaríkjunum sér í hag. Hugmyndafræði íhaldsmanna er hin ráðandi hugmyndafræði – 41% skilgreina sig sem íhaldsmenn á móti aðeins 19% sem skilgreina sig sem „liberal“. Og þetta er hreyfing sem á sér ekki neina hliðstæðu annars staðar í heiminum – ekki meira segja í Bretlandi.

Hvernig komust íhaldsmenn í þessa stöðu? Byrjum árið 1950. Repúblikanar höfðu þá ekki einn einasta öldungardeildarþingmann sem kom frá suðurríkjunum og aðeins 2 af 105 þingmönnum. Þegar Eisenhower var kosinn forseti tveimur árum seinna, var það í fyrsta skipti síðan 1928 sem forseti kom úr röðum repúblikana. En stefnumál hans báru þess mjög merki, að hversu miklu marki „liberalismi“ náði þvert yfir flokkslínur bæði demókrata og repúblikana. Jafnvel Eisenhower sjálfur lýsti sér sem „liberal“ árið 1952, þegar hann gagnrýndi niðurskurð til menntamála; „I am amazed at the thought of an education cut! This is the most important thing in society. Every liberal – including me – will disapprove“.

En árið 1984 er orðin algjör umbylting. Ronald Reagan vinnur stórsigur í forsetakosningunum og hlýtur meirihluta stuðning í öllum aldursflokkum og starfshópum – nema hjá atvinnulausum. Hvað gerðist eiginlega í millitíðinni? Að mati höfundanna, höfðu nokkrir lykilþættir í hugmyndafræði „liberals“ – keynesísk hagstjórn, að líta á ríkisvaldið sem tæki til þess að hjálpa fólki frekar en sem hindrun í vegi þess, frjálslyndi í félagsmálum – brugðist í augum margra Bandaríkjamanna, með kreppu, lágum væntingum fólks og auknum glæpum. Og þetta nýttu Repúblikanar sér. Í dag er hugmyndafræði íhaldsmanna sú áhrifamesta í Bandaríkjunum.

Bandarísk íhaldssemi er gjörólík hinni evrópsku, benda höfundarnir á. Hún er mikið fjandsamlegri ríkisvaldinu, einstaklingshyggjusinnaðri, bjartsýnni og þjóð- og trúræknari. Og meirihluti Bandaríkjamanna tekur miklu íhaldssamari afstöðu til flestra málefna heldur en evrópubúar, af því að þeir aðhyllast – almennt séð – mun íhaldssamari gildi. Með þessu eru höfundarnir ekki að halda því fram að allir Bandaríkjamenn séu íhaldsmenn, en ef litið er á viðhorf til helstu grundvallarþátta stjórnmála – hlutverk ríkisins, kapítalisma, ójöfnuðar og refsingu við glæpum – þá kemur í ljós stór gjá milli Bandaríkjanna og Evrópu. Jafnvel ef Bretland, það ríki sem næst stendur Bandaríkjunum, er borið saman. Skoðum nokkur atriði.

– Í Bandaríkjunum er hlutfall þeirra sem hafa 40% eða minna af meðaltekjum þrefalt fleiri en í Bretlandi. Miljónamæringar eru einnig mun fleiri í Bandaríkjunum.

– Bandaríkjamenn vilja minna ríkisvald. 30% af þjóðarframleiðslunni rennur til ríkisins, á móti 40% í Bretlandi. Það sama á þó ekki við þegar kemur til varnarmála – Bandaríkin eyða um tvisvar sinnum meira á mann til þess málaflokks.

– Aðeins 32% Bandaríkjamanna styðja bann við handbyssueign en 83% í Bretlandi. Fimm sinnum fleiri Bandaríkjamenn eru í fangelsum heldur en í Bretlandi, þrátt fyrir að Bretland sé það ríki í Evrópu sem harðast taki á glæpum.

– Tæplega 90% Bandaríkjamanna er mjög stolt af þjóðerni sínu. Í Bretlandi er hlutfallið í kringum 50%.

– Sú niðurstaða sem er kannski einna mest sláandi er varðandi skatta. Spurt hvort skattar væru of lágir og þeir ættu að vera hækkaðir til að setja meira fé í almenningsþjónustu, töldu rúmlega 50% Breta að það ætti að gera það. Í Bandaríkjunum voru einungis 1% á þessari skoðun.

– 60% Bandaríkjamanna taldi að hlutverk ríkisins væri að sjá til þess að fólk hefði frelsi til ná markmiðum sínum, frekar en að sjá til þess að enginn byggi við skort. Þetta hlutfall var öfugt farið í Bretlandi.

– Trúarbrögð eru mun mikilvægari þáttur í lífi fólks í Bandaríkjunum. Tæplega 60% Bandaríkjamanna sögðu trúna gegna mikilvægu hlutverki í lífi þeirra. Í Bretlandi átti þetta aðeins við um rúmlega 30%. Jafnframt trúir næstum helmingur Bandaríkjamanna á djöfulinn, en rétt rúmlega 10% Breta.

Og munum – þetta er aðeins samanburður við Bretland. Ef önnur evrópuríki eru borin saman verður gjáin mun breiðari.

En hvað ef John Kerry vinnur kosningarnar í nóvember. Mun þetta þá ekki breytast? Ekki að mati Micklethwait og Wooldridge. Þrátt fyrir að vera „Massachusetts liberal“, þá hefur hugmyndafræði íhaldsmanna einfaldlega haft það djúpstæð og varanleg áhrif á hið pólitíska landslag í Bandaríkjunum, að það yrði erfitt að sjá einhverjar stórar breytingar í bráð. Í allri kosningabaráttunni hefur Kerry þurft að gera sitt besta til að reyna falla inn í það íhaldssama umhverfi sem er til staðar; hljóma fastur fyrir í utanríkismálum, tala með atvinnulífinu, efla herinn og hann stakk jafnvel upp á því að John McCain, þingmaður Repúblikana, myndi verða varaforsetaefni hans.

Að lokum. „Svo fyrirsjáanlegt, en samt svo fullkomlega ófyrirséð“, sagði Tocqueville um frönsku byltinguna. Það sama mætti segja um þá byltingu sem hefur orðið í Bandaríkjunum undanfarna hálfa öld. Meginniðurstaða Micklethwait og Wooldridge er sú, að hin öfluga íhaldshreyfing í Bandaríkjunum sé ímynd þess sem geri Bandaríkin svona óvenjuleg – og eigi sér djúpar sögulegar rætur í bandarísku þjóðfélagi. Og það er mun líklegra, heldur en hitt, að í öllum grundvallaratriðum muni svo verða áfram.