Ferðir fellihýsanna

Þessa dagana eru margir að fara af stað og leita sér að fellihýsi eða skuldahala eins og gárungarnir kalla þau. Húsin eru vel útbúin en kosta eftir því. Hvenær skyldi borga sig að kaupa slík hús, frekar en að leigja þau?

Þessa dagana eru margir að fara af stað og leita sér að fellihýsi eða skuldahala eins og gárungarnir kalla þau. Þessi hýsi eru sannanlega eitthvað sem hægt er að kalla heimili á hjólum, með öllum útbúnaði sem venjulegur ferðamaður gæti hugsað sér í ferðalaginu. Þetta hefur hins vegar í för með sér að fellihýsin kosta töluvert. Eftirspurnin hefur verið gríðarleg og bárust fréttir af því að seinasta sumar hafi orðið að taka heim fellihýsi í flugi.

Eftir skoðun á netinu hjá fellihýsasölum virðast nokkuð margir eiga fellihýsin í 3 ár og endurnýja þá eftir það. Algengt verð á þriggja ára gömlum fellihýsum virðist vera í kringum 850 þúsund krónur. Ný fellihýsi virðast hins vegar kosta á bilinu 1 til 1,5 milljónir.

Tökum dæmi af fellihýsi sem kostar 1250 þúsund, sem er svona meðal fellihýsi, og miðum við að slíkt hýsi myndi seljast notað á um 850 þúsund. Ef tekið er tillit til vaxtakostnaðar hjá einhverjum af hinum mörgu fjármögnunarfyrirtækum sem bjóða lán til slíkra kaupa og miðað við 3 ára lán, myndi húsið á endanum kosta 550 þúsund fyrir viðkomandi (fjármagnskostnaður og afskriftir). Þá er eftir að taka tillit til annarra rekstrarþátta eins og trygginga, geymslu og annars slíks kostnaðar.

Í bænum eru nokkrar leigur. Smá könnun leiddi í ljós að þar kostar leiga á fellihýsi í eina viku um 30 þúsund krónur. Auk þess leigja verkalýsfélög fellihýsi oftast á lægra verði. Eftirspurn er alltaf mikil og hefur farið vaxandi undanfarið. Panta þarf með þó nokkrum fyrirvara. Því er nauðsynlegt að skipulegja fríið með nokkrum fyrirvara.

Auðvitað er ferð í leigðu fellihýsi ekki fyllilega sambærilegt við ferð í eigin fellihýsi. Aðilar standa oft margir að kaupum á fellihýsum, eiga hýsin lengur, kaupa ódýrari eða notuð eða gera annað sem getur lækkað kostnaðinn. Það getur breytt samanburðinum. Jafnframt vill fólk oft ferðast í eigin fellihýsi og geta treyst því að það sé í boði þegar það vill, tilbúið með öllum búnaði og þau uppfylli þær væntingar sem fólk setur.

Aðalatriði er að fólk meti alla kosti, fyrir þá sem hafa áhuga á að ferðast um landið með “ferðahótel”, gæti leiga verið góður kostur. Jafnframt er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim kostnaði sem er fólginn í að eiga fellihýsi áður en fjárfest er. Fólk þarf alla vega að vera tilbúið að ferðast töluvert því miðað við þessa athugun væri ódýrara að leigja fellihýsi í 18 vikur á þessum þremur árum en að kaupa.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.