Afdrifarík þingstörf framundan

Á morgun mun forsætisráðherra mæla fyrir hinu umdeilda fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og eftir það er það í valdi og á ábyrgð þeirra sem kjörnir hafa verið til löggjafarstarfa að taka ákvarðanir um framtíð íslenskrar fjölmiðlunar. Óhætt er að fullyrða að framundan séu afdrifaríkir dagar á Alþingi.

Þingfundur á AlþingiÁ morgun mun forsætisráðherra mæla fyrir frumvarpi til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum, þ.e.a.s hinu umdeild fjölmiðlafrumvarpi. Eðlilega hefur mikil umræða átt sér stað um frumvarpið, skýrsluna sem liggur því til grundvallar og aðstæður og aðdraganda þess að frumvarpið er lagt fram.

Í ritstjórnarpistli sl. mánudag tók Deiglan einarða afstöðu gegn hugmyndum um að takmarka eignarhald fjölmiðla með þeim hætti sem til stendur að gera. Skömmu síðar lýsti Frjálshyggjufélagið yfir andstöðu við frumvarpið og Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna fylgdi í kjölfarið. Andstaða þessara þriggja aðila byggist auðvitað fyrst og fremst á því að frjáls markaður muni tryggja eðlilega skipan mála á fjölmiðlamarkaði.

Með og móti – hverju?

Í umræðum um þetta mál hefur nokkuð borið á því að málsmetandi menn segjast fylgjandi því að eignarhaldi á fjölmiðlum séu settar skorður og tilgreina ýmis rök fyrir því. Þeir eru hins vegar afar fáir sem lýst hafa yfir eindregnum stuðningi við að fyrirliggjandi frumvarp verði að lögum óbreytt.

Það má út af fyrir sig – umræðunnar vegna – fallast á þau sjónarmið að sérstakar reglur eigi að gilda um eignarhald á fjölmiðlum. Aðalatriðið hlýtur samt að vera hvers efnis þær reglur eru en ekki hvort reglur séu til staðar eða ekki. Þeir málsmetandi menn sem vísað er til hér að ofan hafa snúið umræðunni þannig að þetta mál snúist eingöngu um hvort setja eigi reglur eða ekki. Og þegar menn hugsanlega fallast á að reglur þurfi að setja, þá er látið eins og málið sé bara útrætt og andstaða við fyrirliggjandi frumvarp sé alls kostar ótæk afstaða.

Það sér það auðvitað hver maður að umræðan getur ekki farið fram á þessum nótum. Ég er til að mynda ekkert sérstaklega á móti því að í gildi séu almenn refsiákvæði, þótt ég sé algjörlega á móti því að dauðarefsing sé heimiluð. Eins kunna menn að geta fallist á að settar séu almennar reglur um eignarhald á fjölmiðlum, þótt þeir geti ekki undir nokkrum kringumstæðum hugsað sér að styðja fyrirliggjandi frumvarp.

Frelsi á fjölmiðlamarkaði

Mín grundvallarafstaða er auðvitað sú að frjáls markaður sé best til þess að fallinn að koma á réttlátri og eðlilegri skipan fjölmiðla hér á landi. Sú staða er auðvitað langt í frá uppi þegar fyrir er á markaði risastór aðili sem nýtur þess að geta innheimt nauðungargjald af öllum eigendum viðtækja, auk þess að taka til sín stóra sneið af auglýsingamarkaðnum. Þessi aðili starfrækir tvær útvarpsstöðvar, svæðisútvörp um allt land og eina sjónvarpstöð, auk þess sem hann starfrækir – í trássi við útvarpslög að margra mati – umfangsmikinn fréttavef á Netinu.

Við þetta þurfa einkaaðilar á markaði að keppa. Það er dapurlegt að eftir 13 ára stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins skuli samkeppnistaða einkaaðila gagnvart ríkisvaldinu á fjölmiðlamarkaði ekkert hafa skánað. Og það sem uggvænlegra er, að nú hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar, í samræmi við tillögur fjölmiðlanefndarinnar, látið að því liggja að mikilvægt sé að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði enn frekar, á sama tíma og til stendur að draga stórkostlega úr samkeppnistöðu einkaaðila á þessum markaði. Hvernig fær þetta staðist? Er nema von að sósíalistar í Vinstrigrænum fagni sérstaklega frumvarpi forsætisráðherra?

Vissulega er uppi staða í augnablikinu að samþjöppun hefur orðið í eignarhaldi einkarekinna fjölmiðla. En besta meðalið við þeim meinta krankleika hlýtur að vera að auka tækifæri á markaðnum. Það yrði best gert með því að draga saman rekstur Ríkisútvarpsins, selja Rás 2 og Sjónvarpið til að mynda. Þar með gætu myndast ákjósanlegar aðstæður á markaði fyrir fleiri að koma að fjölmiðlarekstri. Og ef menn hefðu viljað ná fram fjölbreytni í eignarhaldi, þá hefði það verið miklu raunhæfari kostur á slíkum markaði að setja reglur um hámarkseignaraðild, markaðshlutdeild og því um líkt.

Enn tækifæri til að rétta kúrsinn

Eins og fyrr segir verður fjölmiðlafrumvarpið lagt fram á morgun. Það er ljós í myrkrinu að til stendur að taka þann tíma sem þarf til að ræða málið í botn, ekki síst vegna þess að samhliða gefst stjórnarflokkunum ráðrúm til að samþykkja raunveruleg framfaramál, á borð við margumtalaðar skattalækkanir. Þau ummæli forsætisráðherra að til standi að taka þann tíma í fjölmiðlafrumvarpið sem þarf, benda til að frumvarpið gæti tekið breytingum í meðförum þingsins, og hefur formaður Framsóknarflokksins einnig gefið það í skyn.

Þótt ákjósanlegast væri að leggja frumvarpið einungis fram til umræðu og ríkisstjórnin myndi síðan endurskoða það í heild sinni, þá verður að teljast ósennilegt að svo verði, eða þá að frumvarpið verði dregið til baka. Það ríður því mikið á því að veigamiklar breytingar verði gerðar á frumvarpinu áður en það verður að lögum í sumar, eins og að virðist vera stefnt.

Breyta þarf ákvæðum frumvarpsins um að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki eiga svo mikið sem eina krónu í ljósvakamiðli, auk þess sem eðlilegt er að rýmka reglur um hámarkseign eins aðila í ljósvakamiðli. Að óbreyttu munu þessar reglur gera rekstur ljósvaka afar erfiðan, allt að því ómögulegan.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því alls engin eignatengsl séu heimil milli fjölmiðla í dagblaðaútgáfu og ljósvakafjölmiðla. Samkvæmt skýrslu fjölmiðlanefndarinnar er hvergi gengið svo langt í takmörkun á láréttum eignatengslum í þeim sjö löndum sem þar eru tekin til samanburðar. Lárétt eignatengsl eru einna helst takmörkuð í þeim löndum þar sem engum ríkisfjölmiðli er fyrir að fara. Þótt til greina geti komið að setja einhverjar takmarkanir á láréttum eignatengslum, eru engin rök fyrir því að útiloka þau algjörlega.

Þá væri æskilegt að setja í lög ákvæði um upplýst eignarhald að fjölmiðlum og ríka upplýsingaskyldu fjölmiðla um starfsemi þeirra. Slíkar reglur myndu styrkja verulega aðhald markaðarins, neytendanna, og koma að verulegu leyti í veg fyrir að hlutlæg staða fjölmiðils væri dregin í efa.

Framundan eru afdrifarík þingstörf. Verði óbreytt fjölmiðlafrumvarp að lögum mun það hafa stórkostleg áhrif til verri vegar á skilyrði einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Ég skora einkum á þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, flokk einkaframtaksins, að gera – úr því sem komið er – nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu, svo að þessi lagasetning muni ekki verða svartur blettur á mjög svo farsælli stjórnarforystu flokksins síðustu 13 ár.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.