Íran og kjarnorkuvopn

Í október á síðasta ári töldu Bretar, Frakkar og Þjóðverjar sig hafa náð samkomulagi við Írani, sem mundi fá þá til hverfa frá öllum hugmyndum um þróun kjarnorkuvopna. Núna, átta mánuðum seinna, hefur hins vegar orðið minna úr efndum Írana, en til stóð – þeir hafi aðeins verið að kaupa sér lengri frest.

Vilji Írans til að koma sér upp kjarnorkuvopnum er öllum greinilegur. Í um það bil 18 ár hafa Íranir stundað blekkingar og lygar um kjarnorkuáætlanir sínar. Og fátt virðist benda til þess, að á því verði einhver breyting. Þær fréttir sem berast af samskiptum Írans við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina (IEAE) sýna það glögglega. Þrátt fyrir auknu samvinnu við eftirlitsmenn IEAE, skuldbindingar um að hætta öllum áætlunum sínum um að auðga úran og að gera hreint fyrir sínum dyrum um fyrri kjarnorkuáætlanir, þá hafa þeir gert það bæði hikandi og ófullkomlega.

Allt rennir þetta frekari stoðum undir það, að Íranir hafi eitthvað að fela og að endanlegt takmark þeirra sé að kjarnorkuvopnavæðast. Ríkulegar vísbendingar benda til þess að kjarnorkuáætlanir þeirra séu lengra á veg komnar en áður var haldið. Íranir neita vitaskuld öllum ásökunum og fullyrða að kjarnorkuáætlun landsins sé aðeins til að framleiða rafmagn. Fáir taka þá vitleysu trúanlega. Í lok næsta árs er talið líklegt að Íranir geti farið að smíða kjarnorkuvopn.

Tilfelli Írans sýnir einn grundvallar veikleika sem NPT-samningurinn (Nuclear Non-Proliferation Treaty) inniheldur. Meginmarkmið samningins er að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna. Einu ríkin sem mega eiga kjarnorkuvopn eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. En samkvæmt samningnum skal jafnframt stuðla að afvopnun þessarra fimm ríkja. Veikleiki samningsins er hins vegar sá, að ríki sem gerast aðilar að honum, mega starfrækja kjarnorkuver – vera með kjarnorkuiðnað – en skuldbinda sig einnig, um að nota það aðeins til friðsamlegrar starfsemi. En þetta er um leið mesti veikleiki samningsins. Samkvæmt þessu geta ríki á löglegan hátt komist yfir þá tækni sem þarf til að þróa kjarnorkuvopn, og þegar þau hafa náð því stigi, geta þau einfaldlega sagt upp samningnum og haldið áfram að þróa sín kjarnorkuvopn. Og þetta er nákvæmlega það sem gerðist með Norður-Kóreu árið 2002, þegar það varð fyrsta ríkið til að rifta NPT-samningnum.

En af hverju telja Íranir sig þurfa kjarnorkuvopn? Fyrir því eru nokkrar ástæður. Fyrst má nefna, að ákveðinnar gremju gætir meðal Íranskra leiðtoga, um að eingöngu áðurnefnd fimm ríki megi eiga kjarnorkuvopn samkvæmt NPT-samningnum. Þeir telja að þetta sé ekki réttlætanlegt, og því séu Íranir í fullum rétti til að eignast kjarnorkuvopn líkt og hin ríkin í „kjarnorkuklúbbnum.“ (Ísrael, Indland og Pakistan eru ekki aðilar að NPT-samningnum einmitt vegna þessarra skilyrða og hafa því geta komið sér upp kjarnorkuvopnum.) Í öðru lagi eru það afleiðingarnar af innrásinni í Írak. Margir hafa haldið því fram, að lexían sem Íranir hafi lært í aðdraganda innrásinnar í Írak sé sú, að ef þú átt kjarnorkuvopn, eins og Norður-Kórea, þá muni ekki vera ráðist á þig, en ef þú átt ekki kjarnorkuvopn, eins og Írak, þá muni verða ráðist á þig. Og því hafi Íranir ályktað sem svo, að með því að koma sér upp kjarnorkuvopnum gætu þeir fælt Bandaríkin frá fyrirbyggjandi árás. En Bandaríkin hafa herstöðvar bæði við austur- og vesturlandamæri Írans. (Írak og Afganistan) Þriðja ástæðan er sú, að Íranir vilja styrkja stöðu sína gagnvart nágrannaríkjum á svæðinu – öðlast ákveðna táknræna stöðu. Ísraelar valda Írönum sérstaklega áhyggjum, en þeir eru álitnir eiga vel yfir hundrað kjarnorkuvopn. Ef mörg ríki eiga kjarnorkuvopn á svæðinu, – Ísraelar, Indland og Pakistan – af hverju ættu þeir þá ekki mega það einnig? Þeir eru jú stórveldi. – Að þeirra áliti allavega.

Hversu hættulegt yrði Íran með kjarnorkuvopn? Það yrði sennilega ekki jafn skelfilegt og Írak hefði orðið undir stjórn Saddam Hussein. Þrátt fyrir klerkastjórnina þar í landi, þá er hún ekki algjörlega einráð – valdinu er dreift. (checks and balance) Í Írak var hins vegar einn mikilmennskubrjálæðingur sem réð öllu. En það er auðvitað engin sérstök dyggð fólgin í því að teljast skárri aðilinn í samanburði við ógnarstjórn Saddams – ekki þarf mikið til. Íran hefur meðal annars annars stutt hryðjuverkasamstökin Hamas og Hizbullah við að berjast gegn Ísrael. Ef Íran kemur sér upp kjarnorkuvopnum mun það freista Ísraela til að hugleiða loftárásir á Íran. Það mundi þó ráðast af því, að Ísraelar vissu nákvæmlega hvar kjarnorkustarfsemi þeirra færi fram. Sú afleiðing sem sérfræðingar óttast þó allra mest, er að önnu ríki á þessu óstöðuga svæði mundu sjá sig tilneydd til að fylgja í kjölfarið; Sýrland, Egyptaland og Sádi Arabía eru þar öll líklegir kandídatar. Fjölgun kjarnorkuvopnaríkja mun leiða af sér enn fleiri kjarnorkuvopnaríki. En helsta markmið NPT-samningsins er einmitt að koma í veg fyrir slíka þróun.

Hernaðaraðgerðir koma ekki til greina sem stendur gegn Íran. Hvernig er þá eiginlega best að takast á við Íran? Eins og oftast snýst þetta um að finna rétta jafnvægið milli gulrótarinnar og priksins. Það sem af er, hefur aðeins verið boðið upp á gulrætur með litlum árangri. En um leið og vesturveldin – og þá sérstaklega Evrópa og Rússland – þurfa að herða aðgerðir sínar gagnvart Íran, með hótunum um að senda málið fyrir öryggisráðið þar sem alþjóðlegt viðskiptabann gæti verið samþykkt, þá verður einnig að sýna Írönum fram á einhvern ávinning af því að láta af kjarnorkuvopnavæðingu sinni. Ef það verður ekki gert, þá gæti hættuleg atburðarás farið af stað; Íran mundi hætta allri samvinnu við eftirlitsmenn IEAE og reka þá út úr landinu, segja upp NPT-samningnum og hefja á fullu framleiðslu á kjarnorkuvopnum. Sem sagt; margfalt verri staða en er uppi núna. En þetta er ekki það eina. Ef of hörðum refsiaðgerðum verður beitt gegn Íran gæti myndast sterk þjóðernisbylgja í landinu, sem yrði til þess að styrkja stöðu þeirra harðlínuafla sem nú eru við völd. Það mundi gera útaf við það sem ætti að vera eitt af markmiðum vesturveldanna – stjórnarskipti í Teheran.

Eitt er að minnsta kosti ljóst. Íran mun verða eitt mikilvægasta viðfangsefnið á sviði alþjóðamálanna næstu árin. Og í þessu máli, fremur en mörgum öðrum, þurfa Bandaríkin og Evrópa að vinna saman ef árangur á að nást.