Skilvirkar netundirskriftir

Undanfarið hefur töluvert verið rætt um undirskriftalista á netinu og virkni þeirra. Yfirleitt hefur þetta verið undir merkjum þess að listarnir séu töluvert óöruggari en það sem gengur og gerist almennt með slíka lista.

Undanfarið hefur verið töluvert rætt um undirskriftalista á netinu og virkni þeirra. Yfirleitt hefur þetta verið undir merkjum þess að listarnir séu töluvert óöruggari en það sem gengur og gerist almennt með slíka lista.

Eitt dæmi sem hefur verið nefnt til að bæta slíka lista er að senda ætti tölvupósta á þá sem skrá sig og þeir myndu svo staðfesta skráningu á listann. Mjög erfitt er þó að sýna fram á að einhver aðili sé sá sem hann er, þrátt fyrir að sent sé svar á eitthvað netfang. Jón Jónsson getur gefið upp eitthvað netfang, t.d. gaur787@hotmail.com, en hins vegar er ekki þar með sagt að það hafi ekki einhver annar aðili stofnað þetta netfang í nafni Jóns svo hann gæt skrifað undir í hans nafni. Ef menn eru á annað borð farnir af stað í að svindla mun þetta á engan hátt tryggja meira öryggi undirskriftalistans, þar sem mjög einfalt er að verða sér út um netföng og skrifa undir í nafni hvers sem er.

Flest ungmenni eiga eitt eða fleiri netföng, en á hinn bóginn minnka líkurnar eftir því sem fólk er eldra. Oft eiga fjölskyldur saman eitt netfang, sem fylgir með nettenginu viðkomandi. Þetta fólk getur annað hvort ekki skrifað undir eða skrifað bara undir í nafni eins í fjölskyldunni.

Aðrir hafa nefnt hið stórtæka svindl þar sem þáttagerðarmaður fjarlægði “kökurnar” og gat kosið aftur og aftur í kosningu um vinsælasta sjónvarpsmanninn. Þarna er nokkur misskilningur á ferðinni þar sem ekki er um könnun að ræða og því strangari kröfur gerðar, t.d. er kennitala gefin upp og auðvelt að tryggja að hver kennitala sé einu sinni á listanum en ekki oftar. Kökur eru ekki notaðar til þess að tryggja þetta eins og gert er við netkannanir.

Alþingismaður benti í ræðustól á að hann hafi beðið félaga sinn um að skrifa undir netundirskriftasöfnun í sínu nafni. Þetta gerði félaginn og fannst þeim mikið til koma að þetta væri hægt. Slíkar undirskriftasafnanir hafa oft farið þannig fram að gengið hefði verið hús úr húsi eða listar legið frammi í sjoppum, vandræðalaust hefði verið fyrir félaga alþingismannsins að skrifa undir í hans nafni þegar komið væri heim til hans eða með því að bregða sér út í næstu sjoppu. Afar ólíklegt má teljast að viðkomandi hefði verið beðinn um persónuskilríki.

Á þeim vinnustað sem ég vinn á gerðum við að gamni könnun á því hversu vel gengi að nota mín skilríki fyrir samstarfsfélaga mína, var þetta að sjálfsögðu gert í gríni og án þess að nokkur hlyti skaða af. Í ljós kom að af 6 sem tóku þátt í þessu gríni voru 4 ekki spurðir enda með svipaðan háralit, einn sagði að myndin væri gömul og annar að hann hefði litað hárið en óhætt er að fullyrða að þeir tveir sem voru spurðir hafi verið nokkuð ólíkir undirrituðum. Þetta er samt það kerfi sem meðal annars er notað við almennar kosningar í landinu og hefur gengið vel án stórtæks svindls.

Sé vilji fyrir hendi er alltaf hægt að svindla á svona undirskriftalistum, jafnvel þótt menn geri sitt besta og biðji um skilríki. Á sama hátt og aðilar sem framkvæma pappírs undirskriftir skiptir jafnframt miklu máli að skipuleggjendurnir standi rétt að undirskriftasöfnuninni. Marktækar netundirskrifasafnanir gera sitt ítrasta t.d. með því að vera með vartölupróf, bera undirskriftir saman við þjóðskrá og tryggja að ekki komi margar undirskriftir á stuttum tíma frá sömu tölvunni. Þannig eru þessar undirskriftir ekki síður marktækar en pappírsundirskriftir. Menn geta þó deilt um almennt gildi slíkra undirskriftasafnana en um það verður ekki fjallað í þessum pistli.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.