Leyndarmál

Árið 1971 lak Daniel Ellsberg The Pentagon Papers í fjölmiðla í Bandaríkjunum. Í ljós koma að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafði með kerfisbundnum hætti logið að almenningi varðandi Vietnam stríðið. Ellsberg hefur nú skrifað frábæra bók þar sem hann lýsir reynslu sinni af Vietnam og því að vinna í Pentagon á þessum árum.

Þeir sem eru af ’68 kynslóðinni, eða eldri, muna kannski eftir manni sem heitir Daniel Ellsberg. Árið 1971 varð hann heimsfrægur fyrir að leka The Pentagon Papers í fjölmiðla í Bandaríkjunum. The Pentagon Papers var leynileg skýrsla sem Robert McNamarra, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna 1961-1968, lét gera um ákvarðanatöku innan ríkisstjórnar Bandaríkjanna varðandi Vietnam. Í henni var fjallað um það hvað lykilmenn innan ríkisstjórnarinnar vissu á hverjum tíma; hverjir gáfu þeim ráð; hvaða ráð þeir gáfu; hvernig mismunandi ákvarðanir voru teknar; hverjir tóku þær; á hvaða upplýsingum þær voru byggðar; o.s.frv.

Ástæða þess að birting The Pentagon Papers hlaut svo mikla athygli sem raun ber vitni var að í ljós kom að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafði með kerfisbundnum hætti logið að almenningi. Hún hafði logið að almenningi um tilgang stríðsins, um stöðu mála í Vietnam á hverjum tíma, um fyrirætlanir sínar á hverjum tíma, um mat sérfræðinga á umfangi stríðsins og líkurnar á því að Bandaríkin næðu markmiðum sínum o.s.frv.

Birting The Pentagon Papers hafði mikil áhrif á stjórnmálabaráttuna í Bandaríkjunum. Skýrslan reyndist mikilvægt vopn þeirra sem börðust gegn íhlutun Bandaríkjanna í stríðinu og var stórt lóð á vogarskál þess að Bandaríkin drægju herlið sitt út úr Vietnam.

Fyrir tveimur árum gaf Daniel Ellsberg út endurminningar um þennan hluta ævi sinnar. Bókin heitir “Secrets: A Memoir of Vietnam and the Pentagon Papers” og er sannkölluð skyldulesning fyrir hvern þann sem áhuga hefur á því hvernig mikilvægar ákvarðanir um stríð og frið eru teknar innan ríkisstjórnar Bandaríkjanna; og einnig um eðli stríðsins í Vietnam og þau stóru mistök sem Bandaríkin gerðu á meðan á íhlutun þeirra stóð.

Ellsberg var hátt settur innan varnarmálaráðuneytis og síðar utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna á árunum 1964-1967. Á árunum 1964-1965 var hann sérstakur aðstoðarmaður aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna sem fór með málefni Vietnam. Hluti af starfi hans var að lesa í gegnum öll mikilvæg vinnuskjöl innan ríkisstjórnarinnar sem fjölluðu um Vietnam (aðallega mjög leynileg skjöl) og vinsa út það sem var nægilega markvert til þess að yfirmaður hans ætti að kynna sér það. Ellsberg var því í innsta hring hvað varðar upplýsingaflæði innan ríkisstjórnarinnar um Vietnam.

Á árunum 1965-67 fór Ellsberg hins vegar til Vietnam sem meðlimur ráðgjafahópi háttsettra embættismanna sem höfðu það hlutverk að veita æðstu embættismönnum ríkisstjórnarinnar ráð varðandi pólitísku hlið stríðsins. Ellsberg einbeitti sér að vettvangskönnunum og því að kynna sér hernaðaraðferðir Bandaríkjunum með milliliðalausum hætti. Frásagnir hans af því hverju hann varð vísari við að keyra þvers og kruss um Vietnam að heimsækja þorp og herdeildir, og við að taka þátt í aðgerðum hersveita nokkrar vikur í senn, eru frábærar.

Þegar yfir lauk voru líklega fáir sem höfðu jafn yfirgripsmikla þekkingu á stríðinu í Vietnam. Og Ellsberg er eldklár. Bókin er uppfull af þeim lærdómi sem hann dregur af reynslu sinni. Svo er vitaskuld sérstaklega áhugavert að lesa bókina í dag þar sem Bandaríkin eru aftur komin í stríð sem snýst um að breyta pólitísku landslagi í fjarlægu landi úr allt öðrum menningarheimi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.