Furðulegt furðuverk

makeover.gif Eitt af mínum uppáhaldslögum úr barnæsku heitir ,,Ég er furðuverk“. Ég hef hingað til ekki velt mér mikið upp úr boðskap lagsins heldur dáðst að kraftinum í flutningi Rutar Reginalds og laglínunni sem er grípandi og skemmtileg. Eftir að ég las viðtal við hana á blaðsíðu 46 í Fréttablaðinu á sunnudaginn var fór ég hins vegar af einhverjum ástæðum að velta fyrir mér inntaki textans og hef komist að því að boðskapur hans gengur þvert á þann boðskap sem Rut Reginalds sendir þjóðinni með gjörbreytingu útlits síns á næstu mánuðum.

makeover.gif Eitt af mínum uppáhaldslögum úr barnæsku heitir ,,Ég er furðuverk“. Ég hef hingað til ekki velt mér mikið upp úr boðskap lagsins heldur dáðst að kraftinum í flutningi Rutar Reginalds og laglínunni sem er grípandi og skemmtileg. Eftir að ég las viðtal við hana á blaðsíðu 46 í Fréttablaðinu á sunnudaginn var fór ég hins vegar af einhverjum ástæðum að velta fyrir mér inntaki textans og hef komist að því að boðskapur hans gengur þvert á þann boðskap sem Rut Reginalds sendir þjóðinni með gjörbreytingu útlits síns á næstu mánuðum.

Fyrir þá sem hafa gleymt textanum er hann birtur hér


Furðuverk

Ég á augu, ég á eyru

ég á lítið skrítið nef.

Ég á augabrúnir, augnalok

sem lokast þegar ég sef.

Ég á kinnar og varir rauðar

og á höfði hef ég hár

Eina tungu og tvö lungu

og heila sem er klár

Ég á tennur og blóð sem rennur

og hjarta sem að slær.

Tvær hendur og tvo fætur

Tíu fingur og tíu tær.

Ég get gengið, ég get hlaupið

Kann að tala mannamál.

Ég á bakhlið, ég á framhlið

Innst inni hef ég sál

Ég er furðuverk, algert furðuverk

Sem að Guð bjó til

Ég er furðuverk, algert furðurverk

Lítið samt ég skil.

Lag og texti: Jóhann G. Jóhannsson

Meginboðskapur þessa lags er sá að það sé hreint furðuverk og guðs blessun að fæðast heilbrigður, það er að allir útlimir séu til staðar sem og að önnur líffæri skuli virka eðlilega.

Vissulega er það svo að á lífsleiðinni geta sjúkdómar og/eða slys valdið því að útlimi þarf að fjarlægja og að útlit fólks gjörbreytist. Þá geta lýtalækningar gert kraftaverk í þá átt að fólk geti lifað sem eðlilegustu lífi eða jafnvel náð algjörlega fyrra útliti. Einnig er það staðreynd að það getur lagst þungt á fólk ef það telur sig hafa verulegan útlitsgalla, hvort sem það er stórt nef, útstæð eyru eða lítil brjóst, og lýtaaðgerð getur þá stuðlað að því að fólk öðlist meira sjálfstraust og þar með betri líðan.

Það er ánægjuefni ef fólki líður umtalsvert betur við það sem í flestum tilfellum er tiltölulega einföld skurðaðgerð

Rut Reginalds var í sjónvarpsþætti í janúar þar sem ég dáðist að því hversu vel hún leit út. Stórglæsileg kona sem ljómaði af útgeislun. Ég sá ekki neitt athugavert við nef hennar, barm né maga. Hins vegar litu þessir líkamshlutar e-ð svo allt öðruvísi út, þegar farðinn hafði verið þveginn burt, hárið var ekki tiltekið og mynd var tekinn af henni allan hringinn, í óeðlilegri birtu og nærmynd og sýnd í sjónvarpi nokkrum vikum síðar. Mér finnst hún sýna hugrekki að sýna þessa hlið á sér en vona jafnframt að eftir aðgerðirnar fái sjónvarpsgestir að sjá hana án farða, klæðalitla og með sömu hárgreiðslu til að fá réttan samanburð á því hvernig hún var fyrir og eftir aðgerðina.

Hins vegar get ég ekki samþykkt að fólki verði betra við það að reyna að láta sér líða betur eins og Rut fullyrðir í áðurnefndri grein í Fréttablaðinu. Þar segir hún orðrétt ,,Þetta verður mikið ferli þar sem á að breyta mér í betri manneskju” Jafnframt er haft eftir henni að hún sé nýbúin að loka bók þar sem fjallað var um fortíð hennar og það sé kominn tími til að byrja nýtt líf. Þessar fullyrðingar finnst mér betur lýsa manneskju sem á í innra stríði við sjálfa sig og telur að hún geti breytt persónugerð sinni með útlitsbreytingum. Því tel ég að Rut sé í þessum leik á röngum forsendum og vona að hún leiti annarra leiða til að sætta sig við sjálfa sig en að leggjast undir hnífinn.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.