Rafrænar kosningar

Undanfarið hefur töluvert verið rætt um kostnað við kosningar í kjölfarið á neitun forseta að skrifa undir fjölmiðlalögin. Spurning er hvort ekki væri hægt að notast við rafrænar kosningar og hvort slíkt myndi ekki spara fé og fyrirhöfn.

Undanfarið hefur töluvert verið rætt um kostnað við kosningar í kjölfarið á neitun forseta að skrifa undir fjölmiðlalögin. Spurning er hvort ekki væri hægt að notast við rafrænar kosningar og hvort slíkt myndi ekki spara fé og fyrirhöfn.

Mikið var rætt um rafrænar kosningar í kringum árið 2000 og fór meðal annars fram samkeppni á vegum dóms og kirkjumálaráðuneytinu um slíkar kosningar. Voru tvö íslensk fyrirtæki valin til að þróa slík kerfi og fengu styrk til slíks. Hins vegar var þeim tilraunum stungið undir stólinn eftir að landsfundur Sjálfstæðismanna ályktaði gegn rafrænum kosningum. Síðan þá hafa þessi kerfi mest verið notuð hér á landi í kosningum stórra félagssamtaka og kosningunni um framtíð flugvallarins.

Til eru mjög margar útfærslur af slíkum kerfum, allt frá því að vera einfaldlega miðlæg kjörskrá (sem telst reyndar strangt ekki með sem rafræn kosning), og upp í fjarkosningu í gegnum net eða síma. Oftast er þó um það að ræða að einstaklingur fer inn í kjörklefann og gerir grein fyrir atkvæði sínu með því að staðfesta atkvæði sitt á skjá, mús eða lyklaborði.

Helstu kostir þessara kerfa eru oftast taldir vera:

  • Sparnaður

  • Rauntímatalning

  • Nákvæm tölfræði

Í Bandaríkjunum hefur miklum peningum verið varið í slík kerfi á undanförnum árum, sérstaklega eftir kosningarnar árið 2000. Nokkur fyrirtæki hafa skapað sér sérstöðu og framleiða nú kosningavélar. Helstu ókostir þessar kerfa hafa oftast verið nefndir:

  • Þau eru oft flókin, sérstaklega fyrir eldra fólk.
  • Komi upp villa eða bilun í tækninu geta atkvæði tapast.

  • Kjósandi fær engar beinar sönnur á að atkvæðið hafi verið skráð rétt.

  • Kjósandi getur ekki sannfærst um að hans atkvæði hafi verið rétt talið.

  • Ekki er hægt að telja aftur sé eða leita frekari staðfestinga sé naumur munur.

Ekki þarf að leita víða til að finna hryllingssögur varðandi þesar vélar, þar sem menn benda á dæmi þess hve lágar öryggiskröfur hafa oft verið gerðar, einfalt hefur verið að svindla á þessum vélum með heimatilbúnum smartkortum, minnisleki hefur átt sér stað, atkvæði hafa farið á vitlausan kjósanda og atkvæði hafi ekki verið talin. Eitt skýrasta dæmið er frá Indiana, þar sem fimm þúsund kusu í 20 þúsund manna hérað, en upp úr kössunum komu 144 þúsund atkvæði. Slíkar villur eru auðfundnar en hvað með hinnar sem minna ber á?

Reyndar hefur verið bent á lausn sem gerir þessi kerfi mun öruggari, en það er nokkurs konar sambland af núverandi og hefðbundnu rafrænu kosningakerfi. Um leið og kjósandi hefur gert upp hug sinn og staðfest kosningu, prentast út atkvæðisseðill. Þessum seðli skilar hann í kassann. Þar með getur hann sannfærst um að sitt atkvæði verður skráð rétt, en atkvæðið í kassanum er það sem telur. Komi upp einhver efi eru pappírsatkvæðin einfaldlega talin. Jaframt er gert ráð fyrir að slembiúrtak sé valið og gerð sé talning, t.d. á 1% atkvæða og borið saman við atkvæði tölvanna.

Kerfin eru oft dýr og kostnaðurinn sem Bandaríkjamenn hafa lagt í þau er gríðarlegur. Miðað við tíðni kosninga er fjárfesting mjög há, þar sem þessar tölvur og hugbúnaður eru sérhannað með þetta eina hlutverk í huga og hver kjörklefi þarf að vera búinn þessum búnaði. Sparnaðurinn verður til vegna þess að ekki þarf að telja eða prenta kjörseðla. Miðað við þá miklu fjárfestingu sem þarf að leggja í er því ólíklegt þegar allt er tekið inn í að nokkur sparnaður myndist.

Áður en ráðist er í rafrænar kosningar þarf að spyrja sig um tilganginn. Pappírskosningar hafa alltaf virkað á Íslandi og halda áfram að gera það þótt fundin sé upp ný og flottari tækni. Rafrænar kosningar virka vel við aðstæður t.d. á stórum félagsfundum þar sem þörf er á snöggum og öruggum niðurstöðum. Hluti þing- og sveitstjórnarkosninga er ekki síst spennan að bíða úrslitana. Því má ekki glata.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.