Fjölmiðlar og flokkarnir

StjórnmálaflokkarEr það tvískinnungur að halda því fram að almenningur eigi rétt á upplýsingum um eignarhald fjölmiðlanna, en neita að veita upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokkanna? Er hægt að bera saman eignarhald á fjölmiðlum og fjárstyrki til flokkanna? Krafan um gagnsæi er grunnforsenda nútíma samfélags.

StjórnmálaflokkarMikið hefur borið á áhyggjum landsmanna yfir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði undanfarnar vikur. Þessar áhyggjur hafa vaxið í samræmi við nokkrar undarlegar uppákomur hjá einkareknu fjölmiðlum landsins. Þannig virðist talsmönnum þessara fyrirtækja hafa tekist að grafa undan eigin málstað með ákvörðunum sínum. Þessu til stuðnings mætti nefna þegar Agli Helgasyni var gert að hætta með umræðuþátt sinn á Skjá einum, þar sem þátturinn þótti endurspegla skoðanir stjórnandans. Þegar fundargerðir Baugsmanna birtist á forsíðu Fréttablaðsins án athugasemda stjórnarmanna. Loks mætti nefna hreinsanirnar á Stöð 2, sem hófust á Laxveiðimálinu svokallaða og enduðu með uppsögn Árna Snævarrs, fréttamanni ársins.

Ljóst er að eigendur fjölmiðlafyrirtækja geta haft áhrif á fréttaflutning starfsmanna sinna. Erfiðara er að svara spurningunni um hvort þeir geri það. Við ráðningu fréttastjóra eru að vissu leyti línurnar lagðar. Eigendurnir gætu ráðið hægri sinnaðan kvótakóng, eða “vinstri” sinnaðan stjórnarandstæðing, sem skrifar varla leiðara án þess að skjóta á Davíð Oddson.

Málið snýst um undir hvaða yfirskini þetta er gert. Fáir amast við hlutdrægni ritstjórnar frelsi.is eða Múrsins, þar sem lesendum er ljóst að um er að ræða pólitísk rit sem fela sig ekki bak við hlutlægni heldur gera út á ákveðnar skoðanir. Sama mætti nefna um gamla Moggann, Alþýðublaðið, Þjóðviljann, Tímann o.s.frv.

Þetta vandast þegar tiltekinn fjölmiðill ber fyrir sig ritstjórnarlegt sjálfstæði og óhlutdrægan fréttaflutning, en neitar að segja til eiganda eða húsbónda síns. Hefur undirritaður ekki ennþá áttað sig á afhverju Baugsmenn vildu ekki staðfesta eignaraðild sína í Fréttablaðinu, ef það breytti engu um rekstur þess. Þegar óvissa myndaðist um eignarhald á Norðurljósum, talaði Davíð Oddson um mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag að almenningur vissi hver væri að segja þeim fréttirnar. Einungis þannig gætu borgararnir áttað sig á réttmæti þeirra og hlutlægni.

Þessa umræðu má færa yfir á fjármál stjórnmálaflokkanna og spyrja hver fjármagni þá(eða hver eigi þá?). Er það ekki jafnmikilvægt fyrir íslenskt samfélag og almenning að vita hver er að fjármagna flokkana og hver er að fjármagna fjölmiðlana. Hverjir sjá fjárfestingu sinni vel varið með styrkjum til ákveðinna stjórnmálaflokka og hvaða áhrif þessir peningar hafa án vitneskju kjósenda. Hægt er að benda á almenna flokksmenn sem styrkja flokkinn sinn árlega, en hve miklir þessir fjármunir eru í samanburði við stærri fjárfestingar fyrirtækja og annarra, er erfitt að svara á meðan flokkarnir neita að gefa þessar tölur upp. Þetta er tvískinnungur sem á við flest alla stjórnmálaflokkana, og stríðir gegn þeim grundvallarhugsjónum að í nútíma samfélagi og markaðshagkerfi ríki gagnsæi.

Í síðustu kosningum kom það greinilega í ljós að peningar og auglýsingar geta haft gríðarleg áhrif á gengi stjórnmálaflokks. Hvort hann bíði afhroð eða tapi kosningum, en vinni í leiðinni varnarsigur og komist að lokum í forsætisráðherrastólinn. Ekki er hægt að halda því fram að fréttastjórar hugsi um atvinnurekanda sinn og húsbónda við fréttaflutning sinn án þess að velta fyrir sér þessum þætti í starfi stjórnmálaflokkanna, þar sem fjárstyrkir til flokkanna skipta verulegu máli.

Löngu er orðið tímabært að allir stjórnmálaflokkarnir geri grein fyrir því hvaða aðilar sjá sér hag í því að styrkja þá. Einungis þannig getur almenningur tekið meðvitaðar ákvarðanir þegar kemur að kosningum. Ef þetta yrði til þess að fæla einhverja frá því að styrkja ákveðinn stjórnmálaflokk, þar sem þeir vilja ekki láta nafn síns getið, er það lítið gjald fyrir virkara lýðræði.

Latest posts by Sigurður Örn Hilmarsson (see all)