Ógöngur

Fyrir nokkrum dögum var í ónefndum útvarpsþætti viðtal við einn af forvígismönnum félagsskapar sem kallast Ægisdyr. Ægisdyr eru áhugafélag um langlengstu bifreiðagöng neðarsjávar í víðri veröld, það er að segja, göng milli lands og Eyja.

Fyrir nokkrum dögum var í ónefndum útvarpsþætti viðtal við einn af forvígismönnum félagsskapar sem kallast Ægisdyr. Ægisdyr eru áhugafélag um langlengstu bifreiðagöng neðarsjávar í víðri veröld, það er að segja, göng milli lands og Eyja. Þáttastjórnandinn lét sér ekki nægja að spyrja manninn hvort þeim væri fúlasta alvara með þessari hugmynd heldur lét segja sér það þrisvar. Og kvaddi forvígismanninn svo með orðunum „ég heyri að ykkur er alvara með þetta“ og ég er ekki frá því að örlað hafi á leiða í röddinni. Já, það er kannski ástæða til að vera leiður ef öflugur félagsskapur manna hefur það að markmiði að þessi göng verði grafin því einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að hin meinta þjóðhagslega hagkvæmni sé aukaatriði í þeirra augum. Göngin skulu grafin hvað sem það kostar og hvað sem allri óhagkvæmni líður.

En það var fleira í máli þessa ágæta manns sem vakti athygli. Þegar rætt var um forsendur fyrir útreikningunum á ávinningi framkvæmdarinnar sagði hann meðal annars að Herjólfur væri kominn á tíma og að brátt þyrfti að huga að kaupum á nýjum. Rekstrarkostnaður á nýjum Herjólfi yrði væntanlega töluvert hærri en á núverandi skipi og því ætti að notast við hærri tölur en núverandi rekstrarkostnaður gefur til kynna þegar reiknaður er ávinningur af framkvæmdinni. Af hverju í ósköpunum er eðlilegt að gera ráð fyrir að rekstrarkostnaður á nýju skipi sé töluvert hærri en á því gamla. Er ekki einmitt hugmyndin með endurnýjun að halda í við rekstrarkostnað? Eða getur verið að þetta sé hentug aðferð til að skrúfa upp hinn meinta þjóðhagslega ávinning af framkvæmdinni?

Hagfræðistofnun Háskólans hefur unnið skýrslu um þjóðhagslega (ó)hagkvæmni gangnanna og kemst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdakostnaðurinn megi verða allt að 25,6 milljarðar án þess að þau verði þjóðhagslega óhagkvæm.

Sem sagt, miðað við 25,6 milljarða kostnað er þjóðhagslegur ávinningur enginn. Nú hafa Verktaka- og ráðgjafafyrirtækið Mott MacDonald og Línuhönnun komist að því að miðað við ódýrustu leiðina við að grafa slík göng sé kostnaðurinn hins vegar 32 milljarðar og skyldi maður því ætla að málið sé út af borðinu. En því er ekki að heilsa því að eins og kemur fram á www.ruv.is var samþykkt á fundi Ægisdyra að „skora á samgönguráðherra, samgöngunefnd, Alþingi og þingmenn Suðurkjördæmis að tryggja nægjanlegt fjármagn til jarðfræðirannsókna þeirra sem nauðsynlegar eru vegna fyrirhugaðra jarðganga milli lands og Eyja.“ Göngin eru sem sagt fyrirhuguð í þeirra huga…

Latest posts by Óskar Hafnfjörð Auðunsson (see all)