Þurrt vatn

Þurrt vatn..eða því sem næst, er nokkuð sem kalla mætti sögu til næsta bæjar. Nú er kominn á markað vökvi sem er nægilega blautur til að slökkva elda en í senn nógu þurr til að valda ekki skemmdum, t.d. á raftækjum.

Eldvarnakerfi eins og þau sem sprauta vatni um tiltekið rými úr þartilgerðum úðurum þegar þau fara í gang og tíðkast víða á heimilum, skrifstofum, búðum, söfnum o.s.frv., hafa í gegnum tíðina sjálfsagt oft valdið leiðri aðkomu að alvotum vettvangi. Þó að auðvitað sé það fýsilegri kostur en að allt hafi orðið eldi að bráð, þá getur vatnsbaðið haft heldur bagalegar afleiðingar og ollið miklum skaða og skemmdum, t.d á innbúi hvers kyns, svo ekki sé minnst á rafmagnstæki. Ímyndum okkur t.d ástandið í tölvuveri eða bókasafni við slíkar aðstæður.

Þessi mögulegu vatnsskemmdavandamál hafa kallað á úrlausnir, og í dag hefur efnafræðilegt hugvit leitt vísindamenn á þann stað, að í stað vatns er nú hægt að nota vökva sem er m.a þeim einstaka hæfileika gæddur að vera ,þurr’ .

Nýtt eldvarnarkerfi, sem nefnist Sapphire var nýlega kynnt og hefur nú verið sett á markað í Bandaríkjunum. Kerfið er eðli málsins samkvæmt byggt á reykskynjara sem að við skynjun setur í gang kerfi úðara sem að sprauta þá tiltekið rými með vökva sem nefndur hefur verið Novec 1230.

Vökvinn hefur veik tengi innbyrðis, og gufar upp við aðeins 49 °C hita, sem er aðeins helmingur af gufumarki vatns. Hann kemur þannig í veg fyrir útbreiðslu elds með því að taka upp hita frá loganum og gufar auðveldar upp en vatn. Um leið krefst gufunarferli Novec 1230 tuttugu og fimm sinnum minni orku heldur en gufun vatns. Novec 1230 leiðir þar að auki ekki straum, ólíkt vatni, og þess vegna veldur vökvinn því ekki að raftæki eyðileggjist þegar þau ٫blotna’ í vökvanum.

Eldvarnarvökvinn nýji er umhverfisvænn og stafar osonlaginu ekki hætta af honum, ólíkt þeim vökvum sem hingað til hafa verið notaðir í þessu skyni, svonefndum halonum. Novec 1230 lítur út og er eins og vatn, er nógu blautur til að slökkva elda, en á sama tíma nógu þurr til að valda ekki skemmdum. Draumur sérhvers manns…sem lendir í eldsvoða.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.