Byssur, bakteríur og stál

Af hverju gerðist það í kringum 1500 eftir krist að Evrópubúar lögðu undir sig stærstan hluta hins byggilega heims á skömmum tíma? Hvað orsakaði þá yfirburði sem gerði Evrópubúum kleift að gjörsigra aðrar mun fjölmennari þjóðir nánast eins og hendi væri veifað á þessum tíma?

Af hverju gerðist það í kringum 1500 eftir krist að Evrópubúar lögðu undir sig stærstan hluta hins byggilega heims á skömmum tíma? Hvað orsakaði þá yfirburði sem gerði Evrópubúum kleift að gjörsigra aðrar mun fjölmennari þjóðir nánast eins og hendi væri veifað á þessum tíma? Þegar spurningar af þessu tagi koma upp í rökræðum manna á milli eru margir gjarnir á að halda því fram að hernaðarlegir yfirburðir Evrópubúa um og eftir 1500 eftir krist séu sterk vísbending um genetíska yfirburði hvíta kynstofnsins.

Lengst af reyndist efasemdarmönnum erfitt að hrekja röksemdir af þessu tagi þar sem erfitt var að koma auga á aðra þætti sem gætu orsakað yfirburði Evrópubúa síðustu 500 árin. Fyrir nokkrum árum kom hins vegar út bók þar sem færð eru sannfærandi rök fyrir því að yfirburðir Evrópubúa síðan um 1500 eigi rætur sínar að rekja til landafræði en ekki gena. Bókin heitir Guns, Germs and Steel og er eftir lífeðlisfræðinginn Jared Diamond. Bókin hlaut Pulitzer verðlaunin og er af mörgum talin ein af mikilvægastu bókum um sögu mannsins sem birst hefur síðasta áratuginn.

Diamond færir rök fyrir því að grunnorsakir þeirra yfirburða sem Evrópubúar bjuggu yfir um 1500 eftir krist hafi annars vegar verið lega heimsálfanna og hins vegar sú staðreynd að langflest af mikilvægustu nytjaplöntum og húsdýrum heims lifðu vilt í frjósama hálfmánanum eða þar í kring um og eftir lok síðustu ísaldar.

Lega heimsálfana er mikilvæg þar sem hún hefur áhrif á hraða tækniframfara. Flestar tæknirframfarir voru í gegnum tíðina þess eðlis að þær nýttust aðeins þeim sem bjuggu við svipuð veðurskilyrði. Þetta gerði það að verkum að tækniframfarir áttu mun auðveldara með að breiðast út í austur og vestur en í norður og suður. Í heimsálfum sem voru langar í austur og vestur, s.s. Evrasía, bjó fleira fólk á hverri breiddargráðu og því var eðlilegt að þær þróuðust hraðar en heimsálfur sem voru langar í norður og suður, s.s. Ameríka og Afríka.

Sú staðreynd að flestar af mikilvægustu nytjaplöntum heims uxu viltar í frjósama hálfmánanum gerði það að verkum að mun auðveldara var fyrir fólk á þessum slóðum að skipta frá því að vera veiðimenn og safnarar í að stunda landbúnað. Frjósamur landbúnaður leiddi síðan til mikillar fólksfjölgunar. Hann leiddi til verkaskiptingar, þar sem nú var unnt að fæða fleiri en einungis þá sem unnu við sjálfan landbúnaðinn. Hann leiddi þar að auki til þess að borgir tóku að myndast.

Verkaskiptingin leiddi til aukinnar áherslu á þróun nýrrar tækni sem á endanum leiddi til uppgötvana á borð við ritmál, byssur, stálsverð, haffær skip og flókin stjórnkerfi. Borgarlífið leiddi til þess að fólk varð smám saman ónæmt fyrir alls kyns bakteríum og veirum sem grasseruðu í þéttbýli. Þar sem aðrar þjóðir höfðu ekki sama ónæmi hrundu þær niður af alls kyns drepsóttum þegar þær komust fyrst í snertingu við Evrópuþjóðir.

Þegar komið var fram til 1500 eftir krist höfðu þessir landfræðilegu yfirburðir undið það mikið upp á sig að enginn átti lengur roð í Evrópumenn. Landafræðin hafði leitt til þess að Evrópuþjóðir höfðu yfir að ráða ritmáli, byssum, stálsverðum, hestum, skipum og drepsóttum. En það voru einmitt þessir yfirburðir sem gerði það að verkum að Evrópubúar gátu auðveldlega lagt undir sig heiminn.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.