Þjóðarblómið gleym-mér-ei

sdfdÍ helgarnestinu er leitað svara við þeirri spurningu hvort að þjóðarblómið sé tekið að visna.

Gleym-mér-ei (Myosotis arvensis) er miðlungi stór jurt og harðgerð, víðast algeng á láglendi, en vantar þó á nokkru svæði á Norðausturlandi, og á Hornströndum. Hún hefur krókhár á bikarblöðunum, og loðir því föst við.

Það er sumar í lofti og grasið grær. Stjórnarþingmenn eru í óða önn við að undirbúa sig undir tæplega 5 mánaða sumarfrí. Stefnan er tekin á sumarbústaðinn á ríkisjörðinni Þingvöllum, fjarri þessum leiðindaskarkala, og þeir bíða þess spenntir að geta átt þar rólegt og tiltölulega Baugstíðindalaust sumarfrí. Sólarolíu og Mogganum er pakkað niður í handtösku — en hugsjónin skilin eftir heima. Flestir þingmenn ætla þó að setja sér metnaðarfull markmið fyrir næsta þing, ætla sko að vaxa í starfi og blómstra þegar þeir koma saman á nýjan leik.

Nokkrir þeirra blómstruðu þó ári of snemma og það í furðulegum litum. Þegar laukunum að gleim-mér-ei var sáð fyrir 13 árum stóð á pakkningunni að þeir myndu dafna vel og styðja frelsi til athafna og tjáningar. Þetta rokseldist, maður!

Framanaf gekk þetta eins og í sögu og heilu engin urðu fagurblá og vinstra vor varð fljótt að hausti og loks að fimbulkuldum vetri. Og ekkert smá þægilegt — bara rétt að vökva á fjögurra ára fresti!

Sannkallað Þjóðarblóm.

Glitrós (Rósa dumalis) er afar sjaldgæf, aðeins fundin í Kvískerjum í Öræfum. Hún vex í kjarrbrekku á dálitlum bletti og er friðuð samkvæmt náttúruverndarlögum. Þjóðarblóm?

En svo fóru fleiri að vaxa í allskonar litum og þá fyrst byrjaði baslið. Sumir uxu of hratt, fóru að skyggja á aðra og keyptu rangar eignir sem fóru að ógna þeim sem fyrir voru. Í stað þess að lifa í sátt og samlyndi fór allt í kaldakol og alls konar nýjar og stórskrýtnar reglur voru settar.

Hamagangur síðustu mánaða hefir verið með ólíkindum og menn hljóta að fatta að það er maðkur í mysunni þegar Kristinn H. Gunnarsson er orðinn útvörður viðskiptafrelsis á Íslandi. Er allt orðið gjörsamlega spinnegal hérna — hvað næst? Jóhanna Sigurðardóttir dæmd fyrir innherjaviðskipti á NASDAQ?

Gullna reglan er þessi: Þegar einhver er að pirra þig, þá pirrar maður hann jafnmikið á móti. Ef einhver hellir yfir þig vatnsglasi, þá kastarðu í hann vatnsblöðru. Það er hins vegar svínslegt og algerlega gegn öllum hugsjónum að kalla út slökkvilið Stór-Reykjavíkursvæðisins og láta þá buna á hann af fullum krafti, þar til hann hrökklast úr landi. Bara af því þú getur það. Fyrir utan það að vera algerlega glatað þá fílar fólk almennt ekki svoleiðis yfirgang.

Stjórnarþingmenn hafa hæpinn málstað að verja og þau rök halda varla vatni að verið sé að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það sjá allir sem sjá vilja: Ef þú átt tvö blóm, þá eykurðu ekki fjölbreytnina með því að slíta annað upp með rótum! Menn geta enn og hreinlega verða að ná áttum og draga í land. Það er einfaldlega of mikið í húfi.

Ungi og frjálslyndi armur þingflokksins var að vanda í fatla og samþykkti tillöguna „Gleym-mér-ei“ möglunarlaust þrátt fyrir að þeir hafi margir hverjir barist fyrir lögleiðingu mun sterkari plöntu innan ungliðahreyfingarinnar.

Bláir fingur?

Það er nefnilega ekki nóg að vera alltaf geðveikislega frjálslyndur á kantinum og skýla sér að bak við það að hafa lagt fram speisuð og frjálslynd hobbý-frumvörp — en beygja sig síðan og bugta þegar alvörumálin eru til umræðu.

En hvað sem öðru líður munu hlutabréf Icelandair hríðfalla í verði, enda fullljóst að markaðsherferð fyrirtækisins um lausgirtar íslenskar stúlkur er unnin fyrir gýg — því framvegis munu íslenskar stúlkur svo sannarlega passa betur upp á blómið sitt!

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)