Vaxtarverkir fótboltans

Knattspyrnan er harður heimur þar sem peningar skipta sífellt meira máli. Leikmenn ganga kaupum og sölum og laun þeirra hækka sífellt, en þessi þróun er við það að sliga fjárhag vel flestra evrópskra knattspyrnufélaga.

Knattspyrnan er harður heimur þar sem peningar skipta sífellt meira máli. Leikmenn ganga kaupum og sölum og laun þeirra hækka sífellt, en þessi þróun er við það að sliga fjárhag vel flestra evrópskra knattspyrnufélaga. Nokkur lið standa þó upp úr hvað þetta varðar og spjara sig vel fjárhagslega, t.d. Real Madrid, Juventus og Manchester United. Þessi lið ásamt nokkrum fleirum eiga það þó sammerkt að hafa verið risar í evrópskri knattspyrnu áratugum saman og njóta þess nú sem aldrei fyrr. Í efstu deildum, allt frá Íslandi til Úkraníu eru um 400 lið, auk allra þeirra sem leika í neðri deildum, og aðeins fáein þeirra skríða upp yfir núllið rekstrarlega séð.

Fjármagn inn í íþróttina kemur að stórum hluta frá stuðningsmönnum í formi aðgangseyris að leikjum og kaupum á söluvarningi, einnig frá fyrirtækjum sem eru stuðningsaðilar og fá á móti auglýsingar en síðast ekki ekki síst þá skipa sjónvarpstekjur miklu máli. Vegna mikilvægi sjónvarpstekna þá skiptir miklu máli að vera í toppslagnum í Evrópu. Til þess að komast þangað verja mörg félög miklu fjármagni til kaupa á toppleikmönnum og leggja því mikið undir sem oft dugir ekki.

Nú ber hins vegar svo við að auðkýfingar sem vilja dýrt áhugamál sækja í auknu mæli inn í þennan heim. Skýrasta dæmið um það er að sjálfsögðu kaup Rússans Romans Abramovich á enska félaginu Chelsea. Á síðasta ári notaði hann 230 milljónir dollara til þess að fjárfesta í nýjum leikmönnum. Inn í þessa tölu er ekki tekinn gríðarlega hár launakostnaður. Þetta fjármagn hefur svo verið notað til þess að koma liðinu upp að hlið stórliðanna í Evrópu. Nú í haust reyndu Tælendingar að kaupa stóran hlut í Liverpool og nú í síðustu viku gerði Rússinn Anton Zingarecich tilboð í ráðandi hlut í Everton sem hefur ekki enn verið tekið.

Framkvæmdastjórar annara liða hafa gagnrýnt Abramovich þar sem óþrjótandi sjóðir hans hafa komið ójafnvægi á leikmannamarkaðinn. Þessu hafa Chelsea menn svarað með því að nauðsynlegt hafi verið að verja svo miklu fé til þess að ná hinum stóru liðunum. En telja verður líklegt að Rússinn ríki halda áfram uppteknum hætti ef að félagið vill ákveðinn leikmann, jafnvel þó að liðið standi nú jafnfætis við önnur stórlið – sjóðir hans eru jú óþrjótandi.

En ef að Abramovich lendir í vandræðum eða missir áhugann á rekstri fótboltaliðs er ljóst að félagið geti ekki með nokkru móti látið tekjur standa undir óheyrilegum launakostnaði stórstjarna sinna, hvað þá öðrum rekstri félagsins. Á Ítalíu hafa stórliðin Parma og Lazio lent í miklum vandræðum þar sem eigendur þeirra urðu gjaldþrota. Ítalía er reyndar eitt versta dæmið um slæman rekstur knattspyrnuliða þar sem fjöldi félaga hefur lent í vandræðum og sum þeirra jafnvel dæmd niður um deildir.

En það er spurning hvort hér sé ekki um að ræða vaxtarverki knattspyrnunnar. Vegsemd og vinsældir knattspyrnunar hafa aukist gríðarlega á síðustu 10-12 árum og hafa tekjur félagsliða á Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu

hafa þrefaldast síðan á miðjum tíunda áratugnum. Launakostnaður rauk líka upp úr öllu valdi, en líklegt verður að teljast að að jafnvægi komist aftur á þann útgjaldaliðinn. Nú í sumar varð til að mynda landslið Grikkja Evrópumeistari án þess að hafa neina stórstjörnu meðp ofur laun innan borðs. Þessi sigur liðsheildarinnar yfir stjörnunum gæti verið skýr skilaboð til stjórnenda félagsliða að fara að hugsa sinn gang.

Manchester United á að vera fyrirmynd annara liða hvað rekstur varðar enda hafði ekkert annað íþróttalið í heiminum meiri tekjur á síðasta ári, 317 milljón dollara. Það íþróttalið sem næst kom var bandaríska hafnabolta liðið New York Yankees með 280 milljónir dollara í tekjur.

Þó að keppnisskap sé mikilvægur eiginleiki þeirra sem stjórna og reka knattspyrnufélag þá er alveg ljóst að fagmennska í viðskiptum þarf að vega upp tilfinningarnar. Reynslan sýnir líka að þegar til langstíma er litið, þá standa þau lið sig best á fótboltavellinum sem hvað best eru rekin.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.