Úr verkfalli í jólafrí?

Svo gæti farið að samningar í kennaradeilunni takist á næstu dögum og kennarar geti því náðarsamlegast snúið til vinnu á ný, beint inn í tveggja vikna jólafrí.

Svo gæti farið að samningar í kennaradeilunni takist á næstu dögum og kennarar geti því náðarsamlegast snúið til vinnu á ný, beint inn í tveggja vikna jólafrí. Kjaradeila framhaldsskólakennara við ríkið nú hefur leitt margt forvitnilegt í ljós. Heldur t.d. einhver því lengur fram, að kennarar búi við kröpp kjör, að þeir séu láglaunahópur? Auðvitað ekki. Þegar ekki er hægt að taka tilboði um 263 þúsund króna byrjunarlaun á mánuði, þar sem með því sé ekki komið til móts við kröfur kennara, er ljóst að laun þeirra hafa verið miklu hærri en „sönnunargögn“ kennara bentu til.

Launþegar geta margt af kennurum lært um hvernig heyja eigi kjarabaráttu. Hvaða önnur starfsstétt gæti verði búin að koma því inn í kjarasamning að hún skuli njóta þess sem kallað er kennsluafsláttur? Hvað er eiginlega kennsluafsláttur? Er það ekki bara samkomulag um að vinna ekki tilskilinn tímafjölda? Og það má auðvitað ekki afnema þennan afslátt, af því að þá yrðu kennarar væntanlega að búa við sama harðræði og aðrir launþegar – að skila þeirri vinnu sem ráðningarsamningur þeirra kveður á um. Þess vegna kom auðvitað ekki til greina hjá kennurum þegar Verslunarskólinn setti fram ofangreint tilboð, að gefa eftir þennan afslátt. Hann er nefnilega hluti af kjörum kennara – en eins og margt annað var hann aldrei tekinn með í reikninginn þegar kennarar biðluðu til almennings um samúð vegna bágra launakjara.

DEIGLAN hefur áður bent á að ýmsar starfsstéttir njóta mun lakari kjara en kennarar en eru samt sem áður mun eftirsóttari. Þannig er því t.a.m. farið um blaðamenn. Byrjunarlaun blaðamanna eru nú rétt rúmlega hundrað þúsund krónur á mánuði. En er einhver skortur á blaðamönnnum? Er einhver skortur á lögfræðingum sem eru með undir hundrað þúsund krónum á mánuði í byrjunarlaun sem fulltrúar? Nei, og af hverju skyldi það vera? Getur það verið vegna þess að í þessum geira sér fólk fram á að vinna sig smám saman til metorða – að verða mun verðmætari starfskraftur vegna sinna eigin verðleika. Á meðan forystumenn kennara eru andsnúnir því að gera kennarastarfið að áskorun fyrir metnaðarfullt fólk, er ekki hægt að búast við því að starfið verði eftirsótt – og þar skiptir ekki öllu máli hvaða launataxta menn eru á, eins og hér hefur verið sýnt fram á.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.