Brotthvarf friðarhöfðingja

Stuttu eftir kosningarnar lýsti Ólafur Ragnar Grímsson yfir mikilli ánægju með 85% gildra atkvæða og tók fram að þetta væri meiri stuðningur en nokkur forseti í lýðræðisríki gæti gert sér vonir um. En var þetta svo mikill stuðningur og er rétt af forsetanum að gefa það í skyn að mikill meirihluti þjóðarinnar styðji hann?

Bæði fyrir og eftir forsetakosningarnar 26. júní gagnrýndi nýkjörinn forseti Íslands Morgunblaðið harðlega fyrir að hefja ,,hatramma og markvissa“ baráttu gegn sér. Lýsti hann því yfir að blaðið hefði horfið til fyrri tíma og beitt blaðamennsku frá tíma kaldastríðsins. Með því gekk forsetinn í hóp þeirra stjórnmálamanna á vinstri vængnum sem hafa fullyrt að Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið hefi hvatt kjósendur til að skila auðu í forsetkosningunum.

En forsetinn gekk lengra. Með ummælum sínum eftir kosningarnar tók hann ákveðinn skref inn á svið stjórnmálanna og með samanburði á fylgi einstakra flokka og fjölda auðra atkvæða var hann óbeint að túlka fylgi sitt eftir flokkslínum. Beinlínis að segja að kjósendur hefðu ekki lagt hlutlaust mat sitt á frambjóðendur og kosið eða skilað auðu eftir því heldur metið þá kosti sem voru í boði eftir landslagi í íslenskri pólitík – tekið afstöðu með eða móti einstökum stjórnmálaflokkum.

Stuttu eftir kosningarnar lýsti Ólafur yfir mikilli ánægju með 85% gildra atkvæða og tók fram að þetta væri meiri stuðningur en nokkur forseti í lýðræðisríki gæti gert sér vonir um. En var þetta svo mikill stuðningur og er rétt af forsetanum að gefa í skyn að mikill meirihluti þjóðarinnar styðji hann?

Vissulega féllu honum í skaut 85% gildra atkvæða sem er góðra gjalda vert, en hjá því verður ekki litið að um 28 þúsund Íslendingar mættu á kjörstað gagngert til þess að skila auðu. Tæplega 80 þúsund sáu ekki ástæðu til að mæta á kjörstað, sem er versta kjörsókn í sögu lýðveldisins, og önnur 15 þúsund kusu annan frambjóðenda en forseta Íslands.

Hvort að hægt sé að lesa úr þessum tölum hversu stór hluti þjóðarinnar lýsti andstöðu sinni við störf forseta skal ósagt látið. En ef það er reynt og tekið saman hversu margir sátu heima, skiluðu auðu eða kusu annan frambjóðenda er vel hægt að geta sér til um að verk forsetans síðustu misserin, þar á meðal ákvörðun um að neita fjölmiðlalögum staðfestingar, hafi langt því frá brúað bil á milli „þings og þjóðar“.

Vissulega er ólíklegt að allir þeir sem sátu heima vildu mótmæla vinnubrögðum forsetans en í ljósi þess að síðast þegar einstaklingur bauð sig fram á móti sitjandi forseta var kjörsókn tíu prósentustigum hærri en nú þrátt fyrir mun óáhugaverðari kosningar. Jafnframt er sérstakt að lítið þekktur einstaklingur sem rekur kosningabaráttu sína á óánægju með sitjandi forseta skuli fá 12% atkvæða. Því eru sterkar líkur á að stór hópur hafi með einhverjum hætti viljað mótmæla vinnubrögðum forseta Íslands á síðustu átta árum.

Ekki hefur alltaf verið fullkomin sátt um sitjandi forseta. Embættið hefur þó tekið nokkrum breytingum á síðustu áratugum og þróast í þá átt að minni flokkapólitík. Með því hefur skapast sátt um það og þann sem það skipar. Þannig hafa kjósendur ekki litið yfir pólitíska litrófið áður en þeir hafa greitt atkvæði sem sýnir sig einna best í þeirri staðreynd að árið 1996 var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, lítils stjórnarandstöðuflokks, kosinn til að gegna embætti forseta Íslands. Miklur fremur hefur verið litið til einstaklinganna sem eru í framboði, hvaða valmöguleikar eru í boði og hvort frambjóðendur eigi eftir standa sig í vel. Því er líklegast að kjósendur hafi nú í sumar, eins og í öðrum forsetakosningum á síðustu áratugum, hafi annað hvort viljað sýna forseta landsins stuðning eða ekki. Í þetta skiptið mættu 42% þjóðarinnar til þess.

Meintur þáttur Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins í fjölda auðra atkvæða hefur verið stórlega ýktur. Ekki eru neinar haldbærar sannanir fyrir því að flokkurinn hafi beitt sér með skipulögðum hætti og eina gagnrýnin sem hefur komið fram á hendur forsetanum í Morgunblaðinu hefur verið í leiðurum blaðsins sem eru aðalega hugsaðir fyrir skoðun ritstjórnar og eiga fullkomlega rétt á sér. Menn hafa þó bent á forsíðufyrirsögn um að auðir atkvæðaseðlir yrðu birtir jafnóðum og túlkað hana sem hluta af þessu stríði. Við nánari athugun hljóta menn að viðurkenna að ástæðan fyrir fyrirsögninni hafi verið gildi fréttarinnar en ekki annarlegar ástæður ritstjórnar Morgunblaðsins, enda ekki venjan að lesa upp fjölda auðir atkvæðaseðla jafnóðum. Einnig voru blikur á lofti um að þeir yrðu fleiri en venjulega. Eðlilegt hlýtur að teljast að fjölmiðlar gagnrýni ráðamenn, ekki síst þegar þeir hafa lýst því yfir að þeir ætli að taka þátt í almennri pólitík, svo lengi sem það er gert á málefnalegan hátt.

Með ákvörðun sinni um að neita fjölmiðlalögunum staðfestingar fetaði Ólafur Ragnar nýja braut sem forseti Íslands. Fyrir kosningarnar veltu margir því fyrir sér hvort hann ætlaði að breyta áherslum í embættinu og gera það pólitískara. Túlkun Ólafs á úrslitum kosninganna og sneiðar til fjölmiðla og stjórnmálaflokka taka af allan af vafa um slíkt. Friðarhöfðinginn og sameiningartáknið hefur skilið við Bessastaði – Pólitíkusinn Ólafur Ragnar hefur tekið við.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.