Stefnir í enn eitt verkfallið

Ef að líkum lætur þá stefnir í enn eitt verkfall grunnskólakennara nú í haust. Kennarar eiga gildan verkfallssjóð og komi til verkfalls gæti það orðið lengra en fyrri kennaraverkföll.

Það var á haustdegi fyrir tuttugu árum síðan að undirrituð trítlaði með alltof stóra rauða skólatösku á bakinu í átt að grárri ljótri byggingu. Dagsins hafði verið beðið með eftirvæntingu í langan tíma enda mikilvægur kafli í lífinu að hefjast, sjálf skólagangan. Auk þess að kenna okkur misáhugasömum bekkjarfélögunum um rauða sérhljóða og græna samhljóða, helstu undirstöðuatriði í samlagningu og listina að halda rétt á blýanti, þá fóru kennarnir í verkfall þennan veturinn. Hversu lengi það varði veit ég ekki, en í minningunni var verkfallið langt. Við sex ára pollarnir lærðum því snemma hvað það þýddi að vera í verkfalli.

Síðan eru liðin tuttugu ár og nokkur verkföll. Ef að líkum lætur þá stefnir í enn eitt verkfall grunnskólakennara nú í haust. Grunnskólakennarar hafa boðað verkfall í skólum landsins þann 20. september næstkomandi. Kennarar eiga gildan verkfallssjóð og lét Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hafa það eftir sér í grein í Morgunblaðinu á dögunum, að komi til verkfalls geti það orðið lengra en fyrri kennaraverkföll. Á heimasíðu Kennarasambandsins kemur jafnframt fram að lengsta verkfall grunnskólakennara til þessa hafi staðið í um það bil sex vikur. Síðasta verkfall framhaldsskólakennara stóð hins vegar í rúmar átta vikur.

Eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið er kjaradeilan erfið. Deilt er um kröfur kennara og ágreining um túlkun og framkvæmd fyrri samnings. Grunnskólakennarar horfa til samnings framhaldsskólakennara og telja sig óbundna af þeirri stefnu sem mótuð hefur verið í samningum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.

Það má svo velta því fyrir sér hvort þessu reglulegu kennaraverkföll séu ekki orðin tímaskekkja. Skilningur almennings fyrir þessari tregðu, sem ávallt virðist myndast í kjaraviðræðum milli kennara og launanefndar sveitafélaganna, fer þverrandi. Ekki síst þegar opinberar tölur sýna að heildarlaun grunnskólakennara hækkuðu um 20% frá árslokum 2000 til ársloka 2003, en laun á almennum markaði hækkuðu um 18% á sama tíma.

Fjölskyldulíf landsmanna gæti því farið verulega úr skorðum á haustmisseri. Sem fyrr eru það börnin, sem ekkert hafa um málið að segja, sem verða verst úti. Það lítur því allt út fyrir að enn ein kynslóðin vaxi úr grasi með reynslu og minningar af kennaraverkföllum.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)