List eða tímaeyðsla?

Er knattspyrna list eða sóun á tíma og peningum? Pistlahöfundi er Evrópumótið í knattspyrnu hugleikið að þessu sinni.

22 leikmenn, einn bolti, tugþúsundir áhorfenda á völlum og milljónir út um allan heim. Hvert sem farið er má sjá fólk sparka tuðru sín á milli. En hvað er það við þennan leik sem gerir hann jafn vinsælan og raun er?

Knattspyrnan veltir gríðarlegum fjármunum enda eru margir leikmenn og þjálfarar með laun á við kvikmyndastjörnur. Kaupsýslumenn og jafnvel forsætisráðherrar fjárfesta í liðum, að því er virðist til að geta grobbað sig af því á börum. Að minnsta kosti er sjaldgæft að slík fjárfesting skili arði. Sumir segja reyndar að þessi áhersla á peninga hafi eyðilagt skemmtunina sem fylgir fótboltanum.

Hvort heldur sem er þá geta mót á borð við EM lagt heilu heimilin í rúst. Í tæpan mánuð berjast bestu knattspyrnumenn heimsins um þennan vinsæla titil og út um allan heim gerast jafnvel yfirlýstir antisportarar sérfræðingar um knattspyrnu. Allir eiga sitt uppáhalds lið og ræða fram og til baka um úrslit dagsins. Inn á milli eru þó þeir sem leggja fæð á þennan viðburð og vilja ekkert af þessu vita. Skítugir menn í stuttbuxum eiga ekki upp á pallborðið hjá öllum.

Sumir vilja meina að fótbolti sé list. Tilþrifin séu slík að sannir fagurkerar geti ekki annað en hrifist með. Menn geta dæmt um það næstu vikur um leið og þeir fylgjast með Evrópumótinu í Sjónvarpinu. Nær ómögulegt er að segja hverjir standa uppi sem sigurvegarar í mótslok. Líklega eru einar 5 þjóðir sem eiga raunhæfa möguleika á titlinum.

Frakkar hófu titilvörn sína í dag með ótrúlegum sigri á Englendingum. Zinidane Zidane skoraði bæði mörkin þegar leiktíminn var liðinn. Martröð Englendinga heldur áfram sem voru í raun sterkari aðilinn í leiknum. Íslendingar hafa enn ekki fengið tækifæri til að fylgjast með sínum liðum á stórmóti í knattspyrnu en vonandi er stutt í að það gerist.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)