Evrópuþingskosningar í Póllandi

Dagana 10.-13. júní verður kosið til Evrópuþingsins. Kosið verður í 25 löndum og þar af eru tíu ný aðildaríki ESB þar sem kosning mun fara fram í fyrsta skipti. Í pistli dagsins verður fjallað um kosningaslaginn í Póllandi og líklega fulltrúa Póllands á Evrópuþinginu.

Andrzej Lepper, formaður Sjálfsvarnar.

Það er nánast alveg sama hvar menn stíga niður fæti í hinum lýðræðislega heimi, alls staðar hafa kjósendur sömu umkvörtunarefni þegar kemur að kosningum: „Stjórnmálamenn eru allir eins.“ Já, alla vega held ég að margir léttbleikir íslenskir kratar mundu nú þakka fyrir það sem þeir hafa ef þeir stæðu frammi fyrir þeim valkostum sem pólskum kjósendum bjóðast í komandi Evrópuþingskosningum.

Ef marka má niðurstöður skoðanakannana seinustu vikna, og aðeins teknir þeir sem öruggir eru um að skríða yfir 5% sem þarf til að ná inn mönnum, þá stendur valið á milli:

a) Hægriflokks

b) Öfgasinnaðs hægriflokks

c) Mjög ofgasinnaðs hægriflokks

d) Öfgasinnaðs bændaflokks

Það er almenn regla að ríkisstjórnir í Mið- og Austur-Evrópu sitji aðeins í eitt kjörtímabil. Núverandi ríkisstjórn Lýðræðislega vinstribandalagsins hefur bókstaflega hrunið í fylgi og erfitt að segja hve lengi þeim takist að tolla og hvort nýi forsætisráðherrann, Marek Belka hljóti yfir höfuð náð fyrir augum þingsins. Vel má vera að það takist ekki og boða þurfi til kosninga strax næsta haust.

Eins og staðan væri ekki nógu slæm fyrir vinstrimenn þá hefur fyrrverandi þingforseti, Borowski nú klofið sig frá og stofnað sinn eigin flokk, Sósíaldemókrataflokk Póllands. Sá klofningur er þó ekki af mjög málefnalegum toga og tengist frekar þekktu orðatiltæki þar sem ákveðin nagdýr og skip koma við sögu.

Það gæti þó vel farið svo að flokkarnir skemmi hvor fyrir öðrum og detti hvorugir inn á Evrópuþingið. Pólland yrði þá í þeirri skrítnu stöðu að vera eina landið með engan þingmann í röðum PES, þingflokks sósíaldemókrata.

Helsti stjórnarandstöðuflokkurinn PO, eða Borgaravettvangur mælist nú með einna mest fylgi. Flokkurinn telst tiltölulega hefðbundin Kristilegur Demókrataflokkur en hefur þó færst mjög til hægri síðan hann var stofnaður. Sést það best á óvenjuharðri afstöðu formanns flokksins í málefnum fóstureyðinga og mjög óbilgjarnri afstöðu varðandi atkvæðavægi í ráðherraráði ESB. Þá mótmælti Kraká-deild flokksins nýlega réttindagöngu samkynhneigðra sem mörgum þykir á engan hátt í anda þeirra frjálslyndu hugsjóna sem stofnandi flokksins og gamall forsetaframbjóðandi, Andrzej Olechowski stendur fyrir. Enda er Olechowski orðinn lítt sýnilegur og hinn harðsnúni Jan Rokita kominn í forystusætið. PO er þó enn mjög Evrópusinnaður flokkur.

Hægra megin við PO liggur PiS, Lög og réttlæti, sem er nokkurs konar Repúblikanaflokkur Póllands sem leggur sérstaka áherslu á baráttu gegn glæpum. Honum er stýrt af þeim Kaczynski bræðrum, Jaroslaw og Lech. Þessir skrítnu tvíburar léku á unga aldri í kvikmynd sem hét „Um bræðuna tvo sem stálu tunglinu.“ Hefur þessi titill valdið pólitískum ferli þeirra meiri skaða en nokkuð annað. Lech Kaczynski er nú borgarstjóri Varsjár og hyggst væntanlega finna sér einhverja Giulliani-leið inn í landsmálin.

Enn lengra til hægri liggur LPR, pólska fjölskyldubandalagið, öfgasinnaður þjóðerniskaþólikkaflokkur. Roman Giertych er formaður hans, í fjarveru Maríu Guðsmóður, mætti maður halda. Flokkurinn er andvígur öllum fóstureyðingum, getnaðarvörnum, kynfræðslu í skólum, samkynhneigð og almennt hlutum sem tengjast samförum. Hann leggst mjög gegn erlendum fjárfestingum og er á móti aðild að Evrópusambandinu.

Furðulegasta fyrirbærið pólska stjórmálasviðinu er flokkur Andrzej Lepper, Samoobrona (Sjálfsvörn). Ímyndið ykkur að Framsóknarflokkurinn ætti sér greindarskertan, hrekkjóttan, yngri bróður. Í upphafi sótti flokkurinn fylgi sitt aðallega til frústreraðra bænda en hefur nú náð til frústreraðra einstaklinga í öðrum stéttum. Pólitík flokksins byggist á gjörningum á borð við þann að sturta korni inn á torg eða leiða svín inn í fundarsal. Flokkurinn mælist nú með hininhátt 30% fylgi sem lýsir á margan hátt óánægju með hefðbundnu stjórnmálaelítuna. Flokkurinn hefur er mjög Evrópuskeptískur þó hann hefur ekki mælt fyrir einhliða úrsögn úr sambandinu, aðeins að aðildarsamningarnir verði endurskoðaðir, sem að allra mati er algjörlega óraunhæf krafa.

Það er því ljóst að mörgum Pólverjum muni þykja erfitt að gera upp á milli frambjóðenda eftir tæpan mánuð. Til að mynda virðist algjörlega skorta frjálslyndan umbóta-hægriflokka eða vinstriflokk sem laus er við spillingarstimpil. Þetta, ásamt almennt dvínandi stjórnmálaáhuga og flóknu kosningakerfi mun líklegast valda því að kjörsókn verður með allra lægsta móti og fulltrúar Póllands á hinu nýja Evrópuþingi, ekkert allt of vandaðir.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.