Vaxtaónæmið

Hlutabréf í kauphöllinni við Wall Street í New York ruku upp í gær eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti um verulega vaxtalækkun. Sérstaklega eru það bréf í hátæknifyrirtækjum sem hafa hækkað mikið en gengi þeirra hefur verið brösótt að undanförnu.

Hlutabréf í kauphöllinni við Wall Street í New York ruku upp í gær eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti um verulega vaxtalækkun. Sérstaklega eru það bréf í hátæknifyrirtækjum sem hafa hækkað mikið en gengi þeirra hefur verið brösótt að undanförnu. Fjárfestar höfðu haldið sér höndum, þar sem þreytumerki voru farin að færast yfir efnahagslífið og margt benti til að hagvöxtur færi minnkandi. Þar réð miklu að Alan Greenspan, yfirmaður Seðlabankans, gaf ítrekað í skyn vaxtahækkanir til að stemma stigu við aukinni verðbólguhættu. Á þessu sést hversu evrópskir markaðir, og kannski sérstaklega sá íslenski, standa mörkuðum vestra langt að baki.

Bandaríski markaðurinn er þannig mjög næmur fyrir breytingum á vaxtastigi, en þessu virðist öðruvísi farið hér á landi. Hvort sem vextir eru á niðurleið eða uppleið virðist lántökuviljinn lúta alveg sérstökum lögmálum. Þannig virðist sem vaxtastýring peningayfirvalda sé ekki nálægt því eins öflugt tæki í evrópskum fjármálaheimi eins og hún er í hinum bandaríska. Þrátt fyrir mjög háa vexti hér á landi er alltaf hætta á að verðbólgan fari af stað. Það er kannski hægt að orða þetta þannig, að Íslendingar séu haldnir einhvers konar vaxtaónæmi.

Annar handleggur á þessari umræðu er síðan hið séríslenska vaxtaumhverfi. Ýmsir hafa orðið til þess að benda á hversu dýru verði það sé fyrir okkur keypt að halda í íslensku krónuna. Forsætisráðherra blés á þær ábendingar í áramótaávarpi sínu. Vissulega er það til merkis um stórhug og djörfung íslensku þjóðarinnar að halda úti eigin gjaldmiðli, en erum við tilbúin að halda í krónuna hvað sem það kostar? Á það hefur hins vegar verið bent, að hinu ofursmáa efnahagskerfi Íslendinga sé nauðsynlegt að búa við eigin gjaldmiðil svo hægt sé að grípa inn í þegar með þarf. Að mati DEIGLUNNAR er umræðan um hvort halda eigi í krónuna miklu mikilvægari en niðurinn um „að setja Evrópumálin á dagskrá“.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.