Þétt pakkað á elliheimilinu

Ásmundur Stefánsson hagfræðingur kynnti í gær nýja rannsókn á því hvernig staða aldraðra verður eftir 40 ár, og voru niðurstöðurnar mjög jákvæðar. Það er því ágætt tilefni til að velta fyrir sér stöðu aldraðra í dag. Enn viðgengst það á elliheimilum landsins að heimilismönnum er ætlað að tvímenna í herbergjum sínum, sem oft eru heimili fólks í ár eða jafnvel áratugi. Hvernig má það vera?

Þröngt mega sáttir sitja, en öllu má þó ofgera.

Ásmundur Stefánsson hagfræðingur kynnti í gær nýja rannsókn á því hvernig staða aldraðra verður eftir 40 ár, og voru niðurstöðurnar mjög jákvæðar. Það er því ágætt tilefni til að velta fyrir sér stöðu aldraðra í dag. Enn viðgengst það á elliheimilum landsins að heimilismönnum er ætlað að tvímenna í herbergjum sínum, sem oft eru heimili fólks í ár eða jafnvel áratugi.

Vissulega eru sumir sem eru það hraustir að þeir þurfa ekki að leggjast inn á elliheimili fyrr en alveg undir það síðasta, og margir fá eins manns herbergi. Engu að síður á það við í allt of mörgum tilfellum að fólk þarf að deila herbergi með annarri manneskju. Þetta eru ekki stór herbergi, rúma tvö rúm og tvö skrifborð, og margir eyða miklum tíma í þessum herbergjum. Í þessu þrönga rými þarf fólk að láta sér lynda við herbergisfélagann, sem það hefur enga möguleika á að velja sér.

Einhverjum öldruðum finnst vafalaust þægilegt að búa í svona nánu sambýli við annan einstakling, og er það vel. Þeir ættu að sjálfsögðu áfram að eiga kost á tvíbýlisherbergjum. En flestir vilja það síður og það nær ekki nokkurri átt að þeim sé ekki boðið upp á annan valkost.

Vissulega er rekstur dvalarheimila fyrir aldraða ekki ókeypis, hátt í fimm milljarðar samkvæmt lauslegri athugun. Sumum kann að finnast það mikið, en í samanburði við hvað?

Þetta er svipuð upphæð og ríkið greiðir í vaxtabætur á hverju ári. Það er auðvitað betra að geta átt sína íbúð en að þurfa að leigja. Ef ekki væri fyrir vaxtabætur og húsaleigubætur þyrfti fólk jafnvel að deila íbúðum með öðrum. En eitt er að deila íbúð, og allt annað að deila herbergi.

Þetta er líka svipuð upphæð og ríkið eyðir í að niðurgreiða mjólkurframleiðslu á hverju ári. Ekki rollurnar, grænmetið eða fiskeldið. Nei, þessi upphæð fer bara í að borga kúabændum svo þeir geti haldið áfram að reka sín litlu og óhagkvæmu kúabú. Það dugir ekki sérherbergi eða séríbúð fyrir þá, þeir þurfa heilan sveitabæ svo þeir séu sáttir.

Það er löngu orðið tímabært að útrýma skyldutvíbýli á elliheimilum og sýna eldri borgurum þá sjálfsögðu virðingu að bjóða þeim upp á sérherbergi til að búa í á sínu ævikvöldi.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)