einkamal.is

Það er langur vegur frá þeim dögum þegar piltar báðu feður um hönd stúlkna til dagsins í dag þar sem umtalsverður hluti þeirra sem þreifa sig áfram í tilhugalífinu leita á náðir stefnumótamiðlunar á netinu. Frat eða frábært mál?

Það er langur vegur frá þeim dögum þegar piltar komu skjálfandi á beinunum biðjandi feður um hönd dætra þeirra eftir að hafa séð þær valhoppa í túninu um sumarið, til dagsins í dag þar sem að umtalsvert hlutfall þeirra sem þreifa sig áfram í tilhugalífinu leita á náðir stefnumótamiðlunar á netinu.

Ekki er langt síðan að íslenska einkamálasíðan, einkamal.is opnaði, og virðist hún eiga sífellt meiri vinsældum að fagna. Á síðunni kemur fram að þar séu rúmlega 42 þúsund notendur skráðir. Þar má finna ýmis konar smáauglýsingar frá leitandi fólki, þar sem fram kemur lýsing á útliti, áhugamálum og þeirri gerð samskipta sem óskað er eftir t.d vináttu, spjalli, stefnumótum o.s.frv. Skrá þarf sig sem notanda bæði til þess að geta sett inn auglýsingu og til þess að geta svarað, og fara fyrstu samskipti vanalega nafnlaust á milli með netpósti.

Ef horft er til þess að þegar frádregnir eru þeir sem eru undir 16 ára aldri eða eru þegar í hjónabandi/sambúð af þeim rúmlega 290.000 Íslendingum sem draga andann, þá er 42 þúsund frekar stórt hlutfall!

Viðbrögð flestra við þessari nýju senu í tilhugalífinu eru í fyrstu yfirleitt af heldur neikvæðum og tortryggnum meiði, og er undirrituð sannarlega engin undantekning. Kannski af því að það eigi að bera einhvern vott um félagslega bresti í fólki ef það gengur ekki út á hefðbundinn máta, kannski af því það þykir benda til örvæntingar að auglýsa sig opinberlega þó nafnlaust sé, og e.t.v einnig af því hugmyndin um einhvers konar afhjúpun er mörgum óbærileg. Sjálfsagt má telja til fleiri ástæður. Að minnsta kosti virðist manni stemningin gagnvart þessu þannig að fólk er að jafnaði tregt til að láta það uppi að því gæti fundist þetta forvitnilegur kostur, hvað þá að það sé þegar skráð.

En kann þetta bara ekki góðri lukku að stýra? Að ef þeir leitandi hafa einhverra hluta vegna ekki uppskorið eftir hinum klassísku leiðum, í gegnum vini, skóla, vinnu, félagsstörf eða úti á lífinu sé aldeilis enn kostur í stöðunni. Þegar þessu er stillt upp er heldur í raun ekki hægt að segja annað en að það sé um margt eðlilegra að hitta einhvern sem er sigtaður út eftir áhugamálum og kynnast síðan smám saman, heldur en til dæmis að gera atlögu að þeim sem eru í meters radíus korter fyrir þrjú.

Undirrituð er allavega öll að snúast á sveif með þessum möguleika. Tölur frá svipuðum bandarískum vefsíðum gefa a.m.k. hugmyndir um að hér heima séu nú þegar ófá sambönd, vináttur og hjónabönd sem eru tilkomin vegna slíkra miðlana. Sem er gott. Ástin er engin bóla, og ef að fleirum er gert kleift að finna hana með hjálp tækninnar-þá er það hið besta mál.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.