Maður er nefnd

Skandínavar eru nefndaglaðir með eindæmum. Flest okkar hafa eflaust eytt mörgum, mörgum tímum í að sitja á fundum um allt og ekki neitt. Er ekki til nein skilvirkari til að taka ákvarðanir? Eða er nefndagleðin sjálfsþröngvuð aðferð Norðurlandabúa til að eiga samskipti við fólk utan fjölskyldunnar?

Árangurinn lætur ekki á sér standa!

Víða um lönd er skriffinskan mikil og stjórnkerfið óskilvirkt og hægfara. Víða um lönd eru starfandi milljónir nefnda sem gera ekkert annað en að kjósa ritara og samþykkja fundargerðir seinustu funda, milli þess sem þær svífa um í stjórnskipulegu þyngdarleysi. En á fáum stöðum í heiminum og á Norðurlöndum er nefndavæðingin jafnlímd við samfélagsmynstrið, frá vöggu til grafar.

Ég veit ekki hvaða Svíi fékk eiginlega þá hugmynd að besta leiðin til að virkja atorku nokkurra einstaklinga væri að láta þá búa til ferning úr fjórum skólaborðum og deila kynórum sínum um viðfangsefnið. Flestir sem þetta lesa hafa eflaust eitt mörgum klukkustundum ævi sinnar í hvers kyns nefndarstörf. Og ef reynsla þeirra er álíka og mín þá hefðu þeir eflaust viljað hafa ráðstafað helmingi þess tíma í annað.

Maður einfaldlega skilur ekki hvers vegna skipa, eða kjósa, þurfi fjölskipaðar nefndir til að sinna verkefnum sem krefjast aflögukorters eins einstaklings með farsíma. Kaupa þarf kaffivél, þriggja manna nefnd. Svara þarf sendibréfi, þriggja manna nefnd. Halda þarf málfund, 5 manna nefnd. Gefa út auglýsingabækling, 7 manna nefnd.

Til að halda árshátíð í miðlungsframhaldsskóla dugir ekkert annað en 9 manna árshátíðarnefnd, sem er 5 manna skemmtinefnd til aðstoðar. Báðar nefndirnar eru vitanlega undir handleiðslu 5 manna skólafélagasstjórnar. „Ég sé um vöfflurnar, hver ætlar að redda rjómanum?“

Og stofnun nefndar er álitinn árangur í sjálfu sér. Ef ráðherra hefur áhuga á stækkun hafnar stofnar hann hafnastækkunarnefnd sem „fer vel yfir málið“. Til að sinna fjölskyldumálum Stúdenta af fullri alvöru gengur ekkert annað en fullburða Fjölskyldunefnd, enda Hagsmunanefnd upptekin við störf að öðrum fjarskyldum málum. Til að athuga stöðu ungra samkynhneigðra kvenkyns nýbúa af norrænum uppruna stofna menn nefnd. „Segið svo að ég láti málið mig ekkert varða. Ég stofnaði nefnd. Feis!“

Vitanlega eru ekki allar nefndir gagnslausar. En nefndarstörf kosta, hvort sem um er að ræða beinharða peninga eða tíma nefndarmanna, þá er í mörgum tilfellum um að ræða auðlindir sem betur mætti verja í annað.

Minnsta sveitarfélag landsins er Mjóafjarðahreppur. Þar búa samkvæmt Hagstofu Íslands 36 íbúar. Þar af eru 27 yfir 18 ára aldri. Á heimasíðu Sambands Íslenskra Sveitarfélaga má sjá lista yfir nefndir og fulltrúa á vegum hreppsins en hann starfrækir hvorki meira né minna en 8 þriggja manna nefndir til heiðurs hinum ýmsu málaflokkum (brunamál, hafnarmál, umhverfismál o.fl.).

Innan þeirra nefnda starfa 19 einstaklingar svo að við erum að tala um að einhverjir 8 aðilar í hreppnum eru að hlaupast undan lýðræðislegri nefndarskyldu sinni. En hugsanlega er um að ræða ósjálfbjarga ómaga sem félagsmálanefnd hreppsins sinnir sinnir af alúð.

Nefndarstörf eru reyndar oft afsökun fyrir fólk til að hittast, sem er í sjálfu sér jákvætt. Í mörgum tilfellum er meiri tíma varið í að skiptast á frásögnum um veðrið eða kjaftasögum um fjarstadda nefndarmenn. En þá spyr maður sig hvort ekki væri heppilegra að fólk hittist einfaldlega á bar, keypti sér bjór, og bullaði frá sér kvöldinu í afslöppuðu andrúmslofti. Þurfa menn virkilega einhverja afsökun til að kynnast nýju fólki?

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.