Starfsreynsluskilyrði fellt út

Allsherjarnefnd vill að starfsreynsluskilyrði til að öðlast réttindi til að verða héraðsdómslögmaður verði fellt út úr frumvarpi til breytinga á lögum um lögmenn nr. 77/1998. Nefndin taldi að umrætt skilyrði hefði verið til þess fallið að takmarka aðgang að lögmannastéttinni. Ekki stæðu rök til þess að festa slíkt skilyrði í lög.

Allsherjarnefnd leggur til í nefndaráliti að ákvæði um að tiltekna starfsreynslu þurfi til þess að fá að þreyta námskeið til að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi verði fellt út. Í frumvarpi til breytinga á lögum um lögmenn nr. 77/1998, sem lagt var fyrir Alþingi í desember, var að finna skilyrði þess efnis að til að eiga rétt á að fara námskeiðið þyrfti umsækjandi að hafa starfað í 6 mánuði sem fulltrúi lögmanns eða eitt ár sem aðstoðarmaður dómara, fulltrúi ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík eða sýslumanns eða hefði hlotið sambærilega starfsreynslu að mati prófnefndar.

Rökstuðningur nefndarinnar fyrir að leggja til breytingar á frumvarpinu að þessu leyti er sá að hún telur að umrætt skilyrði hafi verið til þess fallið að takmarka aðgang að lögmannastéttinni og taldi ekki rök standa til að festa slík skilyrði í lög. Hún taldi að allir þeir lögfræðingar sem vildu afla sér héraðsdómslögmannréttinda ættu að geta tekist á við það verkefni stæði vilji þeirra til þess, eins og núgildandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir.

Hagsmunir þeir sem verja átti með þessu skilyrði voru almannahagsmunir, þannig að þeir sem leituðu til lögmanna um aðstoð gætu treyst því að viðkomandi lögmaður hefði reynslu til að bera til að takast á við viðfangsefnið og koma mætti í veg fyrir að viðskiptavinir yrðu fyrir réttarspjöllum vegna óvandaðra vinnubragða. Þetta var eins konar neytendavernd.

Neytendaverndarrökin eru ágætis rök. Staðreyndin er hins vegar sú að í langflestum tilvikum hefja þeir sem fengið hafa héraðsdómslögmannsréttindi störf sem fulltrúar annarra lögmanna. Þeir starfa því á ábyrgð þess lögmanns sem þeir eru fulltrúar fyrir. Það er mjög sjaldgæft að sá sem fengið hefur lögmannsréttindi taki sig til og fari strax að starfa sjálfstætt. Slík tilvik eru hins vegar til. Ef vilji stóð til að setja skilyrði um starfsreynslu átti slíkt skilyrði að beinast að þeim tilvikum, þannig að starfsreynsla væri áskilin til að menn gætu byrjað að starfa sjálfstætt, en ekki áður en menn hæfu störf sem fulltrúar annarra lögmanna. Þannig hefðu hagsmunir almennings verið tryggðir.

Víða í Evrópu er áskilin starfsreynsla áður en menn geta hafið störf sem lögmenn og er það reist á grundvelli hagsmuna þeirra sem kaupa þjónustuna. Verði fallist á breytingatillögur allsherjarnefndar, sem allar líkur eru á, verður slíkt skilyrði ekki að finna í íslenskum lögum. Í ljósi afstöðu allsherjarnefndar nú er ólíklegt að slíkt skilyrði verði leitt í lög á næstu árum.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)