Engin gúrkutíð í vændum

Sumrin eru iðulega sá tími í íslenskum fjölmiðlum þar sem hvað minnst er að frétta. Að minnsta kosti þurfa frétta- og blaðamenn á þeim tíma að hafa meira fyrir því að afla frétta en endranær. Sumrin eru stundum nefnd gúrkutíð á fjölmiðlunum. Sumarið 2004 virðist ætla að verða frávik frá þessu. Tæplega er hægt að segja að þetta sumar muni gúrkan verða allsráðandi.

Sumrin eru iðulega sá tími í íslenskum fjölmiðlum þar sem hvað minnst er að frétta. Að minnsta kosti þurfa frétta- og blaðamenn á þeim tíma að hafa meira fyrir því að afla frétta en endranær. Sumrin eru stundum nefnd gúrkutíð á fjölmiðlunum. Sumarið 2004 virðist ætla að verða frávik frá þessu. Tæplega er hægt að segja að þetta sumar muni gúrkan verða allsráðandi.

Orðið gúrkutíð í merkingunni „fréttasnauður tími“ er fengið að láni úr dönsku, „agurketid“. Það er aftur á móti fengið úr þýsku, „Sauregurkenzeit“, eða tími súrra gúrkna. Merkingin er dregin af því að á sumrin þegar uppskera stóð sem hæst, þ. á m. gúrkuuppskeran, komst fátt fréttanæmt að í fjölmiðlum og þeir höfðu úr litlu að moða. Á seinni tímum hefur merkingin víkkað og nær nú yfir þann tíma þegar frí standa almennt sem hæst, m.a. í þinginu og fréttamenn eiga oft erfitt með að finna fréttaefni.

En gúrkutíð er ekki alslæm. Raunar hefur hún ýmsa kosti. Á gúrkutíð kemst ýmislegt að í fréttum sem alla jafna kæmist ekki að. Má þar nefna ýmsar skemmtilegar dægurfréttir, t.d. af túnslætti undir Eyjafjöllum og laxveiðum í húnvetnsku ánum. Allt eru þetta fréttir sem eru svolítið öðruvísi og frábrugðnar hefðbundnum stjórnmála- og viðskiptafréttum, sem eru allsráðandi yfir veturinn.

Þetta sumar virðast landbúnaðar- og laxveiðifréttir þurfa að láta í minni pokann að töluverðu leyti fyrir argaþrasi stjórnmálanna. Júní-mánuður hefur meira og minna verið undirlagður afleiðingum synjunar forseta lýðveldisins á hinum svonefndu fjölmiðlalögum og umfjöllun um forsetakosningarnar sjálfar í kjölfarið. Júlí-mánuður mun eflaust fara að miklu leyti í umfjöllun um frumvarp það sem lagt verður fyrir Alþingi 5. júlí um tilhögun væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin og tengd mál. Og ágúst-mánuður mun ef að líkum lætur fara að miklu leyti í umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa og afleiðingar hennar, pólitískar og lögfræðilegar.

Það er sum sagt engin ládeyða eða gúrkutíð í vændum á næstu tveimur mánuðum, og fréttaþyrstir menn, eins og undirritaður, geta svalað sínum þorsta við viðtækin.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)