Ertu alveg viss?

Sagt hefur verið að tvennt verði aldrei hægt að sanna eða afsanna. Í fyrsta lagi að Guð sé til, og í öðru lagi að heimurinn sé til. Þótt nútímaheimspekingar þykist eftir aldalangar rannsóknir vera búnir að slá því nokkuð föstu að heimurinn sé í raun og veru til, er áhugavert að sjá hversu mikilli orku nútímamaðurinn eyðir í slíkar vangaveltur.

Það var franski heimspekingurinn René Descartes sem setti saman þá margfrægu setningu: „Cogito, ergo sum“, eða „Ég hugsa, þess vegna er ég“. Setninguna þekkja allir, en sennilega eru ýmsir sem ekki hafa leitt hugann frekar að því í hvaða samhengi hún var sett fram.

Það atvikaðist þannig að Descartes var að velta vöngum yfir því hvað væri í raun og veru hægt að vita. Okkur virðist sem heimurinn sem er í kringum okkur sé til, en þegar okkur dreymir finnst okkur við líka vera í raunverulegum heimi, sem hverfur þó jafnskjótt og við vöknum. Hvernig getum við verið viss um að það sama eigi ekki við um vökuheiminn.

Descartes vonaðist til að finna frumreglu sem hægt væri að leiða alla aðra þekkingu af, svipað og stærðfræðingar gera. Í leit að slíkri frumreglu komst hann að þeirri niðurstöðu að hann gæti ekki verið viss um neitt, nema það að af því að hann væri að leita að þessari frumreglu þá hlyti hann að vera til. Þessa frumreglu notaði hann svo til að sýna fram á að heimurinn hlyti að vera til líka.

Frumreglan sem Descartes setti fram þykir í grundvallaratriðum enn standa fyrir sínu. Öðru gildir um þá röksemdafærslu sem hann notaði til að sýna fram á að heimurinn væri til. Hún er eitthvað á þessa leið:

„Ég er til, og er ófullkomin vera. Engu að síður trúi ég á að til sé fullkomin vera (Descartes trúði á Guð). Þar sem ég er svo ófullkomin vera er útilokað að ég geti ímyndað mér veru sem er jafnfullkomin og Guð. Þar af leiðandi hlýtur Guð að vera til, og það hefur verið hann sem kom fyrir í huga mér þessari hugmynd um fullkomnu veruna. En af því að Guð er til og er fullkominn, þá lýgur hann ekki að mér (því það er ljótt og ófullkomið að ljúga). Þess vegna myndi Guð ekki blekkja mig með því að láta mig halda að heimurinn sé til ef hann væri það í raun og veru ekki.“

„Það vellur upp úr honum vitleysan“ er líklegt að andsvarið yrði ef einhver héldi því fram í dag að röksemdafærsla á borð við þessa væri sönnun á nokkrum sköpuðum hlut. Engu að síður hefur röksemdafærslan fyrir því að heimurinn sé til ekki skánað til muna á þessum 400 árum síðan Descartes lagði sína „sönnun“ á borðið. Sumir heimspekingar segja að það væri bara of mikið vesen fyrir einhverja veru að blekkja mann til að halda að heimurinn sé til, en flestir viðurkenna þó á að í þessum efnum verði fólk bara að trúa, eða trúa því ekki, að heimurinn sé til.

Og það eru ekki bara heimspekingar sem velta sér upp úr þessari spurningu. Fólk virðist heillað af þeirri hugmynd að allt sem það hefur séð sé hugsanlega bara einn risastór blekkingarvefur. Ýmsar frægar kvikmyndir byggja algerlega á vangaveltum Descartes, svo sem „Matrix“, „The Truman Show“, „Last Action Hero“ og „Dark City“. En í mun fleiri myndum upplifa aðalpersónurnar efasemdir um raunveruleikann sem þær skynja, svo sem í „Total Recall“, „The Sixth Sense“, „The Others“, „Fight Club“, „Blade Runner“.

Myndirnar „Matrix“, „The Truman Show“, „Last Action Hero“ og „Dark City“ eiga það allar sameiginlegt að aðalpersónurnar lifa í blekkingarvef. Heimurinn sem þær halda að þær búi í er alls ekki raunverulegur heimur. En það er ekki það eina: Allar eiga myndirnar líka sameiginlegt að utan við þennan blekkingarheim er raunverulegur heimur, heimurinn okkar. Við erum semsagt til og heimurinn okkar líka. Hjúkk!

Hollývúdd gengur út á það að láta fólki líða vel, og ef bíómynd skildi eftir í huga fólks efasemdir um að heimurinn væri í raun og veru til, myndi því líða illa. Sífellt fleiri nútímamenn geta sætt sig við að varpa fyrir róða trúnni á Guð. En enginn er tilbúinn að hætta að trúa á raunveruleikann, því þá yrði allt svo tilgangslaust.

Ef heimurinn væri ekki til myndi enginn lesa þennan pistil annar en ég. Svo ég kýs að trúa því að heimurinn sé til, því annars væri ekki til neins að skrifa hann. En get ég verið viss? Og hvað með þig, lesandi góður, ertu alveg viss?

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)