Tyrkland og ESB

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birtir í vikunni skýrslu um hvort hefja eigi samningaviðræður við Tyrkland um aðild að sambandinu. Hugsanleg innganga Tyrklands virðist vekja sterk viðbrögð meðal almennings.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birtir í vikunni skýrslu um hvort hefja eigi samningaviðræður við Tyrkland um aðild að sambandinu. Ekki þótti fært að veita Tyrklandi, ásamt Rúmeníu og Búlgaríu, inngöngu þegar tíu ný ríki bættust í hóp Evrópusambandsríkja í vor. Vonast er til að síðari ríkin tvö geti gengið inn í sambandið árið 2007, en samningaviðræður hafa ekki enn hafist við Tyrkland.

Til þess að Tyrkland geti orðið aðili að Evrópusambandinu verður það að uppfylla svokölluð Kaupmannahafnarskilyrði (e. Copenhagen criteria). Í þeim felast meðal annars að í ríkinu sé stöðugt lýðræði, virðing sé borin fyrir mannréttindum og vernd minnihlutahópa tryggð. Þá verður að vera til staðar virkt markaðshagkerfi og einnig þarf að aðlaga löggjöf landsins að reglum Evrópusambandsins. Ef ákveðið verður að taka upp samningaviðræður við Tyrki verður þjóðinni gefinn langur aðlögunartími, en af inngöngunni getur fyrst orðið árið 2015. Tyrkir hafa þegar breytt ýmsu til þess að geta uppfyllt þau skilyrði, sem þeim eru sett. Í síðasta mánuði voru til að mynda samþykkt ný hegningarlög í landinu. Töluverð mótmæli urðu þó í kjölfar þessarar lagabreytingar, þar sem konum fannst þeim ekki tryggð nægileg réttindi í lögunum.

Hugsanleg innganga Tyrklands í Evrópusambandið virðist að jafnaði vekja sterkari viðbrögð meðal almennings heldur en innganga annarra ríkja hefur hingað til haft. Margt kemur þar til. Tyrkland stendur á milli Evrópu og Asíu, bæði hvað varðar landfræðilegar aðstæður jafnt sem menningarlegar. Hluti landsins liggur í Evrópu og hluti í Asíu og ekki eru allir á eitt sáttir um hvort Tyrkland teljist því í reynd til Evrópu.

Tvennt er það þó sérstaklega, ef marka má evrópska fjölmiðla, sem virðist valda fólki áhyggjum. Annars vegar er það sú staðreynd að flestir þeirra sjötíu milljóna íbúa, sem Tyrkland byggja, eru íslamstrúar. Óttast margir að það muni leiða til ýmissa árekstra. Hins vegar má ekki gleyma því að Tyrkland er mjög fátækt land og sjá hinir svartsýnustu það fyrir sér að með frjálsu fólksflæði innan Evrópusambandsins muni Tyrkir í umvörpum flytja til annarra aðildarríkja.

Birtist andstæðan við inngöngu Tyrkja einna helst í Frakklandi og Þýskalandi, þótt bæði Jacques Chirac Frakklandsforseti og Gerhard Schroeder, kanslari Þýskalands, hafi stutt aðild Tyrklands. Skoðanakannanir í Frakklandi sýndu í síðustu viku að mikill meirihluti almennings er á móti inngöngu Tyrkja, enda vill Chirac þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Burtséð frá þeim stóra markaði sem fæst með tilkomu Tyrklands hlýtur helsti ávinningur Evrópusambandsins af því að fá Tyrki í sambandið að vera nálægðin við Miðausturlönd. Bandaríkin hafa sífellt reynt að halda góðu sambandi við Tyrkland vegna staðsetningar landsins. Er þetta því hugsanlega leið Evrópusambandsins til að koma inn í allar slíkar viðræður og þar með gera sjálft sig að stærri ,,leikmanni” á alþjóðavettvangi.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)