11. september þeirra Dana

Hver hefði hugsað sér! Maður í Danmörku sem er ekki og mun aldrei verða þjóðhöfðingi var að skilja við konuna sína. Þetta þykja Dönum vera alveg svakalegar fréttir, nánast af náttúruhamfara- eða hryðjuverkakalíber.

Í gær ákváðu tveir einstaklingar sem ég nenni ekki einu sinni að fletta upp nöfnunum á að ganga hvor sinn veg. Þetta var danskur „prins“ og barnsmóðir hans. Fréttin um skilnaðinn barst eins og eldur um sinu hér í Danmörku í gær og í dag voru slúðurblöðin bara helvíti hress. „Hvað fór úrskeiðið? 19 síðna aukablað.“

Liðinu sem skrifaði þessar „samantektir“ hlýtur að líða eins og manni sjálfum við ritgerðaskrif í grunnskóla.

600 orð, ég þarf 600 orð. Breyti „og“ í „enn fremur“ alls staðar. Skeyti merkingalausu bulli eins og „nú er skemmst frá því að segja“ fremst á allar setningar. Og „af því að talið er“ aftan á þær. Stækka letrið. Auka línubilið. Fitla við spássíður. Tel nafnið mitt og titilinn með. Skrifa út allar tölur í orðum. Nítján hundruð fjörutíu og fjögur er svo miklu lengra en bara 1944. Já, og ekki gleyma að setja, „á því herrans ári“ framan við hvert ártal. Fjögur orð í hreinan bónus.

Blöðunum verður varla um kennt. Þau framleiða þetta fóður þar sem til eru skepnur sem éta það. Já, til er fólk sem virkilega er til að lesa endursagnir gamallra frétta í andlagi. Með „eins og eflaust flestir lesendur muna frá árinu nítján hundruð níutíu og sex“ framan á öllum setningum og runu af viðurlögum aftan á.

Ég er nú gestur í Danmörku og stunda þar nám. Menn ættu auðvitað að fara varlega í að gera grín að gestgjafanum þegar þeir eru í heimsókn. En þegar gestgjafinn er virkilega að æsa sig yfir fjölskyldulífi fólks sem hefur ekkert gert neitt merkilegta annað en að fæðast í einhverja fjölskyldu þá ættu menn nú að fá tímabundið skotleyfi á hann.

Þegar ein stúlka sagði mér í partýi í gær frá því að „prinsinn“ og kona hans væri ég að skilja, sagði ég í gríni: „Hey, frábært þýðir það að konungsveldið er loksins á enda?“ og fékk nú næstum andlitshögg til baka. Skömmu áður hafði sú hin sama manneskja reyndar verið að leiða okkur um stúdentagarðana okkar og tilkynnti okkur m.a. að Eyrarsundskollegíð gæti ekki mögulega brunnið, því það væri byggt úr steypu.

Talandi um steypu. Nú eru einveldin á Norðurlöndunum búinn að redda málum þannig að það er ekki lengur elsti sonurinn sem fær krúnuna heldur elsta barnið. Húrra fyrir jafnréttinu! Já, gott fólk! Það var það sem var vandamálið. Ekki það að embætti á vegum ríkisins erfist, heldur að þau erfist ekki jafnt á milli karla og kvenna í einhverri ætt. Álíka stórt skref í jafnréttisbaráttunni og jöfnun kynjahlutfalls á dauðadeild.

En hvað um það. Kannski að það sé ágætt að einhver hópur venjulegra brauðæta hafi tekið það að sér að verða miðdepill hnýsni heillrar þjóðar. Á meðan fá kjörnir fulltrúar, athafnamenn, leikarar og aðrir framtakssamir borgarar kannski meira andlegt svigrúm en ella. En maður getur nú samt ekki annað en vorkennt þessu greyið fólki sem borðar, makast, skítur og klæðir sig öðrum til skemmtunar. Það versta við þetta er að þau sjálf virðast sátt við þessu hlutskipti hálaunaðra fjölmiðlatrúða. Fyrir það eitt hef ég takmarkaða trú á því að þau séu jafnindæl, elskuleg og gáfuð og sumir vilja af láta.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.