Gervi um næstu jól

Næst kaupum við gervi, það er skömm að því að vera að fella blessuð trén, sagði konan. Já, það er kannski rétt, sagði karlinn og klóraði sér í hausnum með hálfgert samviskubit.

Næst kaupum við gervi, það er skömm að því að vera að fella blessuð trén, sagði konan. Já, það er kannski rétt, sagði karlinn og klóraði sér í hausnum með hálfgert samviskubit. Honum varð hugsað til þess fjölda jólatrjáa sem prýða stofur landsmanna nokkra daga á ári og hljóta svo þau örlög að kurlast niður hjá Sorpu – eða það sem átakanlegra er, að fjúka út í buskann. Þvílíkt tilgangsleysi, hugsaði karlinn, og fann hjá sér sjaldgæfa samstöðu með konunni í þessu máli. Nú væri hugarfarsbreytingar þörf, því ekki þýddi endalaust að höggva niður skóga landsins og annarra landa fyrir eitthvert stofutildur. Útrýming skóganna hlyti að vera á næsta leyti – gervi og ekkert annað kæmi til greina um næstu jól.

Þessi hjónakorn eru þjökuð af því sem kalla mætti innrættu umhverfissamviskubiti. Eins og svo mörgum hefur þeim verið innrætt sú hugsun, að notkun mannsins á gæðum náttúrunnar sé af hinu illa og leiði til glötunar. Þau vilja því eðlilega leggja sitt af mörkum og kaupa gervitré, það er nú það minnsta sem þau geta gert fyrir umhverfið. En er umhverfinu gerður einhver greiði með því að hætta að kaupa lifandi jólatré? Nei, þvert á móti. Sala „lifandi“ jólatrjáa er nátengd fyrirbæri sem nefnist skógrækt í atvinnuskyni, til aðgreiningar frá því sem kalla mætti skógrækt-á-tyllidögum. Sá sem ræktar skóg í því skyni að hafa af því lifibrauð er líklegastur til að gæta þess, að tefla ekki lifibrauðinu í tvísýnu. Fyrir hann er fjárhagsleg skynsemi í því fólgin, að verja hluta af söluhagnaðinum í það að endurnýja auðlindina.

Þannig er það skógræktandum í hag að viðgangur skógarins sé sem mestur og hann er til þess færastur að sjá um að svo sé. Grunnforsendan er auðvitað sú, að skógræktandinn eigi það land sem notað er til ræktunar. Séreignarrétturinn tryggir þannig virka umhverfisvernd fyrir þessa auðlind, eins og aðrar. Hjónakornin geta því óhrædd haldið áfram virkri umhverfsivernd með því að versla við þá sem rækta jörðina.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.