Tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu

Tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslunnar um gildi laga um eignarhald á fjölmiðlum hefur ekkert með innihald laganna að gera. Málið snýst um hvernig fyrirkomulagi lagasetningarvalds á Íslandi verði háttað í kjölfar þeirrar misgjörðar Ólafs Ragnar Grímssonar að beita málskotsréttinum.

Verður gjáin milli þings og þjóðar brúuð ef mikill minnihluti þjóðarinnar ógildir lög frá lýðræðislega kjörnu Alþingi?

Starfshópur ríkisstjórnarinnar, sem falið var að undirbúa lagasetningu um tilhögun um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna synjunar forseta Íslands á lögum um eignarhald á fjölmiðlum, hefur skilað af sér skýrslu. Eins og alsiða er orðið hér á landi túlka menn innihald skýrslunnar hver með sínum hætti en við lagasetninguna munu hörðustu deilurnar snúast um hvort setja eigi skilyrði um afl atkvæða og þátttöku í atkvæðagreiðslunni.

Starfshópurinn telur koma til álita að í fyrirhuguð lög verði tekin upp hófleg og málefnaleg krafa um lágmarksþátttöku. Hins vegar telur starfshópurinn þessa leið haldna lýðræðislegum annmörkum sé markið sett of hátt. Verður það ekki skilið öðruvísi en svo að hópurinn hafni framkomnum hugmyndum um 75% lágmarksþátttöku, og er það vel.

Um að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna þurfi til að fella lögin úr gildi segir í skýrslu starfshópsins:

Sú leið að gera kröfu þess efnis að einfaldur meirihluti ráði en ákveðið hóflegt hlutfall atkvæðisbærra manna greiði þó atkvæði gegn lögunum, kann að vera vægasta útfærsla skilyrðis af þessu tagi, enda útilokar beiting þess áhrif þeirra sem ekki kjósa að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og hvetur fremur en letur til þátttöku. Sýnist það vera í samræmi við markmið 26. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt væri komið til móts við þær lýðræðislegu og stjórnskipulegu kröfur sem ógilding á þegar settum lögum frá Alþingi hljóta að gera.

Þessu til rökstuðnings er enn fremur vísað til leiðbeinandi reglna Feneyjanefndar Evrópuráðsins. Í hinum leiðbeinandi reglum er talið æskilegra að setja skilyrði um að tiltekið lágmarkshlutfall atkvæðisbærra manna þurfi að greiða atkvæði með eða á móti tilteknu málefni heldur en að binda úrslit kosninga því skilyrði, að tiltekið lágmarkshlutfall atkvæðisbærra manna hafi tekið þátt í kosningunum sem slíkum.

Í heild má segja að skýrsla starfshópsins sé vel unnin, sérstaklega þegar horft er til þess að hópurinn þurfti að vinna í samræmi við fyrirmæli stjórnarskrárinnar um að þjóðaratkvæðagreiðsla þyrfti að fara fram eins fljótt og kostur er.

Fyrstu viðbrögð stjórnmálamanna hafa verið í takt við það sem alsiða er orðið hér á landi, hver túlkar skýrsluna með sínum hætti. Það er hins vegar óumdeilt sð starfshópurinn telur að binda megi atkvæðagreiðsluna skilyrðum og að eðlilegt sé að gera það. Hann gerir enn fremur upp á milli ólíkra leiða og kemst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að miða við að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna þurfi til að fella lögin úr gildi.

Hafa verður í huga að verið er að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin er á grundvelli þessa tiltekna ákvæðis. Það skiptir máli vegna þess að jafnvel þeir sem talið hafa ákvæðið virkt í gegnum tíðina hafa talað um það sem öryggisventil, stjórnskipulegt neyðarréttarúrræði. Því hljóta ákveðin sjónarmið að gilda um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli 26. greinar en ef menn væru að setja almennar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur, til að mynda ef Alþingi myndi vísa stórum málum til þjóðaratkvæðis.

Ef málskotsréttur forstans væri í eðli sínu pólitískur, þá ættu kannski önnur sjónarmið við. Þá væri forsetinn virkur hluti af lagasetningarvaldinu og þyrfti að leggja fram stefnu sína í öllum helstu málum svo að hægt væri að kjósa forsetann á réttum forsendum. Það hefur núverandi forseti aldrei gert, hvorki í kosningabaráttunni 1996 né þeirri sem nú er afstaðin.

Í níunda og tíunda tölulið yfirlýsingar sinnar á Bessastöðum þann 2. júní síðastliðinn sagði forsetinn:

9. Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.

10. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Meginröksemd Ólafs Ragnars Grímssonar var sú að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar í þessu tiltekna máli og því hefði verið rétt að beita málskotsréttinum. Hann tók sérstaklega fram að í ákvörðun sinni fælist hvorki gagnrýni á Alþingi né á ríkisstjórn og ekki heldur efnisleg afstaða til laganna sjálfra.

Af þessum rökstuðningi er eðilegt að draga þá ályktun að málskotinu hefði ekki verið beitt nema lagasetningin gengi sannarlega og að verulegu leyti gegn vilja þjóðarinnar. Hvernig öðruvísi er hægt að skilja orðalagið gjá milli þings og þjóðar? Og ef sú gjá var grundvöllur málskotsins – og án hennar hefði því ekki verið beitt – geta menn þá sagt i fullri einlægni að óeðlilegt sé að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna þurfi að endurspegla þá gjá? Hvernig verður gjáin brúuð ef mikill minnihluti atkvæðisbærra manna ógildir lög sem sett eru af lýðræðislega kjörnu Alþingi með stjórnskipulega gildum hætti?

Vissulega er það sjónarmið gott og gilt að þeir sem mæta á kjörstað eigi að ráða niðurstöðunni, eins og í almennum kosningum. Hér er hins vegar grundvöllur atkvæðagreiðslunnar sá, að sannarlega og að verulegu leyti hafi verið gengið gegn vilja þjóðarinnar. Ef skilyrðunum yrði þannig ekki mætt, myndi liggja í augum uppi að ekki hefði verið tilefni til að synja lögunum staðfestingar – að gjáin milli þings og þjóðar hefði verið hugarburður forsetans. Og þá er ekkert eðilegra en lögin haldi gildi sínu.

Það er afskaplega hætt við því að í umræðunum sem nú eru að fara af stað af fullum þungum um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslunnar, litist afstaða manna til álitaefnanna af innihaldi fjölmiðlalaganna. Á sama hátt féllu margir í þá gryfju að taka afstöðu til réttmætis synjunar forstans þann 2. júní á grundvelli andstöðu sinnar eða fylgispektar við fjölmiðlalögin.

Sá sem þetta skrifar var og er andsnúinn fjölmiðlalögunum og hefur ekki farið dult með þá afstöðu sína. Það er vissulega freistandi að berjast fyrir því að tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði með þeim hætti að sem minnstar líkur verði á að þau vondu lög haldi gildi sínu. En málið snýst ekki um það, heldur í raun um það hvernig fyrirkomulagi lagasetningarvalds á Íslandi verði háttað í kjölfar þeirrar misgjörðar Ólafs Ragnar Grímssonar að beita málskotsréttinum. Þessu verða menn að átta sig á.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.