Einkarekinn her

Í kjölfar morða á starfsmönnum bandarísks

öryggisfyrirtækis í Falluja í Írak í síðustu viku hefur kastljósið beinst að einkareknum her- eða öryggisfyrirtækjum sem eru annað eða þriðja stærsta „heraflið“ í Írak í dag með um 10 – 11 þúsund starfsmenn eða svipaðan fjölda og breski herinn.

Í kjölfar morða á starfsmönnum bandarísks öryggisfyrirtækis í Falluja í Írak í síðustu viku hefur kastljósið beinst að einkareknum her- eða öryggisfyrirtækjum sem eru annað eða þriðja stærsta „heraflið“ í Írak í dag með um 10 – 11 þúsund starfsmenn eða svipaðan fjölda og breski herinn.

Einkarekin fyrirtæki sem bjóða upp á her-, varnar- og öryggisþjónustu hafa vaxið mjög ört undanfarin ár. Á ensku kallast þessi fyrirtæki PMC (Private Military Companies eða Private Security Companies) og veita þau mörgum ríkisstjórnum, alþjóðlegum fyrirtækjum og stofnunum þjónustu sína. Sem dæmi um verkefni sem þessi fyrirtæki sinna eru þjálfun lögregluliðs í Írak, öryggisgæsla fyrir Paul Bremer og uppbygging á her í Bosníu. Starfsmennirnir eru flestir vel þjálfaðir hermenn og er staðan jafnvel orðin slík hjá breskum og bandarískum sérsveitum að sveitirnar eru sagðar æfingabúðir fyrir verðandi starfsmenn einkarekinna her- og öryggisfyrirtækja.

Nokkrir af helstu kostum þessara fyrirtæka eru að þau geta veitt herjum mikilvæga stoðþjónustu s.s. flutning, eftirlit, útbúnað og tækniþjónustu. Bandarísk og bresk stjórnvöld ráða þau gjarnan til að sinna verkum sem annars hefði þurft að senda hermenn í og geta þannig einbeitt sér að því að nota herlið sitt þar sem þess er frekar þörf. Þá getur verið hentugt pólitískt séð að nota þessi fyrirtæki í hættulegum verkefnum því mannfall í þeirra röðum kemur ekki við þjóðarsálina líkt og mannfall hermanna, auk þess að vera lítið til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Eitt helsta vandamálið við einkarekin her- og öryggisfyrirtæki er hugmyndafræðin sem býr að baki þeim. Þetta sést greinilega þegar reynir á ábyrgð á störfum þeirra og hvernig megi koma lögum yfir þau eða starfsmenn þeirra. Í eðli sínu er það nefnilega ekki hlutverk þeirra að vinna að stefnu Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins eða vestrænna ríkja heldur vinna þau fyrir pening. Fyrirtækin setja sér sjálf starfs- og siðareglur sem þau auglýsa svo að þau vinni eftir.

Starfsmenn þessara fyrirtækja eru vel þjálfaðir, vel vopnum búnir og starfa langmest í stríðshrjáðum og vanþróuðum löndum þar sem opinbert eftirlit eða lög eru mjög takmörkuð. Þau taka sér því oft vald sem eðli máls samkvæmt ætti að vera hjá lögreglu eða her og ganga jafnvel töluvert lengra en svo, eins og oft gerist í stríðshrjáðum löndum. Starfsmenn svona fyrirtækis voru til að mynda þátttakendur kynlífsþrælkun kvenna og barna í Bosníu. Þegar slíkt gerist í her þurfa menn almennt að svara til saka innan hersins en engu slíku er að skipta hjá einkafyrirtækjum og starfsmönnum þeirra. Lög og eftirlit viðkomandi lands nær eðli málsins samkvæmt mjög skammt og lítið hægt að gera.

Það er óneitanlega undarlegt að vita til þess að vestræn einkafyrirtæki veita í auknum mæli þjónustu sem lengst af hefur verið í höndum hers og lögreglu. Það hlýtur að vera forsenda þess að þessi fyrirtæki geti starfað áfram í umboði vestrænna ríkja og alþjóðastofnana að hægt verði að koma yfir þau lögum og reglu og draga bæði fyrirtækin, starfsmennina og þá sem réðu fyrirtækið í verkið til ábyrgðar þegar menn fara yfir strikið.

Heimildir: The Economist, Global Policy Forum og BBC.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.