Af hverju hefur glæpum fækkað í Bandaríkjunum?

Morðum, nauðgunum, ránum, líkamsárásum og öðrum glæpum fækkaði um 25-50% í Bandaríkjunum á tíunda áratuginum. Þessi gríðarlega fækkun á glæpum átti sér stað um öll Bandaríkin. Nýlegar rannsóknir á orsökum þessarar fækkunar leiða ýmislegt athyglisvert í ljós.

Glæpum í Bandaríkjunum fækkaði gríðarlega á tíunda áratuginum. Sem dæmi má nefna að morðum fækkaði um 43%, nauðgunum um 25%, ránum um 46%, inbrotum um 41%, bílaþjófnaði um 37% og stórfeldum líkamsárásum um 27%. Fækkun glæpa átti sér stað um öll Bandaríkin. Þannig fækkaði morðum um 74% í New York, 56% í Boston, 36% í Philadelphia, 63% í Houston, 31% í Chicago og 49% í Los Angeles.

Margar kenningar hafa verið settar fram til þess að skýra þessa þróun. Vísindamenn hafa unnið hörðum höndum á síðustu árum við að meta áhrif hinna ýmsu þátta. Fyrir skömmu birti hagfræðingurinn Steven Levitt (Chicago) grein í tímaritinu Journal of Economic Perspectives þar sem hann fer yfir niðurstöður þessara rannsókna. Það er óhætt að segja að ýmislegt komi á óvart við lestur greinarinnar.

Niðurstaða Levitt er að sex algengar kenningar um fækkun glæpa eigi ekki við rök að styðjast eða skýri einungis lítið brot af fækkuninni. Levitt kemst hins vegar að því að fjórir áhrifavaldar geri skýrt stærstan hluta fækkunarinnar.

Kenningarnar sex sem EKKI skýra fækkun glæpa eru:

1) Gróska í bandaríska hagkerfinu á tíunda áratuginum.

2) Breytingar á aldurssamsetningu bandarísku þjóðarinnar.

3) Nýjar aðferðir við löggæslu (s.s. þær sem notaðar voru í New York)

4) Hertar reglur um byssueign.

5) Lög sem heimila fólki að bera byssur innan klæða.

6) Aukin notkun dauðarefsinga.

Þættirnir fjórir sem Levitt telur að skýri stærstan hluta fækkunarinnar eru:

1) Fjölgun lögreglumanna.

2) Fjölgun fanga.

3) Hnignun krakk-kókein faraldursins.

4) Lögleiðing fóstureyðinga.

Það að fjölgun lögreglumanna og hnignun krakk-kókein faraldursins fækki glæpum kemur ekki á óvart. Fjölgun fanga fækkar glæpum annars vegar vegna þess að þeir sem eru bak við lás og slá eru ekki lengur í aðstöðu til þess að fremja glæpi og hins vegar vegna þess að harðari refsingar letja fólk til glæpa. Levitt kemst að þeirri niðurstöðu að beinn kostnaður sem fylgir fjölgun lögreglumanna og rekstri fengelsa sé minni en ábatinn sem fylgir þeirri fækkun glæpa sem þessar aðgerðir valda. Levitt leggur hins vegar ekki mat á óbeinan kostnað þjóðfélagsins af því að hafa á þriðju milljón þegna sinna á bak við lás og slá. Útreikningar Levitt benda enn fremur til þess að fjölgun lögreglumanna sé hagkvæmari leið til þess að fækka glæpum en fjölgun fanga.

Fjórði þátturinn kemur hins vegar mest á óvart. Hvernig getur það verið að lögleiðing fóstureyðinga sem átti sér stað í upphafi áttunda áratugarins hafi leitt til færri glæpa á tíunda áratuginum? Þetta orsakasamband byggir á tvennu. Annars vegar því að óvelkomin börn séu líklegri til þess að leiðast út í glæpi. Og hins vegar því að óvelkomnum börnum fækki við lögleiðingu fóstureyðinga.

Rannsóknir benda til þess að báðir þessir þættir séu fyrir hendi. Þá sýna nýlegar rannsóknir að glæpum fækkaði fyrr í fylkjum sem leyfðu fóstureyðingar fyrr. Einnig fækkaði glæpum meira í fylkjum þar sem fóstureyðingar voru algengari. Slíkt samband er þó einungis til staðar fyrir aldurshópana sem fæddust eftir að fóstureyðingar voru lögleiddar. Eldri árgangar sýna ekki slíkt samband milli mismunandi fylkja.

Af þáttunum fjórum sem Levitt telur að skýri fækkun glæpa virðist fjölgun fanga og lögleiðing fóstureyðinga hafa haft mest áhrif. Hvor þátturinn fyrir sig virðist hafa fækkað glæpum um u.þ.b. 10%.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.