Næsti áfangi tímabær

Mönnum verður um þessar mundir tíðrætt um yfirvofandi niðursveiflu í efnahagslífi Íslendinga. Einkennist það tal af einhvers konar dómsdagshræðslu, að fyrr en seinna muni landsmönnum hegnast fyrir efnahagslega syndugt líferni.

Mönnum verður um þessar mundir tíðrætt um yfirvofandi niðursveiflu í efnahagslífi Íslendinga. Einkennist það tal af einhvers konar dómsdagshræðslu, að fyrr en seinna muni landsmönnum hegnast fyrir efnahagslega syndugt líferni. Einnig ber umræðan keim af ákveðnum óumflýjanleika – að óhjákvæmilegt sé að niðursveiflan verði og að hún verði veruleg. Á sama hátt og bjartsýni eflir mönnum dáð og dug, er slíkt vesældartal til þess fallið, að draga þrótt úr efnahagslífinu. Varkárni er eitt en dugleysi er allt annað.

Það hagvaxtarskeið, sem bölsýnismenn telja nú brátt að baki, grundvallaðist á ýmsum þáttum. Helst ber að nefna aukið frjálsræði í efnhagslífinu, lækkun skatta á fyrirtæki, stöðugleika á vinnumarkaði, einkavæðingu og nýjum og vaxandi atvinnugreinum. Ekki hafa verið fyrir hendi neinar sérstakar ytri aðstæður undanfarin áratug sem skýrt geta efnahagsuppsveifluna. Það er því ekkert náttúrulögmál að niðursveifla verði, eins og oftar en ekki varð raunin þegar efnahagslífið grundvallaðist hreinlega á hverju tonni af fiski sem dregið var úr sjó.

Ef við lítum á þá möguleika sem fyrir hendi eru á næstu misserum, þarf enginn að leggjast í volæði og eymd, eins og að framan er lýst. Ekki einungis er líklegt að uppgangurinn haldi áfram, heldur hafa skapast aðstæður hér á landi til að tryggja til langframa efnahagslega velsæld á við það besta í heiminum. Stórt skref í þá átt væri að lækka verulega eða fella niður skatta á fyrirtæki og fjármagn og laða hingað til lands erlend fyrirtæki og fjármagn í ríkari mæli en nágrannaþjóðum okkar er mögulegt. Aðstæðurnar eru sannarlega fyrir hendi og ekkert því til fyrirstöðu að hrinda næsta áfanga þessa velmegunarskeiðs í framkvæmd.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.