Erfðabreyttir íþróttamenn

Óleyfileg lyfjanotkun er vaxandi vandamál meðal íþróttamanna. Eftirlitsaðilar og yfirvöld eiga sífellt erfiðara með að greina notkun slíkra efna og ekki einfaldast málið ef íþróttamenn fara að nota tilbúna erfðavísa til að styrkja vöðva og auka úthald.

Óleyfileg lyfjanotkun er vaxandi vandamál meðal íþróttamanna. Titlar og gullpeningar eru teknir af íþróttamönnum á stórmótum því alltaf freistast einhverjir til að neyta óleyfilegra lyfja til að bæta árangur sinn. Eftirlitsaðilar og yfirvöld eiga sífellt erfiðara með að greina notkun slíkra efna og ekki einfaldast málið ef íþróttamenn fara að nota tilbúna erfðavísa til að styrkja vöðva og auka úthald.

Undanfarin ár hafa verið í gangi tilraunir á notkun tilbúinna erfðavísa til styrkingar vöðva. Aðferðir sem þessar munu vonandi stuðla að bætri heilsu eldra fólks, þeirra sem þjást af sjúklegri vöðvarýrnun og hraða fyrir bata á skemmdum vöðvum. Tilraunir hafa þegar verið gerðar á dýrum og lofar árangurinn góðu og vonast vísindamenn til að geta hafið tilraunir á fólki fljótlega.

En sömu aðferðum verður líka hægt að beita á fullfríska einstaklinga til þess að auka styrk og úthald heilbrigðs líkama í vafasömum tilgangi. Tilbúna erfðavísa verður hugsanlega einnig hægt að nota til að fjölga rauðum blóðkornum. Með aukinni súrefnisupptöku getur viðkomandi einstaklingur aukið úthald sitt. Erfðabreytingar munu því bæði gangast til að auka styrk vöðva og til að auka úthald.

Erfðavísum sem komið er fyrir í vöðvum geta enst í mörg ár. Með notkun erfðavísa verður hægt að velja nákvæmlega hvaða vöðva skal styrkja þar sem erfðavísunum er sprautað inn í vöðvann. 100 metra hlauparar framtíðarinnar verða því kannski með efri búk á við maraþonhlaupara í dag og neðri búk sem líkist lyftingamönnum!

Alþjóðlegar stofnanir sem fylgjast með lyfjanotkun í íþróttum eins og WADA (World Anti-Doping Agency) er því vandi á höndum því erfðavísa er ekki hægt að finna með sambærilegum aðferðum og notaðar eru í dag heldur þyrfti líklega vefjasýnistöku til að staðfesta notkun erfðavísa. Vefjasýnistaka úr vöðva krefst þess að vöðvinn séð opnaður og skorið úr honum vefur. Slíkt er ekki hægt að framkvæma á íþróttamönnum rétt fyrir keppni. WADA og sambærilega stofnanir hafa þar af leiðandi sent út hálfgert neyðaróp eftir rannsóknum sem kanna hvort og hvernig hægt verði að kanna notkun erfðavísa í íþróttum. Ekki hefur þó verið nærri jafn mikið um rannsóknir á því sviði miðað við rannsóknir á notkunarmöguleikunum.

Frekari tilraunir á þessu sviði munu eiga sér stað á næstu árum og vafalaust miklar framfarir áður en erfðavísar verða almennt notaðir og óvíst hversu fljótt íþróttamenn munu falla fyrir freistingunum sem erfðavísarnir bjóða upp. En hver veit nema að óeðlilega mörg met verði slegin á Ólympíuleikunum árið 2008 án þess að hægt verði að sýna fram á að maðkur sé í mysunni.

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)