ECHELON

Hugmyndir um skipulagt eftirlit með borgurunum og kerfi í kringum það eru síður en svo nýjar af nálinni. Allt bendir til þess að á síðari hluta síðustu aldar hafi verið starfrækt njósnakerfi sem hleraði nánast öll þráðlaus samskipti á plánetunni og að það sé enn starfrækt.

Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september hefur átt sér stað þróun í átt til aukins eftirlits með borgurunum. En hugmyndir um skipulagt eftirlit með borgurunum og kerfi í kringum það eru síður en svo nýjar af nálinni. Allt bendir til þess að á síðari hluta síðustu aldar hafi verið starfrækt njósnakerfi sem hleraði nánast öll þráðlaus samskipti á plánetunni og að það sé enn starfrækt. Hafa ráðamenn í Evrópu svo miklar áhyggjur af þessu að fyrir nokkrum árum skipaði þing Evrópusambandsins rannsóknarnefnd til að rannsaka þetta njósnakerfi og skilaði hún ítarlegum og athyglisverðum niðurstöðum.

Í fyrri heimsstyrjöldinni hófst samvinna milli Bandaríkjanna og Breta í njósnamálum sem síðan varð mjög náin í seinni heimsstyrjöldinni. Strax eftir seinni heimsstyrjöldina hófust, að undirlagi Breta, viðræður á milli þjóðanna tveggja um að halda samstarfinu áfram á friðartímum. Var haft samband við Kanada og Ástralíu í kjölfarið sem veittu Bretum umboð til að halda viðræðunum áfram þar sem gert var ráð fyrir þátttöku þessara ríkja.. Viðræðurnar, sem tóku tvö ár, enduðu með því að í júní 1948 skrifuðu Bandaríkin, Bretland, Kanada, Nýja Sjáland og Ástralía undir svokallað UKUSA samning þar sem þjóðirnar skiptu öllum heiminum upp í 5 svæði sem hver þjóð átti að fylgjast með. Voru byggðar hlerunarstöðvar út um allan heim í þessum tilgangi. Kerfið fékk heitið ECHELON.

ECHELON getur fylgst með og hlerað öll samskipti frá öllum ríkjum heimsins sem fara um gervihnetti. Samhliða þessu eru einnig hleruð öll samskipti til og frá löndunum sem fara í gegnum aðra farvegi svo sem hefðbundnar símalínur og ljósleiðara. Því miður er nánast ómögulegt að segja til um fjölda njósnastöðva sem tengjast ECHELON þar sem slíkar stöðvar láta ekki mikið yfir sér. Þetta þýðir að sá hluti kerfisins er nánast algjörlega óþekktur.

Talið er að kerfið hafi tvo kosti sem aðgreinir það frá öðrum njósnakerfum:

Í fyrsta lagi hefur það hæfileika til að hafa eftirlit með flestum tegundum samskipta. Talið er að eftirlitsstöðvar og njósnagervihnettir geti náð til allra síma, fax eða tölvupóstsamskipta í heiminum sem fara annað hvort fram í gegnum gervihnött eða í gegnum land sem er aðili að UKUSA samningnum.

Í öðru lagi er talið að kerfið geti náð til þessara samskipta hvar sem er á jarðkringlunni þar sem búið er að koma upp njósnastöðvum og gervihnöttum skipulega víðs vegar um heiminn. Aðildarríkin deila með sér upplýsingum og mannafla og ná þannig að viðhalda njósnakerfi sem nær út um allan heim en ekkert þeirra gæti landfræðilega sett upp slíkt kerfi á eigin spýtur (eina landið sem getur það er Frakkland). Kerfið fer síðan skipulega í gegnum samskiptin með öflugum tölvum og leitar að lykilorðum sem sía út samskiptin sem ríkisstjórnirnar hafa áhuga á.

Ekki nóg með að kerfið ógni einkalífi manna vegna víðfemi þess og annara eiginleika heldur er mikill ógn falin í því að það starfar að miklu leyti á svæði sem nýtur lítillar lagaverndar. Kerfinu er yfirleitt ekki beint að íbúum í heimaríki eftirlitsaðilans þannig að þeir njóta ekki verndar laga eftirlitsaðilans. Lýðræðislegt eða pólitískt aðhald er einnig lítið því kjósendur telja yfirleitt að kerfinu sé ekki beint að þeim.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Evrópuþingsins kemur fram að öll aðildarríki að UKUSA samningnum hleri landlínur og ljósleiðara inn í löndin. Þetta þýðir t.d. að Bretland nær, u.þ.b. 5% af öllum Internet samskiptum á meginlandi Evrópu sem fara óvart í gegnum Bretland á leið sinni milli tveggja aðila á meginlandinu, að viðbættum öllum samskiptum sem þurfa að fara inn í landið.

Evrópa sem ein heild er því tiltölulega örugg að þessu leyti en öðru máli gegnir um Ísland. Öll samskipti landsins fara annað hvort í gegnum gervihnött eða með ljósleiðurum sem fara í báðar áttir inn í UKUSA lönd. Þetta þýðir að öll samskipti til og frá landinu er hleruð af sama aðila.

Samskipti Íslands við umheiminn hafa almennt ekki verið dulkóðuð sem þýðir að þau hafa verið öllum ECHELON-ríkjunum opin og aðgengileg. Þrátt fyrir að ECHELON-ríkin séu bandamenn okkar þá hafa komið upp atvik á milli Íslands og einstakra ríkja þar sem leynd hefur verið nauðsynleg. Sem dæmi má nefna í Þorskastríðunum og einnig er hægt að nefna allar viðræðurnar um herstöðina á Miðnesheiði, síðast á þessu ári. Ætla má að samskipti íslenska ríkisins við sendiráðin í London og DC og íslenskar sendinefndir hafi á liðnum árum verið gulls ígildi fyrir ríkistjórnir þeirra landa.

*Þess ber að geta að öll ríkin sem eiga að vera aðilar að UKUSA samningnum neita tilvist hans. Engu að síður hafa rannsóknaraðilar sýnt fram á að yfirgnæfandi líkur eru á því sbr. t.d. skýrslu rannsóknarnefndar Evrópuþingsins. Búið er að sýna fram á tengingu á milli byggingar njósnastöðva þegar nýjum samskiptagervihnetti er skotið á loft, ýmsir lykilmenn innan landanna hafa óvart minnst á samninginn og hægt er finna skjöl í ríkjunum þar sem vísað er í samninginn og ECHELON.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.