Skipun dómara II

Margar hugmyndir hafa komið fram að undanförnu um hvernig best fari á að skipa dómara og tryggja sjálfstæði dómsvaldsins frá öðrum handhöfum opinbers valds.

Margar hugmyndir hafa komið fram að undanförnu um hvernig best fari á að skipa dómara og tryggja sjálfstæði dómsvaldsins frá öðrum handhöfum opinbers valds. Hefur til að mynda verið lagt til að Alþingi eða ríkisstjórn samþykki skipunina, nefnd sérfræðinga sjái um skipunina eða tilnefningu eða að umsögn Hæstaréttar verði bindandi fyrir ráðherra.

Hugmyndir um að Alþingi hefði hönd í bagga við skipun dómara virðast lítt til þess fallnar að styðja þau sjónarmið sem nefnd voru í gær um gegnsæja og óháða málsmeðferð og að hæfasti einstaklingurinn hlyti embættið. Ráðherra ber nú þegar ábyrgð gagnvart Alþingi vegna skipunar á dómurum. Það að meirihluti Alþingis þyrfti að samþykkja skipunina mundi í framkvæmd lítt breyta þeirri ábyrgð eða því ferli sem þegar er til staðar. Ef gerður yrði áskilnaður um samþykki aukins meirihluta Alþingis er hætt við að skipun dómara yrði hluti að pólitískum hrossakaupum stjórnmálaflokkanna sem yrði seint til þess fallið að hæfasti aðili yrði skipaður dómari. Enn síður mundi það flokkast undir gegnsæja málsmeðferð. Þau pólitísku hrossakaup sem einkenna oft störf Alþingis eru ekki líkleg leið til þess að sjónarmið um hæfni og verðleika, sem verða að ráða för við val á dómurum, verði ofaná.

Önnur hugsanleg lausn er að lögbinda álit Hæstaréttar á þann veg að dómsmálaráðherra hefði við síðustu skipun í embætti dómara verið bundinn af því að tilnefna annan hvorn þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegastan. Þó fallast megi á það að Hæstiréttur og dómsvaldið eigi að hafa eitthvað um það að segja hverjir veljast til dómarastarfa getur það vart talist eðlilegt að dómsvaldið væri einrátt um það hverjir verða dómarar. Dómsvaldið gæti þannig orðið ríki í ríkinu sem bæri enga ábyrgð gagnvart öðrum en sjálfu sér.

Til að tryggja að tilnefning og skipun dómara sé ekki um of háð einni grein ríkisvaldsins væri eðlilegast að allar þrjár stoðirnar kæmu saman að tilnefningu dómara ásamt öðrum óháðum aðilum. Þetta mætti t.d. gera með nefnd sem skipuð væri einstaklingum tilnefndum af Alþingi, Hæstarétti, Lögmannafélaginu, Dómarafélagi Íslands eða dómstólaráði og ráðherra. Slík nefnd gæti gegnt svipuðu hlutverki og Hæstiréttur gerir nú varðandi umsögn um skipun hæstaréttardómara, nema að ráðherra væri bundinn af tillögu nefndarinnar. Nefndinni væri þá frjálst að tilnefna, eftir atvikum, einn eða fleiri einstaklinga sem hún telur hæfasta. Þá myndi nefndin að einhverju leyti setja sér starfsreglur sjálf sem hlytu staðfestingu ráðherra en rammi utan um nefndina, skipun hennar og störf og þau sjónarmið sem byggja á á við tilnefningu dómara yrði að sjálfsögðu markaður í lögum.

Hvernig slík nefnd yrði síðan nákvæmlega skipuð er efni í miklar pælingar en grundvallarviðhorfið yrði að vera sjálfstæði nefndarinnar og að ein grein ríkisvaldsins hefði þar ekki vald umfram aðrar. Slík nefnd fellur vel að tilmælum Ráðherranefndar Evrópuráðsins, sem nefnd voru í gær. Í tilmælum Ráðherranefndarinnar segir m.a. að þar sem stjórnskipunin geri ráð fyrir að dómarar séu skipaðir af ríkisstjórn verði að vera trygging fyrir því að ferlið við skipunina sé gegnsætt og óháð og ákvarðanir ekki háðar öðru en hlutlægum sjónarmiðum um hæfni. Ein leið til að tryggja slíkt ferli sé að sérstök óháð stofnun veiti ríkisstjórn ráð sem hún fylgi í framkvæmd (sjá álit UA nr. 3882/2003, 3909/2003 og 3980/2003 bls. 18 og 20).

Þó Hæstiréttur sé æðsta stofnun dómsvaldsins og sá aðili sem mest ábyrgð hvílir á verður ekki framhjá því litið að nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við um sjálfstæði og traust héraðsdómstóla og hér hafa verið reifuð um Hæstarétt. Héraðsdómstólar eru grunnur dómskerfisins þar sem langflest mál eru leyst endanlega. Þá eru héraðsdómarar gjaldgengir sem hæstaréttardómarar og gjarnan skipaðir í Hæstarétt m.a. vegna starfa sinna í héraði. Núverandi vald framkvæmdarvaldsins við skipun héraðsdómara telst því vart ásættanlegt og eðlilegt að vald ofangreindrar nefndar næði einnig til tilnefningar þeirra.

Ef slíkri nefndi yrði falið vald til að tilnefna héraðsdómara yrði auk þess um að ræða mun virkari nefnd sem hefði tök á að fastmóta starfsreglur sínar og aðferðir við tilnefningar sem mundi koma sér vel þá sjaldan nefndin tæki til skoðunar tilnefningar í Hæstarétt.

Í kjölfar þeirra pólitísku deilna sem sprottið hafa um skipun dómara í Hæstarétt og tilmæla umboðsmanns Alþingis um endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi verður að telja fullt tilefni til að lagst verði yfir þessi mál.

Tilnefning og skipun dómara verður að vera gegnsæ og til þess fallin að treysta trú almennings á dómsvaldinu. Tilnefning og skipun í embætti dómara verður að vera hafin yfir pólitíska gagnrýni.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.