Óvenjulegar íþróttir

Ólympíuleikunum í Aþenu lýkur á sunnudag. Þar hefur verið keppt í flestum íþróttagreinum, sumum býsna undarlegum. Þó verður ekki hjá því komist að stinga upp á nýjum greinum sem ættu fullt erindi til Aþenu.

Ein af furðulegustu keppnisgreinunum í Aþenu eru eltihjólreiðar. Þetta er í rauninni bara eltingaleikur á hjólum, fínn leikur en frekar einkennileg keppnisgrein á Ólympíuleikum. Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hvort samhæft sund eigi eitthvað erindi á leikana.

Það er því ekki úr vegi að setja fram hugmyndir um nýjar keppnisgreinar sem gætu þjónað tvennum tilgangi. Annars vegar að auka skemmtanagildið fyrir áhorfendur og hins vegar að fækka greinum. Fyrst ber auðvitað að nefna hestadýfingar af 10 metra palli. Hver hefði ekki áhuga á að horfa á glæsta knapa stjórna hestinum í tvöfaldri skrúfu og heljarstökki áður en lent er á vatninu?

Síðan má velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að gera skotfimina áhugaverðari. Í rauninni er afskaplega fátt skemmtilegt við það að horfa á menn skjóta í miðjuna á pappaspjaldi. Þar af leiðandi væri hægt að sameina þessa keppni með maraþoni. Á 5 kílómetra kafla þyrftu maraþonhlauparar að forðast skytturnar sem auðvitað myndu nota gervikúlur.

En þessi samruni greina þarf svo sem ekkert að einskorðast við Ólympíuleika. Þannig mætti vel hugsa sér formúlu keppni á Íslandi. Ekki hina hefðbundnu Formúlu 1 heldur hestaformúlu. Þannig gætu spenntir sjónvarpsáhorfendur velt því fyrir sér hvort Áslákur frá Þúfu fari á venjulegar skeifur eða skaflajárn í þjónustuhléinu.

Helgin nálgast með tilheyrandi látum. Reynum að vera ómálefnaleg fram á mánudag, annars verður lífið ekkert skemmtilegt.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)