Með fjöll í feldi grænum

Það er útlit fyrir mikla aðsókn á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár og engin hætta er á að óvissa um veðrið dragi þar úr. Vanir þjóðhátíðargestir vita mætavel að veðrið ræður litlu um stemmninguna í Herjólfsdal á þjóðhátíð.

Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum er engin venjuleg útihátíð, enda hefði hún þá að líkindum farið sömu leið og svo margar aðrar sem gengið hafa eitt sumarið en horfið í gleymskunnar dá nokkrum árum síðar. En ár eftir ár streyma þúsundir til Eyja um verslunarmannahelgi til að skemmta sér og öðrum í heilnæmu og heillandi umhverfi Herjólfsdals þar sem er

mannsins mýkt og gæska

þar er undurfögur æska.

Eins og segir í þjóðhátíðarlagi Bjartmars Guðlaugssonar.

Opinber dagskrá þjóðhátíðar í seinni tíð er ekki ólík því sem tíðkast á hefðbundnum útihátíðum eða tónlistarhátíðum. Böllin hafa vitaskuld mikið aðdráttarafl. En það eru ekki böllin eða frægu hljómsveitirnar sem gera það að verkum að Eyjamenn og aðrir flykkjast út í Eyjar hverja verslunarmennahelgi. Hin sanna þjóðhátíð er sú sem hvergi er auglýst og hefur enga opinbera dagskrá.

Það er til stór hópur fólks sem hefur engin tengsl við Vestamannaeyjar sem fer út í Eyjar ár eftir ár þótt það færist af hefðbundnum útihátíðaraldri. Sá hópur hefur kynnst þjóðhátíð Eyjamanna sem á sér stað í hinu huggulega umhverfi hvítu hústjaldanna. Þar situr fólk á öllum aldri sem ekki lætur sér til hugar renna að yfirgefa tjöldin til að fara á danspallana; fólk sem hefur varla hugmynd um hvað frægu hljómsveitirnar á pöllunum heita. Á þessari þjóðhátíð upplifa Eyjamenn og aðkomufólk hina sönnu þjóðhátíðarstemmningu sem sungið er um í þjóðhátíðarlögunum:

Ljósin kvikna, brennur bál

bjarma slær á grund.

Enn þá fagnar sérhver sál

sælum endurfund

eins og segir í þjóðhátíðarlaginu frá 1937. Og ári síðar:

Fagra tjaldaþröng með fána á hverri stöng

nú fyllum vér með þjóðhátíðarsöng

Hefðirnar hafa ekki breyst mikið þegar þjóðhátíð er annars vegar. Ennþá brennur bál á Fjósakletti og „gleðin brosir björt og heið” og flestir sem koma skemmta sér – hvað sem það kostar og hvernig svo sem annað kanna að hafa þróast í heims-, lands- og Eyjamálum.

Bregðist ennþá síldin úr sjó

og svarri brim á rifi,

glaðir drykkju þreytum þó;

þjóðhátíðin lifi.


Eins og segir í þjóðhátíðarlaginu frá 1949.

Fyrir þá sem ætla að bregða sér til Eyja um helgina vil ég ráðleggja þeim að kynnast þjóðhátíð Eyjamanna sjálfra – þessari hefðbudnu og eilífu. Þar gætir ýmissra grasa – menn fá örugglega að borða, drekkja og og syngja – og stundum geta menn lent í óvæntri „bítlasyrpu”, eða fundið tjald með píanói og karlakór – og innan skamms eru unglingarnir úr Reykjavík komnir í trúnaðarsamtöl við heldri konur og karla bæjarins inni í tjöldunum og gæða sér á lunda og flatkökum – og steingleyma því að það sé auglýst ball í gangi.

Það er enginn of gamall til að fara í fyrsta sinn á þjóðhátíð. Hún er hvorki bara fyrir unglinga eða gamalmenni heldur er hún fyrir hvort tveggja og allt þar á milli. Hún er ekki bara fyrir drukkna eða allsgáða – heldur hvort tveggja og allt þar á milli. Hennar má njóta að nótu eða degi – í súld og byl eða sól og yl.

Gleðilega þjóðhátíð – og skál í dalnum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.