Þótt fátt annað hafi komist að í dönskum fjölmiðlum undanfarna daga en skilnaður innan konungsfjölskyldunnar var að finna frétt í Jyllands-Posten um nýtt frumvarp er Bertel Haarder, ráðherra innflytjendamála þar í landi, hyggst leggja fram á næstunni. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að sekta þá innflytjendur í Danmörku, sem ekki læra dönsku. Sektin mun nema um 360.000 íslenskum krónum, sem dregst af um 600.000 króna tryggingu sem leggja þarf fram áður en útlendingur fær dvalarleyfi.
Ráðherrann greindi frá því í áðurnefndri frétt að með þessu væri verið að hjálpa innflytjendum og auka atvinnumöguleika þeirra. Ætlunin væri ekki að ná peningum inn í þjóðarbúið heldur að fá fólk til að læra dönsku. Langflestir nýir íbúar í Danmörku setjast á skólabekk til að læra tungumálið en næstum þriðjungur þeirra hættir náminu. Sektirnar eiga því að vera leið til að minnka þetta hlutfall.
Þá var í vikunni einnig greint frá tillögum Venstre um að auka heimildir barnaverndaryfirvalda til að taka börn innflytjenda frá foreldrum sínum og færa fósturforeldrum. Er einkum haft í huga að færa börn frá þeim fjölskyldum þar sem þeim eru kennd gildi sem ekki geta liðist í dönsku samfélagi.
Irene Simonsen, talsmaður Venstre í innflytjendamálefnum, sagði að margir innflytjendur færu til að mynda ekki leynt með hatursfullar skoðanir sínar á Dönum. Eins og staðan væri í dag hefðu yfirvöld eingöngu heimildir til þess að taka börn frá foreldrum þar sem greinileg vanræksla ætti sér stað. Það væri í raun einnig vanræksla að leyfa börnum ekki að aðlagast dönsku þjóðfélagi og því væri þeim betur borgið hjá fjölskyldum þar sem þau læra dönsk gildi.
Þótt skiljanlegt sé að Danir, sem og aðrar þjóðir, vilji að innflytjendur aðlagist háttum landsins þá verður ekki annað sagt en aðgerðir af þessu tagi nái nokkuð langt og skerði réttindi innflytjenda svo um munar. Það sem veldur undirritaðari áhyggjum er hvort ekki líði á löngu þar til Íslendingar taki upp svipaðar reglur hér á landi, því við höfum nú löngum sótt í smiðju annarra Norðurlandaþjóða þegar kemur að innflytjendalöggjöf. Til að mynda er fyrirmyndin af hinni umdeildu 24 ára reglu í útlendingalögunum fengin frá Dönum, en hún kveður á um að maki útlendings skuli vera eldri en 24 ára til að unnt sé að veita honum dvalarleyfi aðstandanda. Sagði meðal annars í greinargerðinni með íslensku lögunum að rík verndarsjónarmið lægju á baki og byggt væri á reynslu nágrannaríkja.
Evrópuráðið gagnrýndi nýlega dönsku innflytjendalöggjöfina og tiltók einkum hina ströngu 24 ára reglu. Er löggjöfin hin strangasta í Evrópu og óttast ráðamenn í Evrópuráðinu að fleiri þjóðir eigi eftir að fylgja í kjölfarið með svipaða löggjöf. Ótti Evrópuráðsins er á rökum reistur, enda hafa Íslendingar þegar fylgt Dönum hvað varðar 24 ára regluna. Það er bara að vona að Íslendingar fylgi ekki í blindni sífellt strangari innflytjendalöggjöf nágrannaþjóðar okkar, að minnsta kosti ekki án þess að mjög veigamikil rök búi þar að baki og að afloknum ítarlegum athugunum.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007