Dyggðin að samgleðjast

Það er góður siður að samgleðjast öðrum. Sú breytni að samgleðjast á auðvitað rætur í kristinni trú en hún er þó ekki síður grundvallarþáttur í pólitískri hugmyndafræði.

Það er rík ástæða til að gleðjast yfir sumarkomunni.

Það er góður siður að samgleðjast öðrum. Nú þegar nýtt sumar heilsar með sínu bíðasta móti, er rík ástæða til að gleðjast. Það er gott að geta glaðst en það er dyggð að geta samglaðst. Sú breytni að samgleðjast á auðvitað rætur í kristinni trú en hún er þó ekki síður mörkuð af pólitískri hugmyndafræði. Til eru þeir sem álíta að velgengni og hrakningar vegist ætíð á, að enginn getið notið velgengni nema á kostnað annars.

Boðorðin tíu eru skýr vitnisburður um dyggðina að samgleðjast, að elska náungan eins og sjálfan sig og að gjöra einungis öðrum það sem maður vill þeir gjöri sér. Okkar mannlegi breyskleiki veldur því að oft finnst okkur erfitt að samgleðjast – en í því felst einmitt dyggðin. Það er auðvelt að gleðjast, allt að því nautnafullt. Menn geta jafnvel fundið fyrir nautn þegar þeir gleðjast yfir óförum annarra – og jafnvel lagt lykkju á leið sína til að upplifa þá nautn.

Sú dyggð að geta samglaðst öðrum kristallast einnig í pólitískri hugmyndafræði. Kennisetningar og heilu hugmyndakerfin hafa verið grundvölluð á þeirri hugsun að engum getið vegna vel nema á kostnað annars. Í frjálshyggjunni felst hið gagnstæða. Þegar einstaklingurinn hefur frelsi til orðs og æðis, þá nýtur hver og einn sín best, og þar með farnast heildinni best.

En til að þetta sé mögulegt þurfa menn að búa yfir þeirri dyggð að geta glaðst yfir velgengni annarra, að samgleðjast þeim sem vegnar vel. Ef velgengni eins veldur öðrum ógleði, er hætt við því að hinum síðarnefnda verði meira í mun að hindra framgang þess fyrrnefnda í stað þess að vinna harðar að sinni eigin velgengni.

Sannir frjálshyggjumenn hljóta því jafnan að gleðjast yfir velgengni annarra, af því að þeir vita að þegar einstaklingarnir fá svigrúm til að njóta sín, þá farnast heildinni best.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.