Ömurlegar árásir í skjóli nafnleyndar

Þótt fólki greini á í pólitík þá verður að draga mörkin einhvers staðar. Ómálefnalegar og ósmekklegar árásir á andstæðingana er sjaldnast málstaðnum til framdráttar.

„Glögg kona hafði samband við blaðamann Fréttablaðsins og sagði greinilegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, hefði farið oftar í hárgreiðslu í kosningabaráttunni en allan síðasta vetur. Með því að skoða myndir frá því fyrir ári sá hún að það var mun meira áberandi hve hár hennar var þunnt og gisið. Í kosningabaráttunni tók hún hins vegar eftir að hárgreiðslufólk hafði á faglegan hátt náð að fela skallablettina með því að túbera hárið svo það þakti vel höfuðlagið og virtist þykkara.“

Þennan ógeðslega pistil mátti lesa í Fréttablaðinu sl. miðvikudag en í dálki með hið sakleysislega heiti “Fólk í fréttum” virðist sem blaðamönnum Fréttablaðsins leyfist að setja á prent, í skjóli nafleyndar, allan þann róg og ósóma sem þeim dettur í hug um óvini sína og mótherja. Þetta er auðvitað ekki eina dæmið um pólitískan rógburð sem þarna þrífst en ég man ekki til þess að hafa séð önnur eins endemi á prenti.

Það væri út af fyrir sig áhugavert að komast að því hvers lags ómenni leggst svo lágt að ráðast með þessum ömurlega hætti á borgarstjórann en gera má ráð fyrir því að viðkomandi sé ekki samherji hennar í pólitík. En pólítískar skærur eru hins vegar alls engin réttlæting fyrir svo lágkúrulegum árásum á andstæðinga sína eins og hér um ræðir og raun væri það svo að ef höfundur hefði haft manndóm í sér til þess að skrifa svona þvælu undir nafni þá hefði það tvímælalaust verið honum sjálfum mun frekar til miska en happs. En í skjóli nafnleyndar virðast sumir ræflar skyndilega verða hinir mestu bógar og þora að gera alls kyns hluti sem þeir hefðu aldrei annars hafð uppburð í sér til.

Hér á Deiglunnni hefur margsinnis verið deilt á þá pólitík sem borgarstjórinn í Reykjavík stendur fyrir og ber ekki að túlka þennan pistil sem vörn fyrir hennar pólitíska málstað. Hins vegar verður því ekki heldur neitað að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er glæsilegur borgarstjóri og framúrskarandi hæfileikaríkur stjórnmálamaður. Hún er ekki bara glæsileg fyrirmynd kvenna í stjórnmálum heldur geta allir þeir sem afskipti hafa af þjóðmálum lært þó nokkuð af henni og tekið hana sér til fyrirmyndar. Þegar tilteknir óvinir hennar eru farnir að beita svona ómerkilegheitum til að ná höggi á hana ber það vott um að aflsmunur á henni, og þeim, sé slíkur að þeir geri sér ekki nokkra von um að standast henni snúning á málefnalegum grunni.

Þótt skrif eins og þau sem birtust í Fréttablaðinu hljóti að vera særandi og meiðandi þá tel ég að Ingibjörg Sólrún eigi að taka þessum árásum eins og um sæmdarorður væri að ræða því svona málflutningur er endanleg uppgjöf þeirra, sem fyrir svona málflutningi standa, fyrir ofjarli sínum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.