Þróun lýðræðisins

Umræður um svokallað „beint lýðræði” eða „milliliðalaust lýðræði” hafa verið nokkuð í umræðunni á undanförnum misserum. Við fyrstu sýn er hér um hið besta mál að ræða, að allur almenningur geti aukið áhrif sín með beinum hætti, en er allt sem sýnist í þessum efnum?

Fara þarf varlega við þegar lýðræðið sjálft á í hlut

Umræður um svokallað „beint lýðræði” eða „milliliðalaust lýðræði” hafa verið nokkuð í umræðunni á undanförnum misserum. Við fyrstu sýn er hér um hið besta mál að ræða, að allur almenningur geti aukið áhrif sín með beinum hætti, en er allt sem sýnist í þessum efnum? Margir gagnrýnendur vilja til að mynda meina að slíkt fyrirkomulag geti snúist upp í hálfgert skrílræði þar sem sterkir hagsmunahópar munu ráða enn meiru en þeir gera í dag við núverandi kerfi.

Vestrænt fulltrúarlýðræði tók að skjóta rótum sínum á 19. öld og hafa sífellt fleiri notið þess eftir því sem liðið hefur á 20. öldina. Það er kannski ekki óeðlilegt að þeir sem lengst hafa búið við fulltrúalýðræði séu með hugann við enn frekari þróun lýðræðisins og telja sumir jafnvel að það hafi runnið sitt skeið og horfa til milliliðalaus lýðræðis. Helstu gallar fulltrúalýðræðisins eru í raun þeir að útbreiðsla þess er ekki nægjanleg.

Fremstir í flokki þeirra sem talað hafa fyrir þessum málstað eru nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar og ritstjórn Morgunblaðsins. Í febrúar síðastliðnum lögðu þessir þingmenn Samfylkingarinnar fram þingsályktunartillögu um milliliðalaust lýðræði. Í greinagerð með með tillögunni segir m.a.;

Nú hefur þorri almennings aðstæður og upplýsingar til að taka sjálfur stærri ákvarðanir um hagi sína og líf.

Hér er á ferðinni ein af helstu röksemdum þeirra sem aðhyllast beint lýðræði, þ.e.a.s. að fólk hafi almennt aðgang að nánast sömu upplýsingum og kjörnir fulltrúar fólksins og geti því auðveldlega tekið ákvarðanir til jafns við þá.

Í pistlisem undirritaður skrifaði í febrúar á síðasta ári er bent á veikleika þessarar röksemdar en þar segir:

Almannavalsfræðin benda þó á einn augljósan veikleika við þessa röksemd sem er sá að einstakir kjósendur vita að niðurstaða kosninga veltur yfirleitt ekki á einu atkvæði og því hafa þeir lítinn hvata til þess að afla sér upplýsinga (fórnakostnaður of hár) um málefni til þess að geta framkvæmt upplýst val. Þetta er kölluð “skynsamleg vanþekking”, þ.e.a.s. kjósandinn bregst skynsamlega við hagrænum hvötum. Annar alvarlegur veikleiki er sá að rannsóknir hafa sýnt fram á það að fátækara fólk tekur síður þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum og hlýtur það að skekkja niðurstöðuna verulega.

Annað atriði sem veikir fyrr greinda röksemdarfærslu er sá að sárafá mál eru nægjanlega einföld og afdráttarlaus, svo að hægt sé með einhverjum skynsamlegum hætti að setja fram skýra valkosti í almennri atkvæðagreiðslu. Allt regluverk samfélagsins hangir saman og einstaka breytingar geta haft víðtæk áhrif, langt út fyrir það sem eðlilegt væri að ætlast til að allur almenningur hefði yfirsýn yfir. Þar koma fulltrúar kjósenda til sögunnar, fólk sem er gagngert kjörið til þess að afla sér slíkrar yfirsýnar og beita henni í samræmi við fyrirheit sem það gefur í kosningum.

Hugmyndir um milliliðalaust lýðræði eru ekki slæmar og koma vel til greina til þess að fá niðurstöður í veigamiklum málum sem geta haft grundvallar breytingar á allt samfélagið, t.d. innganga í Evrópusambandið. Þessi aðferð má einnig notast við í málum sem standa almenningi nær, eins og sveitarstjórnar- og skipulagsmál.

En þó svo að þessum aðferðum yrði aðeins beitt í fyrrgreindum málum þá ætti það að vera áhyggjuefni hversu lítil þátttaka er oft í slíkum kosningum. Ástæður þess geta verið nokkrar, t.d. of tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur eins og í Sviss eða þjóðfélagslegar, en eins og að framan er nefnt þá benda rannsóknir til þess að fátækt fólk taki síður þátt í þjóðaratkvæðargreiðslum. Einnig má benda á að kosning um framtíð Reykjavíkurflugvöll sem mistókst algerlega þar sem þátttaka var ekki nema rétt um 37%.

Það er ekki nóg fyrir þá sem beita sér fyrir milliliðalausu lýðræði að benda á það að fólk sem ekki kjósi nenni því ekki og geti þar með sjálfum sér um kennt ef hagsmunir þess skerðist. Ef kenningar almannavalsfræðinar eru réttar, að það sé almenningi eðlislægt að beitta “skynsamlegri vanþekkingu”, þá er líklegt að hinn almenni kjósandi geri sér ekki alltaf grein fyrir því að hvenær hagsmunir hans eru í húfi. Það getur því verið að milliliðalaust lýðræði beinlínis vinni gegn hagsmunum almennings.

Nú ætlar pistlahöfundur ekki að mæla á móti þeirri viðleitni fólks, að bæta það sem gott er. En ljóst er að menn þurfa að stíga varlega til jarðar þegar höndlað er með fjöregg Vestrænnar menningar, lýðræðið sjálft.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.