Stafrófið uppurið

Náttúruhamfarirnar undanfarna mánuði hafa dregið ýmsar staðreyndir fram í dagsljósið, t.d. það að hve illa ríkasta landi í heimi var undirbúið fyrir Katrínu, hvernig fréttirnar brugðust okkur og nú síðast að vísindamenn eru búnir með stafrófið, sökum gríðarlegrar fjölgunar hitabeltislægða.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa dunið á okkur fréttir af ógurlegum náttúruhamförum. Þessar hörmungar hafa dregið ýmis konar sannleik fram í dagsljósið.

Fyrst ber að nefna hörmungarnar sem fylgdu fellibylnum Katrínu, en skv. opinberum tölum fórust 1281 vegna fellibylsins. Þegar maður veltir þessum atburðum fyrir sér, finnst manni jafnvel enn ótrúlegra hve illa bandarískt samfélag var undirbúið til að bregðast við svona hörmungum.

Samkenndin fjaraði út á svipuðum tíma og flóðgarðarnir brustu. Þeir sem fóru hvað verst út úr flóðunum voru einmitt þeir sem hvað minnst máttu sín. Fólk sem annað hvort komst ekki í burtu eða þá hafði engan stað til þess að fara á. Fátækt fólk, sjúklingar og aldraðir. Bjarga hefði mátt fjölda mannslífa ef stjórnvöld hefðu hlustað á sérfræðinga og brugðist við. Enginn axlar ábyrgðina. Flestir humma bara: “bara bentu í austur, bentu í vestur, bentu á þann sem að þér þykir verstur.”

En bandarísk yfirvöld voru þó ekki ein um það að fá falleinkunn. Fjölmiðlar brugðust líka. Á dögunum og vikum eftir hörmungarnar hlustuðum við á ógeðslegar og æsilegar fréttir um hnignun mannsins sem síðar reyndust að flestu leyti ósannar. Ég trúi því varla að þessar ýkjur séu afleiðing einhvers konar “áhorfsgreddu”, þó það virðist vera sennilegasta skýringin.

Túlkun fréttamannsins á atburðunum skiptir líka miklu máli. Það er ekki síður mikilvægt í máli eins og þessu þar sem nokkrar alþjóðlegar fréttaveitur senda efni til annarra fréttastofa. Í eftirfarandi dæmi sést, svart á hvítu, hvernig hægt er að segja mismunandi frá sambærilegum atburðum.

Í textanum við efri myndina segir að þar fari um ungur (svartur) maður með poka af matvörum sem hann hefur stolið(…after looting a local grocery store). Með neðri myndinni segir aftur á móti frá ungu pari sem að fann poka af matvörum(…after finding bread and soda from local grocery store).

Þessar hörmungar undanfarið hafa ekki einungis dregið getuleysi bandarískra stjórnvalda eða lélegan fréttaflutning alþjóðlegra fréttaveita fram í dagsljósið. Ástandið leiðir hugann líka að umhverfismálum. Hver er ástæða þessarar fjölgunar fellibylja og flóða?

Hitabeltislægðum eru gefin karla- og kvennanöfn til skiptis, byrjað á bókstafnum A og endað á W. Núna hefur komið upp sú staða að vísindamenn eru búnir með stafrófið, en það hefur ekki gerst í 150 ára skráningarsögu hitabeltislægða. Því eru vísindamenn farnir að notast við gríska stafrófið. Hin nýja hitabeltislægð fékk nafnið Alpha.

Í kjölfar þessara fellibylja og flóða, bæði í Ameríku og Evrópu, verðum við að staldra við og hugsa með okkur; hver er ástæða þessara hamfara? Leikum við þar eitthvað hlutverk?

hægt er að nálgast frekari upplýsingar um myndina hér fyrir ofan á slóðinni: http://www.snopes.com/katrina/photos/looters.asp

Latest posts by Sigurður Örn Hilmarsson (see all)