Framtíð Öryggisráðsins

Skipan Öryggisráðsins endurspeglar valdahlutföll eins og þau voru í heiminum í lok seinni heimstyrjaldar. Heimurinn hefur hins vegar breyst mikið og sífellt fleiri ríki gera kröfur um breytta skipan ráðsins.

Það líður vart sú vika að ekki sé minnst á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í fréttum, sem sýnir e.t.v. mikilvægi þess á alþjóðavettvangi. Helsta hlutverk ráðsins er að stuðla að friði og öryggi í heiminum og hefur það viðamiklar valdheimildir til þess að sinna þessu hlutverki sínu sem best.

Öryggisráðið hefur þó ekki alltaf reynst vel og starfaði það ekki sem skyldi á dögum kalda stríðsins þegar stórveldin beittu neitunarvaldi sínu á víxl og sjaldnast var ályktað þegar á þurfti. Orsökin var m.ö.o. fremur afstaða aðildarþjóðanna en ómöguleg skipan ráðsins. Eftir að þíða komst á í samskiptum austurs og vesturs hefur Öryggisráðið sannað tilvist sína og gripið til aðgerða þegar ógn stafar af friði víða um veröld. Þá hefur það m.a. staðið fyrir friðargæslu á yfir fimmtíu stöðum frá árinu 1945 og ekki má gleyma stríðsglæpadómstólunum tveimur, fyrir fyrrum ríki Júgóslavíu og Rúanda, sem Öryggisráðið kom á fót á fyrir um tíu árum síðan.

Skipan Öryggisráðsins endurspeglar valdahlutföll eins og þau voru í heiminum í lok seinni heimstyrjaldar. Fimm af fimmtán fulltrúum í ráðinu eru fastafulltrúar, en hinir tíu eru kosnir af Allsherjarþinginu til tveggja ára í senn. Fastafulltrúarnir fimm eru bandamennirnir úr stríðinu – sigurvegararnir – þ.e. Kína, Bretland, Frakkland, Bandaríkin og Rússland, og hafa þeir allir neitunarvald. Hinum tíu sætunum er dreift eftir landfræðilegri formúlu, sem útlistuð er í ályktun Allsherjarþingsins frá árinu 1991. Fimm sæti ganga til ríkja í Afríku og Asíu, eitt fer til Austur-Evrópu, tvö til ríkja Suður-Ameríku og Karíbahafsins, og loks tvö til Vestur-Evrópu og annarra. Það er einmitt innan síðastnefnda hópsins sem Ísland mun keppa um sæti í Öryggisráðinu fyrir árin 2009-2010. Í dag eru kjörnu fulltrúarnir: Angóla, Algería, Benín, Brasilía, Chile, Þýskaland, Pakistan, Filippseyjar, Spánn og Rúmenía.

Heimurinn hefur breyst mikið frá lokum seinni heimstyrjaldar og valdahlutföllin eru önnur í dag. Sjálfstæðum ríkjum fjölgaði gífurlega eftir að margar nýlendurnar fengu sjálfstæði á eftirstríðsárunum og aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna fjölgaði eftir því. Þessar fimm þjóðir, sem fast sæti eiga í Öryggisráðinu, voru álitnar ,,great powers” við stofnun Sameinuðu þjóðanna, þótt deila megi um hvort það sé hægt að segja um þær allar í dag.

Árið 1979 hófu ýmsar þjóðir, ekki síst þróunarlöndin, umræðu um hvort breyta ætti skipan Öryggisráðsins, og eftir lok kalda stríðsins fóru ríki á borð við Þýskaland og Japan að gera kröfu um fast sæti. Þýskaland og Japan greiða mest fé til Sameinuðu þjóðanna á eftir Bandaríkjunum svo ekki er þetta óeðlileg krafa af þeirra hálfu. Í lok árs 1993 stóð Allsherjarþingið fyrir stofnun vinnuhóps ,,Open-Ended Working Group on the Question of Equitable Representation and Increase in the Membership of the Security Council”, sem ætlað var það hlutverk að gera tillögur um breytta skipan Öryggisráðs. Vinnuhópurinn hefur ekki enn skilað endanlegri niðurstöðu.

Víst er að breytingar á skipan Öryggisráðsins gætu orðið umdeildar. Breyta þyrfti stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna til þess að af þeim yrði, en það hefur aðeins gerst þrisvar í sögu þeirra, þ.á m. var fulltrúum í Öryggisráðinu fjölgað úr ellefu í fimmtán árið 1966. Allar breytingar á stofnsáttmálunum þurfa fastaríkin fimm að samþykkja. Ólíklegt er að þau séu tilbúin til þess að gefa eftir fasta sætið sitt, svo e.t.v. er eina mögulega leiðin að fjölga í Öryggisráðinu. Ástæða þess að þar sitja aðeins fimmtán fulltrúar er svo ráðið sé skilvirkara en ef fleiri ríki ættu þar sæti. Er þetta góð og gild röksemd. Fjölgun í Öryggisráðinu yki hættuna á því að erfiðara væri að komast að samkomulagi þar innan og skilvirknin gæti því orðið minni. Fjölgun fulltrúa hefði einnig fjölmargar spurningar í för með sér. Hvaða ríki ættu t.d. að fá fast sæti, og það sem meira er – fengju nýju ríkin einnig neitunarvald?

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)