VLFÁF

Það hefur sjaldan gefið neitt góða raun að ætla sér að koma einhverju í verk á föstudögum. Þeir sem standa í fyrirtækjarekstri eða hvers konar bissness vita hve ómögulegt það er að fá starfsfólk til hrista úr sér uppsafnaða áfengisspennu vikunnar og koma einhverju, bara einhverju í verk.

Það hefur sjaldan gefið neitt góða raun að ætla sér að koma einhverju í verk á föstudögum. Þeir sem standa í fyrirtækjarekstri eða hvers konar bissness vita hve ómögulegt það er að fá starfsfólk til hrista úr sér uppsafnaða áfengisspennu vikunnar og koma einhverju, bara einhverju í verk.

En, nei. Bolti klukkan 5. Afmæli í kvöld. Útilega á morgunn. Símtöl og skeyti fljúgast meðan aðrir, mikilvægari hluti eru skipulagðir. Föstudagar hafa alveg farið á mis við hinn mikla vöxt íslensks hagkerfis á undanförnum árum. Í raun þyrfti að koma á nýrri hagstærð VLFÁF (verg landsframleiðsla án föstudaga) til að umfang hins mikla íslenska góðæris skili sér almennilega inn í hagfræðirit.

Ja, föstudagsframleiðnin hefur nú minnkað ef eitthvað er með batnandi búi. Í gamla daga, áður en Davíð Oddsson kom landinu af bronsöld, þá var nú hvort sem er svo lítið sem menn gátu hlakkað til um helgar. Þá var nú örugglega unnið almennilega á föstudögum, og bara almennt um helgar í þá tíð. Enda höfðu menn þá ekkert sjónvarp, bara kirkjubækur og enginn var bjórinn, aðeins mysuþynnt brennvín. Fyrir þá sem höfðu það allra best.

Dag einn í júlí 2003 fór Ritsjórn Deiglunnar að úthluta Deigluskríbentum svokölluðum „Helgarnestum“ sem birtast seinni partinn á föstudögum. Það var aldrei sérstaklega útskýrt hver efnistök þessa dálks ættu að vera enda var þess ekki þörf. Orðið helgi er hlaðið þvílíkum ljóma almennrar leti og ölvunnar að frá upphafi var ljóst hvert meginþema Helgarnesta átti að vera.

Margir pennar eru mjög færir Helgarnestishöfundar. Aðrir t.d. ég skrifa einfaldlega venjulega deiglugrein, stíla hana aðeins niður og enda á áköllun um almenna ölvun. Hmm… best að skrifa bara um sameiningu sveitarfélaga, en gera það bara hratt, glettið, og enda á orðunum „fáum okkur bjór og slökum á“. Allt í anda föstudagsslepjunnar.

Þegar allt er á hólminn komið er það kannski ekkert nema jákvætt að samkomuleg hafi tekist um almennt slappelsi einn dag vikunnar. Í raun hlýtur það að vera ekkert nema af hinu góða. Svo við notum hefðbundin „atvinnurök“ þá er ljóst að fólk sem er duglegt á föstudögum að „taka atvinnu“ af öðrum. Frá atvinnusjónarmiðum væri því æskilegt að jafnvel fyrirskipa starfsfólki fyrirtækja að nota a.m.k. 40% föstudagsins í skipulagningu félagsatburða og aðra vitleysu.

Góða helgi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.