Fíknin

Fíknin hlýtur að teljast meðal helstu veikleika mannanna. Er fíknin fyrirbrigði af félagslegum toga eða óumflýjanleg fyrir suma m.t.t erfða?

Fíknir og slæmir ávanar hljóta að teljast meðal helstu veikleika mannanna. Fíknir eru í dýraríkinu þó alls ekki einskorðaðar við menn, enda hefur margsannast að auðvelt er að gera dýr háð ýmis konar efnum, þeim sömu og maðurinn ánetjast. Munurinn felst þó í því að flest það sem fíknarlöngunin stendur til er búið til eða unnið úr náttúrunni af mannskepnunni.

Í daglegu tali er á milli orðanna fíknar (e. addiction) og ávana (e. habit) oft heldur óljós skil. Að venja sig á eitthvað umdeilanlega jákvætt hljómar t.d. miklu betur heldur en að vera fíkill í það sama. Þá er t.d. talað um ávanabindandi lyf annarsvegar og fíkn í eiturlyf hinsvegar. Á enskri tungu er þetta jafnvel ennþá óljósara. The World Health Organization hefur því ákvarðað sínar eigin skilgreiningar.

Samkvæmt WHO eru þau lyf sem valda fíkn og eru því ávanabindandi, þau sem skapa með meirihluta neytenda óstjórnlega þörf fyrir lyfin. Þau auka þá þol fyrir áhrifunum og valda því að líkaminn verður það háður að alvarleg og sársaukafull einkenni koma fram þegar neyslu er hætt. Þau lyf sem aftur eru kölluð ‘habit-forming’ á ensku hafa þá frekar tilfinninga- og sálfræðilegar flækjur í för með sér þegar neyslu er hætt, en engin sársaukafull áhrif á líkamann. Þannig er fíknin líkamleg en ávaninn algjörlega sálfræðilegur.

Ferlið sem spannar þróun fíknarinnar og þá þætti sem þar spila inní hefur þó vafist fyrir mönnum. Nýverið var skýrt frá niðurstöðum tilraunar á rottum sem einmitt gekk út á að reyna varpa ljósi á þetta. Í tilrauninni var sett upp dýramódel þar sem rottur hlupu frjálsar um innan rýmis og gátu þar fengið kókaín með því að troða nefinu ofan í tilgerða holu. Eftir þrjá mánuði voru margar orðnar það háðar að þær voru mjög tregar til að trappa sig niður í neyslunni. Þær höfðu mikla löngun í efnið og sóttu í það jafnvel þó svo að rafstuð fylgdi því. Þetta þykir undirstrika að fíkn sé fjarri því að vera félagslegt fyrirbrigði, heldur sé fíkn í rauninni heilasjúkdómur.

Það vakti líka athygli að hlutfall þeirra rotta sem sýndu öll þrjú ofantalin fíknareinkenni var það sama og gengur og gerist hjá mönnunum eða um 17%. Þær rottur sem voru orðnar háðar voru einnig líklegri til að hefja aftur neyslu eftir að hafa verið allsgáðar í 30 daga. Niðurstaðan varð sú að langvarandi neysla kókaíns ásamt eðlislægri næmni fyrir efninu í sumum rottum hafi gert þær að fíklum. Þó erfitt sé að ákvarða hvers vegna þessi næmni er til staðar í sumum rottum en ekki öðrum, er talið að hún geti verið tilkomin vegna samverkandi þátta svo sem stress, neikvæðs félagslegs umhverfis og erfða.

Niðurstöður tilraunar þessarar og annarra svipaðra eru til þess fallnar að skýra hvað það er sem gerist í líkamanum n.t.t. í heilanum þegar fíkn þróast og þannig jafnvel leitt af sér hugmyndir um möguleikann á viðsnúningi eða bælingu fíknarinnar.

Heimildir:

Encyclopædia Britannica Online

New Scientist

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.